Raunveruleikastjarnan Kyle Richards segir pirrandi að sögusagnir gangi um Hollywood að hún hafi notast við nýjasta töfralyfið, lyfið Ozempic sem ætlað er sykursjúkum, til að léttast. Hún segist vakna milli hálf sex og sex á hverjum morgni til þess að fara í ræktina.
Háværir orðrómar hafa verið á kreiki um að Richards, sem þekktust er fyrir að vera í þáttunum Real Housewives of Beverly Hills, noti Ozempic en mikil umræða hefur verið um lyfið undanfarnar vikur.
„Ég þoli ekki að fólk sé að tala um þetta því fólk sem þekkir mig vita að ég vakna á hverjum morgni klukkan hálf sex eða sex. Ég er í ræktinni í tvær klukkustundir,“ sagði Richards í viðtali við Extra TV þegar hún mætti á tónleika í New York-borg á dögunum. „Ég legg mikið á mig til að viðhalda heilbrigðu mataræði og æfa, og að hugsa um sjálfa mig. Þannig að þegar fólk fer að segja að ég hafi valið auðveldu leiðina, þá er það pirrandi,“ sagði Richards.
Richards neitaði því sömuleiðis að hafa farið í svuntuaðgerð. „Stundum þá horfi ég fram hjá svona og hundsa það, en ég legg virkilega mikið á mig og þetta pirrar mig. Mig langar til að vera hvatning fyrir fólk. Þannig ekki halda að ég hafi valið auðveldu leiðina. Fylgist með því sem ég er að gera og þið sjáið breytingar,“ sagði Richards.