„Hver er morgunrútínan þín? Hvað er það fyrsta sem þú gerir eftir að þú vaknar á morgnana? Er það sturta, kaffi á hlaupum og því næst út úr húsi eða gefur þú þér tíma fyrir rólegheita morgunstund, andar að þér deginum, útbýrð hollan morgunverð stútfullan af næringu og orku fyrir daginn og tekur með þér nesti í vinnuna?
Viljir þú bæta líf þitt og heilsu snýst allt um þitt val. Að velja heilbrigðari lífsstíl og líða betur andlega og líkamlega. Ákvarðanir sem þú tekur alla daga oft á dag skipta meira máli en þú e.t.v. áttar þig á, því þær geta breytt ákaflega miklu í lífi þínu,“ segir Ágústa Johnson í nýjum pistli á Smartlandi:
Rétta svarið er ekki endilega að borða morgunverð eða hafa nesti meðferðis. Staðreyndin er einfaldlega sú að við eigum val á hverjum degi, frá því við opnum augun og þar til við hverfum á ný í draumalandið. Núna eða síðar? Hingað eða þangað? Þetta eða hitt? Ætti ég eða ætti ég ekki? Þetta er öllum ljóst, en erum við nægilega meðvituð um það í erli dagsins?
Óhætt er að segja að lífið sé endalaus röð af valkostum. Við stöndum frammi fyrir þeim hverja vakandi mínútu. Keyra eða ganga? Standa eða sitja? Sjónvarp eða lestur? Æfing fyrir vinnu eða eftir? Hreyfing eða sófinn? Nammi eða hnetur? Gosdrykk eða vatn? Jafnvel þegar við erum ómeðvituð um valkostina þá eru þeir þó til staðar, og ákvarðanirnar okkar verða að venjum.
Líttu í kringum þig. Hvar sem þú ert núna er sá staður sem hvert skref sem þú tókst leiddi þig að. Allar ákvarðanir sem þú tókst, hvort sem þær virtust stórar eða smáar á þeim tíma, hvert á að fara, hvað á að borða, hvaða bók á að lesa, hvaða skóm á að klæðast... allt verður samspil af heildarmyndinni þinni í dag. Allar okkar ákvarðanir og það sem við veljum hverju sinni hefur áhrif líf okkar, það sem það er í dag.
Líki þér ekki staðan sem þú ert í núna, ekki örvænta. Þú hefur val, þú getur gert breytingar. Ef þú ert ekki sátt/ur áttu val um að snúa við blaðinu, bæta um betur. Gæti dagurinn í dag verið rétti tíminn til að búa til betri venjur, þær sem leiða þig á betri stað, þangað sem þú vilt vera? Mundu að ÞÚ ert við stjórn, þú getur valið leiðir og tekið ákvarðanir sem bæta líf þitt og líðan.
Líkast til gerir það enginn fyrir þig.