„Það gekk ótrúlega vel að byrja aftur að hlaupa“

Lífið snýst um hlaup og að sinna syninum.
Lífið snýst um hlaup og að sinna syninum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlaupadrottningin Elísabet Margeirsdóttir er þekkt fyrir að hlaupa löng fjallahlaup. Hún er líka eigandi Arctic Running og Náttúruhlaupa þar sem fólk á það til að smitast af hlaupabakteríunni en hlaup eiga að snúast um að hlaupa og njóta að sögn Elísabetar.

„Við erum ótrúlega stolt af því hversu mörg hafa komið á grunnnámskeið hjá okkur og fundið sig í hlaupunum. Fólk sem hafði enga trú á því að það hefði gaman af því að hlaupa. Síðan erum við með sérstök námskeið sem undirbúa fólk fyrir keppnishlaup,“ segir Elísabet sem starfar í nánast fullu starfi við hlaup hvort sem það felst í að skipuleggja námskeið fyrir öll getustig, halda keppnishlaup eða skipuleggja hlaupaferðir.

Fjölbreytileikinn er það sem heillar Elísabetu þegar kemur að utanvegahlaupum. „Leiðirnar eru svo ólíkar hvað undirlag varðar og útsýni. Einnig finnst mér einn mesti kosturinn við þau að komast út úr umferðinni og finna innri ró á fallegum stígum. Við upplifum náttúruna á einhvern allt annan hátt á hlaupum og einnig kennum við fólki að staldra við og njóta,“ segir hún.

„Annar stór kostur utanvegahlaupa er að við hlaupum yfirleitt á mjúku undirlagi sem fer betur með líkamann en að hlaupa á malbiki. Einnig vegna þess að undirlagið er fjölbreytt, það er ekki alveg slétt, þá eru engin tvö skref eins sem minnkar einnig álag á liði miðað við að hlaupa í sama skrefinu á sléttri götu. Hraðinn er aðeins minni í utanvegahlaupunum því við erum oft að fara upp brekkur og göngum upp þær bröttustu. Þó við förum hægar þegar við hlaupum á hæðóttum stígum þá erum við að eyða heilmikilli orku og þurfum að virkja gríðarlega marga litla vöðva til að halda jafnvægi. Aðalmálið er þó að fólk fari mjög rólega af stað því að öll hreyfing getur valdið eymslum ef farið er of geyst af stað. Þetta er sér í lagi mikilvægt í þessari íþrótt því til að endast í henni þarftu að kunna að njóta í botn áður en þú ferð að hlaupa hratt eða keppa í utanvegahlaupum,“ segir Elísabet.

Elísabet segir ólíkt að hlaupa á hlaupabretti og úti í …
Elísabet segir ólíkt að hlaupa á hlaupabretti og úti í náttúrunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tók smá skref til að byrja með

Elísabet eignaðist sitt fyrsta barn með sambýlismanni sínum, Páli Ólafssyni, fyrir tæpum tveimur árum. Lífið hefur vissulega breyst eftir að hún varð móðir. „Eftir að ég varð móðir hef ég auðvitað þurft að endurskipuleggja mig og nýta daginn miklu betur en ég gerði áður. Þá skiptir máli að vera með þjálfara og hlaupaáætlun sem auðveldar allt skipulag. Ég vil hámarka tímann með syni mínum og ég reyni eftir bestu getu að klára æfingar áður en ég sæki hann á leikskólann þó það gangi auðvitað alls ekki alltaf upp,“ segir Elísabet.

Hvernig gekk að koma til baka eftir meðgönguna?

„Það gekk ótrúlega vel að byrja aftur að hlaupa eftir meðgöngu. Ég var mjög virk alla meðgönguna sem hjálpaði líklega mikið þar sem ég hélt mér í góðu líkamlegu standi allan tímann. Eftir fæðingu þarf vissulega að taka því rólega og gefa líkamanum góðan tíma til að jafna sig. Ég var fljótt komin út í langa göngutúra og gekk með vagninn út um allan bæ. Það var nauðsynlegt á þessum tíma að komast út og hreyfa sig. Eftir um tíu til tólf vikur fékk ég grænt ljós frá sjúkraþjálfara að byrja að hlaupa markvisst og ég gerði það í mjög smáum skrefum. Fylgdi bara svona „úr sófanum í 5km“ áætlun að mestu og eftir um mánuð af því var ég farin að hlaupa samfellt í allt að þrjátíu mínútur í einu.

Á þessum tíma byrjaði ég þó að æfa mikið í fjöllum og notaði hraðar fjallgöngur til að bæta formið. Þessi rólegu hlaup sem ég braut upp með gönguhléum ásamt fjallaæfingum gerði það að verkum að ég gat keppt í Laugavegshlaupinu um fimm mánuðum eftir fæðinguna. Það gekk alveg merkilega vel og kom ég sjálfri mér rosalega á óvart. Var ekkert langt frá mínum bestu tímum og endaði í fjórða sæti. Ég verð þó að láta fylgja með að eftir sumarið fann ég fyrir mikilli þreytu þar sem ég lagði svona mikla ofuráherslu á að koma til baka eftir fæðinguna. Allur frítíminn minn á milli brjóstagjafa og eftir svefnlausar nætur hafði farið í þessar æfingar og um haustið þá fann ég að ég hafði líklega farið frekar geyst af stað.“

Finnur þú mun á líkamanum?

„Ég finn einhvern smá mun já. Mjaðmasvæðið og neðra bakið á mér er ekki alveg eins og það var áður og er einhver smá skekkja í mér. Ég er viðkvæmari fyrir meira álagi og er að vinna í þessum veikleikum. Út af þessu hef ég ekki getað æft á miklum hraða en þá er gott að hafa ástríðu fyrir fjalla- og ofurhlaupum þar sem hraðinn skiptir ekki alveg eins miklu máli. Mig dreymir þó alveg um að geta æft eins og áður í vetur til að ná lengra í mínum hlaupum næsta sumar en það kemur vonandi á endanum.“

Náttúruhlauparar ættu ekki að óttast íslenska veðrið.
Náttúruhlauparar ættu ekki að óttast íslenska veðrið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fór í sánuferðir fyrir Taílandsferðina

Elísabet var ánægð með hlaupaárið 2022 og segist hafa farið í mörg skemmtileg og mögnuð hlaup í fyrra. „Ég átti heilt yfir alveg frábært tímabil og náði flestum mínum markmiðum. Allt frá tæplega 20 kílómetra löngu hlaupi og upp í 108 kílómetra langt hlaup. Ég tók þátt í Mýrdalshlaupinu í maí og sigraði síðan Esjumaraþonið í júní. Ég var stolt af því að ná að lenda á palli í Laugavegshlaupinu. Ég lenti í þriðja sæti í því og jafnaði minn besta tíma sem ég á þar. Í ágúst var það síðan Fimmvörðuháls Náttúruhlaupa sem ég keppti sjálf í og fannst það alveg stórkostleg upplifun. Ég get svo sannarlega mælt með því fyrir alla sem vilja upplifa eitthvað magnað á hlaupum.

Stærstu keppnirnar mínar voru síðan í haust en í september fór ég til Sviss og tók þátt í Wildstrubel by UTMB, en það er 108 kílómetra langt með 6000 metra hækkun. Ég ætlaði mér stóra hluti þar en var á endanum sátt við 5. sætið í kvennaflokki eftir að hafa lent í smá örðugleikum. Til dæmis hélt ég ekki niðri næringu seinni hluta keppninnar. Í byrjun nóvember tók ég þátt í mögnuðu landsliðsverkefni en ég var valin í utanvegalandslið Íslands sem fór alla leið til Taílands að keppa á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum. Við vorum tíu hlauparar frá Íslandi. Fimm tóku þátt í 40 kílómetra keppninni og fimm í 80 kílómetra keppninni. Ég var skráð í 80 kílómetra vegalengdina, leiðin var með hátt í 5000 metra hækkun. Það var gríðarlegur hiti í Tælandi og þurfti ég að finna dágóðan tíma í vikunum á undan til að fara í sánu til að reyna að venjast hita fyrir keppnina. Keppnin hjá mér gekk mjög vel og náði algjörlega mínum markmiðum sem voru að hafa gaman af og klára keppnina vitandi það að ég gerði mitt besta,“ segir Elísabet.

Elísabet hreinsar hugann þegar hún hleypur.
Elísabet hreinsar hugann þegar hún hleypur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um hvað hugsar þú þegar þú hleypur?

„Ég hugsa ekki um neitt sérstakt á hlaupunum en oft fer ég út í alls konar pælingar í tengslum við það sem ég er að fást við hverju sinni. Hlaupin eru einnig frábær leið til að velta upp hlutum og einnig til að fá alls konar nýjar hugmyndir. Stundum er gott að gera upp einhver mál í huganum á hlaupum. Þegar ég kem heim er ég betur í stakk búin til að taka einhverjar ákvarðanir. Í lengri hlaupum fer hugurinn mikið á flug eða maður bara týnist í umhverfinu. Þú kemst í ákveðið flæði og ert kannski aðeins að hugsa um það sem er fram undan í hlaupinu, þannig getur tíminn liðið alveg ótrúlega hratt í keppnum sem tekur kannski yfir sólarhring að klára.“

Að hlaupa og njóta

Að hlaupa utanvegar og að hlaupa á hlaupabretti er eins og að bera saman epli og appelsínur, segir Elísabet. „Það er allt öðruvísi að hlaupa úti en á hlaupabretti og eiginlega ekki hægt að bera það saman. Ég hef oft notað hlaupabrettið mikið í undirbúningi fyrir keppni yfir vetrartímann. Persónulega hentar hlaupabrettið mér ekki nægilega vel í dag þar sem líkami minn þolir ekki eins vel að hlaupa hratt í sama skrefinu,“ segir Elísabet.

Hvað fær fólk út úr því að vera í skipulögðum hlaupahópi?

„Það fær alveg ótrúlega margt út úr því að hlaupa með öðrum og í hóp. Það er mikilvægt að hópurinn henti þér og þínum hraða. Að þú hlaupir á þægilegum hraða þar sem þú getur spjallað. Löngu æfingarnar eru skemmtilegastar og alltaf gott að hafa hóp til að hitta þegar veðrið er ekki spennandi. Við erum aðallega að sækjast í skemmtilegan félagsskap og gott spjall við alls konar fólk sem deilir sama áhugamáli. Aðhaldið getur líka verið mikilvægt til að halda sér við efnið. Náttúruhlaup eru einnig með svokallaðar gæðaæfingar á virkum dögum þar sem þjálfarar leggja fyrir ákveðin verkefni sem eiga að ögra fólki aðeins, til dæmis í brekkum og sprettum. Þar hleypur fólk einnig alveg á sínum hraða og forsendum en það er mun skemmtilegra að hitta hóp til að gera þessar krefjandi æfingar,“ segir Elísabet.

„Hlaupasamfélag Náttúruhlaupa hefur vaxið mikið síðustu árin, þökk sé okkar frábæru þjálfurum sem stýra æfingum eða fylgja hópunum á lengri upplifunaræfingum. Okkar sérstaða felst í því að við erum saman að hlaupa og njóta. Á upplifunaræfingum er alltaf farin ný leið og er alltaf þjálfari fremst og aftast í hverjum hóp. Í dag erum við með fimm getuskipta hópa og því erum við nokkuð örugg um að allir finni sér hóp við hæfi sem þeim líður vel að hlaupa með. Einnig er alltaf þjálfari aftast í hópunum sem passar að enginn týnist eða endi einn síðastur,“ segir Elísabet.

„Það er mjög sjaldgæft að við látum veðrið stoppa okkur á æfingum. Hins vegar reyni ég að velja tímann fyrir löng hlaup þegar veðrið er gott, en það er algjör lúxus að geta það þegar maður býr á Íslandi og oft ekki í boði að hlaupa í góðu veðri,“ segir Elísabet og tekur fram að þau fylgist vel með veðurspánni, kanni aðstæður og allir séu á broddum þegar þess þarf.

Margir eru enn brenndir eftir píptest í leikfimitímum í grunnskóla og segir Elísabet skilja það vel. Það þarf þó ekkert að óttast og snúast náttúruhlaupin um allt annað.

„Píptestin snerust um það að hlaupa sömu vegalengdina alltaf hraðar og hraðar. Ég hugsa að fáir taki slíkar æfingar í dag. Það er gott að hlaupa hratt stundum og pína sig smá, en við mælum alls ekki með því fyrr en að fólk ræður vel við það að hlaupa rólega nokkrum sinnum í viku. Það þarf að byggja upp ákveðinn grunn, bæði út frá stoðkerfi og einnig hjarta- og æðakerfi til að þola vel hraðari hlaup og til að fá eitthvað almennilegt út úr þeim og án þess að meiðast. Margir hafa gott þol úr öðrum íþróttum en það þurfa allir að undirbúa líkama sinn vel fyrir hlaup. Það er gert með því að auka þau jafnt og þétt og fara mjög hægt af stað.“

Elísabet leggur áherslu á að fólk kveljist ekki þegar farið er út að hlaupa. „Fólk tekur ákvörðun um að byrja að hlaupa og drífur sig út. Það hleypur til dæmis fimm kílómetra eins hratt og það getur og líður mjög illa og heldur að þannig séu hlaupin bara. Við viljum ekki að fólk standi á öndinni og fái verki um allan líkamann þegar það byrjar hjá okkur í Náttúruhlaupum. Okkur finnst mikilvægt að leiða fólk í gegnum þennan byrjendafasa til að það byggi góðan grunn að farsælum hlaupaferli og minnki einnig líkur á að lenda í meiðslum,“ segir Elísabet og telur ljóst að allir ættu að finna hlaupahóp við sitt hæfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda