TikTok-stjarnan Brynhildur Gunnlaugsdóttir er með yfir 1,7 milljónir fylgjenda á miðlinum og því óhætt að segja að myndskeið hennar hafi slegið rækilega í gegn.
Hún hefur verið dugleg að deila sínum uppáhaldsæfingum við góðar undirtektir, en fylgjendur hennar virðist sérlega áhugasamt um þær æfingar sem Brynhildur gerir til að stækka rassinn í ræktinni.
Nýverið deildi Brynhildur myndskeiði þar sem hún afhjúpaði þrjár rassæfingar sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá henni, en hún fór yfir nokkur atriði sem ber að hafa í huga svo æfingarnar skili tilætluðum árangri.
Fyrsta æfingin sem hún fer yfir er réttstöðulyfta með bein hné á öðrum fæti (e. single leg romanian deadlift). Hér segir Brynhildur mikilvægast að beygja sig í gegnum mjaðmirnar og einbeita sér svo að því að lyfta þyngdinni upp með stóra rassvöðvanum (e. gluteus maximus).
Því næst fer Brynhildur yfir mjaðmalyftur með stöng (e. hip thrust). Þar segir hún það sama gilda, að beygja sig í gegnum mjaðmirnar sé lykilatriði. Þá segir hún einnig mikilvægt að halda spennu í stóra rassvöðvanum allan tímann, líka á leiðinni niður úr efstu stöðu.
Síðasta æfingin sem Brynhildur fer í eru fótakreppur (e. hamstring curl), en þessi æfing tekur vel á vöðvana atan á læri (e. hamstring). Hún segir æfingar fyrir vöðva aftan á læri afar mikilvægar fyrir stæltan rass og því séu fótakreppur ómissandi í hennar æfingarrútínu.