Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, og Arnþór Jónsson, fyrrverandi formaður SÁÁ, eru þýðendur bókarinnar Líkaminn geymir allt eftir dr. Bessel van der Kolk geðlækni. Í bókinni útskýrir Kolk hvernig áföll geta setið í líkömum fólks en kynnir líka leiðir til bata.
„Ég kynntist þessari bók þegar ég var í meistaranámi í fíknifræðum við bandarískan háskóla,“ segir Hugrún, aðspurð hvers vegna þau hafi ákveðið að þýða bókina.
„Ég var í kúrsi sem fjallaði um tengsl áfalla og fíknar, og þessi bók varð mér algjör opinberun um hvernig áföll sitja eftir í líkamsminninu okkar og geta valdið heilsubresti síðar á lífsleiðinni. Á þessum tíma var ég að kveðja ömmu mína sem barðist við fíkn allt sitt líf. Ég var mjög náin henni og hef alltaf vitað að áfallið sem hún varð fyrir á barnsaldri, að missa móður sína, varð til þess að hún missti fótanna síðar á lífsleiðinni. Mér fannst stórmerkilegt að geta skilið þetta allt saman í gegnum þessa bók, að geta skilið hvernig áfallasaga ömmu breytti í raun öllu fyrir mína fjölskyldu. Bókin útskýrir á vísindalegan hátt hvernig áföll úr fortíðinni halda áfram að gerast. Þau geta litað allt líf einstaklingsins og oft líka líf afkomenda hans,“ segir hún.
„Hugrún var upprifin af innihaldi bókarinnar og hvatti mig til að lesa hana,“ segir Arnþór. Hann varð svo hrifinn af bókinni að þau ákváðu að þýða hana saman. Arnþór segir að bókin sé nauðsynleg fyrir alla leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Líka þá sem vinna í félagsþjónustunni, við geðvernd og barnavernd, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, sjúkraliða, sálfræðinga, þerapista og lækna. „Hún er skyldulesning fyrir fólkið sem vinnur í stjórnsýslunni sem setur okkur lögin og reglurnar sem við þurfum að fylgja í samfélaginu,“ segir hann.
„Bókin er líka mjög upplýsandi fyrir allan almenning og fólk sem hefur verið að fást við drauga fortíðar,“ segir Hugrún. „Það eru margir að glíma við áfallastreitu án þess að hafa hugmynd um það. Einstaklingur með áfallastreitu er fastur í berjast/flýja-viðbragðinu og fær skilaboð frá líkamanum í tíma og ótíma um að hann sé í lífshættu. Þetta getur þýtt að líkaminn túlki minnsta áreiti sem hættu og það gerir fólk uppgefið. Margir sem greinast með kulnun, þunglyndi, kvíða, fíkn eða skyldar raskanir eru kannski í grunninn að glíma við áfallastreitu. Þú ert úrvinda því heilinn stoppar ekki. Hann er í vinnu allan sólarhringinn við að halda þér á lífi, halda þér öruggum/öruggri,“ segir hún.
„Það er líka mikilvægt að kerfin okkar kynni sér bókina. Þá á ég til dæmis við lögregluna og einnig refsi- og réttarvörslukerfið,“ segir hann.
„Bókin vekur mikilvægar spurningar um hvernig læknar, lögregla, prestar eða félagsráðgjafar geta greint hvenær einstaklingur bregst við vegna áfallastreitu. Hvenær refsum við fyrir glæp og hvenær hjálpum við fólki að greina orsakir hegðunar sinnar og hjálpum því að setja fortíð sína í samhengi? Þetta eru grundvallarspurningar sem varða okkur öll og eru sérstaklega mikilvægar fyrir þá sem vinna með börnum og ungmennum,“ segir Hugrún.
Þau eru sammála um það að bókin bæti við nýrri þekkingu á sviði áfallagreininga og opni fyrir skilning á flóknum vanda sem flestöll samfélög hafa verið í mjög langan tíma að glíma við án þessa skilnings.
„Hún fjallar um ofbeldi og vanrækslu í öllum sínum ljótu myndum, sérstaklega ofbeldi gagnvart börnum og ungmennum og alvarlegar afleiðingar þess. Hún segir líka sögur af fólki sem sigrast á djúpstæðum vanda og eignast nýtt ástúðlegt og betra líf. Svo mæta Charles Darwin og Sigmund Freud til leiks með sínar pælingar langt á undan sinni samtíð og sagt er frá stóru styrjöldunum og hvernig stjórnvöld tóku á móti hundruðum þúsunda af áfallasköðuðum hermönnum,“ segir hann og Hugrún bætir við:
„Það er svo margt sem ég hafði heyrt talað um áður en aldrei skilið til fulls fyrr en ég las þessa bók. Til dæmis vitum við að andlegt ofbeldi er jafn alvarlegt og líkamlegt. Nú hins vegar skil ég hvað það raunverulega merkir. Líkaminn skrásetur hættu. Hann gerir ekki greinarmun á því hvort hættan er andleg eða líkamleg. Mér finnst líka mikilvægt að átta mig á samhengi depurðar, þunglyndis og áfalla. Áföll taka burtu gleðina sem felst í því að vera á lífi því þú ert allan daginn að reyna að lifa af og berjast við ógn. Allt er ógnvænlegt og þú færð yfir þig alls kyns skynjanir. Um leið og þú reynir að slökkva á þessum skynjunum slekkurðu líka á því sem færir þér gleði og ánægju. Þess vegna á fólk með áfallastreitu erfitt með að bæði halda lífi og njóta lífsins.“
Arnþór og Hugrún eru sammála um að bókin tali beint inn í umræðu um áföll og ofbeldi í samfélaginu.
„Höfundurinn er til dæmis mjög gagnrýninn á skefjalausa geðlyfjanotkun og bendir á að lyf lækni í rauninni ekki áföllin. Þau geti verið hjálpleg til að deyfa einkennin en þau lækni ekkert þótt þau kosti ósköpin öll af peningum,“ segir hann.
„Þegar ég las bókina fannst mér við sem samfélag hreinlega verða að eignast þessa bók á íslensku. Það er mikil umræða um áföll og samfélagið er smám saman að átta sig á tengslum áfalla og góðrar heilsu,“ segir Hugrún.
„Hingað til hef ég ekki fundið mikið af gagnlegu lesefni á íslensku um málefnið. Það er meira um skoðanaskipti en málefnalega umfjöllun. Vestræn læknavísindi hafa lagt áherslu á geðlyf og samtalsmeðferð en áföll breyta því hvernig líkaminn virkar og þess vegna er ekki endilega aðkallandi að sætta sig við allt sem hefur gerst, heldur frekar að ná stjórn á tilfinningum og innri skynjunum. Að finna, nefna og þekkja það sem gerist innra með manni sjálfum er fyrsta skrefið í átt að bata,“ segir hún.
„Bessel van der Kolk fjallar mikið um líkamamiðaða meðferð samhliða annarri nálgun. Áreynslan við að reyna að ná stjórn á óbærilegum líffræðilegum viðbrögðum eftir áfall getur orsakað alls konar líkamleg vandamál. Þegar maður verður fyrir áfalli er eðlilegt viðbragð að aftengjast líkamanum. Þess vegna mikilvægt að vinna með líkamann „og fara inn í hann aftur“. Að endurtengjast líkama sínum er ein áhrifaríkasta leið til að ná bata eftir áfall,“ segir Hugrún.
Eruð þið þeirrar skoðunar að allir verði einhvern tímann fyrir áfalli á lífsleiðinni eða er það bara vitleysa?
„Áföll eru ólík og misalvarleg og auðvitað persónubundið hvernig fólk bregst við og upplifir áföll,“ segir Hugrún. „Það er samt mikilvægt að skilja að áfall er ekki endilega það sem gerist, heldur hvernig taugakerfið vinnur úr þeim atburði eða atburðum sem hafa átt sér stað. Það eru líkamlegu viðbrögðin og úrvinnsla sem ráða úrslitum um hvort atburður leiðir til áfallastreitu. Bati frá áföllum felur í sér að tengjast fólkinu okkar og þess vegna er yfirleitt erfiðara að meðhöndla áföll sem verða innan sambanda en áföll vegna til dæmis umferðarslysa eða náttúruhamfara. Gerendur kynferðisofbeldis, misþyrminga og heimilisofbeldis eru oftast einstaklingar sem ættu að elska þig. Það slær út mikilvægustu vörnina gegn því að lenda í áföllum, að vera í skjóli fólksins sem þú elskar,“ segir hún.
„Höfundur bókarinnar lýsir einmitt vel hvernig heilinn vinnur úr upplifunum, safnar þeim saman og býr til minningar, ævisögulega frásögn með upphafi, miðju og endi sem við getum kallað fram eftir hentugleika,“ segir Arnþór.
„Þetta kerfi bilar í áfallinu og þess vegna eru áfallaminningar öðruvísi, meira eins og tímalaus endurupplifun sem einstaklingurinn hefur enga meðvitaða stjórn á, sundurlausar skynjanir, merkingarlaus hljóð og myndir sem sitja eftir í líkamsminni einstaklinga og setja af stað lífeðlisfræðileg viðbrögð.“
Hvernig er rétt að meðhöndla áfall?
„Lesa bókina og opna hugann fyrir ólíkum leiðum til bata. Sem samfélag þurfum við að læra hlusta á þolendur án þess að skipa okkur í fylkingar. Það á sér sögulega skýringu að trúa ekki fólki. Fólk vill ekki trúa því að heimurinn sé vondur og að fólk sem það þekkir sé gerendur. Við þurfum líka að reyna að að skilja hvaða „lausn“ vandamálið á að leysa. Það sem við köllum sjúkdómseinkenni er oft bara annað orð yfir styrkleika eða bjargráð sem einstaklingurinn hefur notað til að lifa af,“ segir hún.
Hugrún segir að fíkn og áföll séu nátengd og þetta sé oft sá hópur sem á hvað erfiðast með að ná bata frá sjúkdómnum.
„Svo lengi sem við meðhöndlum aðeins einkennin um áföllin og afneitum uppruna þeirra náum við litlum árangri. Það er í sjálfu sér mjög skiljanlegt að nota lyf til að taka burtu sársauka en gjaldið sem þú greiðir er mikið,“ segir hún.
„Þú deyfir allar tilfinningar, góðar og slæmar, og þá verður til annar sjálfstæður vandi. Það er oftast þannig að áföll geta af sér fleiri áföll og sært fólk særir annað fólk. Ef þú ert í slæmum aðstæðum, t.d. í neyslu eða fátækur, ertu útsettari fyrir ofbeldi og jaðarsetningu og erfitt að komast út úr þeim vítahring.“
„Bókin er ekki með neina töfralausn á vandanum,“ segir Arnþór og bætir við: „En höfundurinn, Bessel van der Kolk, hefur gert það að ævistarfi sínu að vinna með þolendum áfalla og nýtir þrjátíu ára reynslu sem geðlæknir og vísindamaður til að skrifa þessa bók. Nýjustu vísindarannsóknir sýna að sporin sem áföll skilja eftir í líkamanum geta hafa varanleg áhrif á hvernig við komumst af í nútíðinni. Hugmyndir hans að leiðum til bata eru margvíslegar, djarfar og áhugaverðar og geta vonandi nýst sem innlegg í íslenska samtímaumræðu.“