„Við erum líklega flest sammála um að leiðinlegasti mánuður ársins er liðinn. Janúar var ekkert að vanda sig við að vera skemmtilegur. Það er alveg hægt að vera jákvæður og röfla eitthvað um kósíheit, teppi, bók og kertaljós, en ég myndi alltaf kjósa alla aðra mánuði á minn topplista,“ segir Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti í nýjum pistli:
Næstur er febrúar og þá lyftist svolítið brúnin á mér en það getur samt alveg verið verkefni að halda gleðinni og heilsunni í lagi.
Þess vegna datt mér í hug að lista aðeins upp fyrir ykkur hvað virkar vel inn í það verkefni. Þetta er auðvitað alls ekki tæmandi listi, en ég hugsa að þetta myndi virka vel fyrir flesta.
7 atriði sem virka:
- Hreyfing – Já enn eina ferðina tuða ég um þetta. Málið er að þið myndið mótefni gegn streitu, þreytu, kvíða, þunglyndi, orkuleysi, svefntruflunum, verkjum og allskonar neikvæðum erfiðum tilfinningum ef þið hreyfið ykkur. Þið myndið allskonar hormón sem vinna sem móteitur gegn leiðindum og óþægilegum einkennum. Þetta er sannað mál í fjölda rannsókna. Ég gerði smá skoðanakönnun á Instagram hjá mér um daginn. Þeir sem sögðust vera í toppstandi og líða vel í janúar áttu það allir sameiginlegt að hreyfa sig reglulega. Það þarf ekki mikið til, jafnvel bara 10 mínútur á dag geta gert helling. Það eiga allir tíu mínútur í bankanum.
- Það er gríðarlega mikilvægt að fara út undir bert loft, helst daglega og yfir bjartasta tíma dagsins. Þegar við horfum upplitsdjörf inn í birtuna, þá myndar líkaminn serótónín sem heldur okkur betur vakandi, glöðum og vinnur gegn þunglyndi. Þetta er bara svona grunn lífeðlisfræði, sem virkar fáránlega vel. Þið gætuð jafnvel tengt lið eitt og tvö saman og hreyft ykkur úti!
- Ef þið elskið vatn, þá er málið að viðhalda því ástarsambandi. Sund, heitir pottar, heitt bað heima eða jafnvel gufa eða sána er stórkostlega vellíðunar aukandi. Svo á eftir er gott að kúra sig undir teppi og hlusta á tónlist, eða lesa góða bók. Á leiðinni heim úr sundinu mæli ég með að kaupa afskorin blóm. Það er fátt sem gleður mig meira í febrúar en fallegt búnt af túlípönum. Snillingar þessir túlípanar að vera alltaf mættir í verslanir í svartasta skammdeginu.
- Munið að anda. Já auðvitað andið þið öll, en ég meina almennilega. Ekki bara rétt niður í brjóstkassann, heldur ofan í maga. Þetta atriði virkar heimskulega einfalt, en það er samt svo gríðarlega mikilvægt að anda djúpt. Prófið að byrja daginn, sitjandi á rúmstokknum og anda tíu sinnum djúpt ofan í maga. Þetta virkar! Svo þegar þið eruð orðin vön að gera þetta, þá má lengja tímann og útvíkka gleðina. Fara í jóga, læra einhverja góða öndun eða hugleiða. Þetta virkar allt mjög streitulosandi, gleðjandi, kvíðastillandi, hefur góð áhrif á blóðsykurinn og vinnur gegn bólgusjúkdómum.
- Blóðsykurinn já, þar kemur það. Það er gríðarlega mikilvægt að ná góðri stjórn á sykurneyslunni. Í dag vitum við að mikil sykurneysla og blóðsykursrugl getur valdið, eða tekið þátt í að ýta undir allskonar einkenni og sjúkdóma, líkamlega og andlega. Þreyta og orkuleysi, verkir, þunglyndi, kvíði, meltingarvesen, svefnvandamál, gigtarsjúkdómar, húðsjúkdómar, Alzheimer, krabbamein. Listinn er langur. Ef þið eruð í vandræðum með sykurneysluna, þá er mál að taka á því. Það er hægt. Ég skal hjálpa ykkur við það ef þið viljið. Ég geri nánast ekkert annað alla daga en að aðstoða fólk út úr sykur veseni. Flest okkar lendum á einhverjum tímapunkti í rugli með sykurinn, það er voðalega mannlegt. Hins vegar er líka hægt að komst út úr þessum vandræðum og það er örugglega auðveldara en þið haldið.
- Taka inn réttu bætiefnin til að tryggja að allt virki nú sem best. D vítamín (auðvitað), B vítamínin, magnesíum og hugsanlega einhverjar flottar jurtir til að hressa ykkur við. Má þar til dæmis nefna burnirót eða ashwagandha.
- Þetta er mikilvægt – Þakklætið. Ég sá viðtal við flotta 98 ára konu um daginn. Hún var spurð að því hverju hún þakki háan aldur. Hún sagðist aldrei hafa lagst á koddann án þess að þakka fyrir allt það góða í lífinu. Þetta getur vel verið erfitt stundum, ég þekki það vel, en þakklætið er samt alveg fáránlega mikilvægt. Við höfum öll eitthvað að þakka fyrir, alla daga. Það þarf ekki að vera merkilegt. Fyrsti kaffibollinn, heit sturta, gott spjall við einhvern, fallegt bros, sólin sést lengur á lofti í dag en í gær, eitthvað svona. Stóra þakklætið er auðvitað að hafa heilsuna, eiga gott stuðningsnet fjölskyldu og vina, hafa þak yfir höfuðið og eiga fyrir næstu máltíð.
Róm var ekki byggð á einum degi og ef að lífið er erfitt þessa dagana, þá er málið að byrja á einhverju sem er ykkur auðvelt. Velja vel og halda svo áfram.
Það verður komið vor áður en þið vitið af, ég lofa.