Bandaríska söngkonan Bebe Rexha greindist nýlega með fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (e. polycystic ovary syndrome/PCOS). Hormónasjúkdómurinn getur valdið ófrjómsemi, óreglulegum blæðingum, bólum og þyngdaraukningu en konur með þetta heilkenni hafa óeðlileg hormónagildi og eru einnig í frekari áhættu að greinast með sykursýki II, legbolskrabbamein og hjartavandamál.
Rexha sem er 33 ára gömul ræddi um greininguna í nýlegu viðtali við Gayle King í SiriusXM–þættinum, Gayle King in the House, og sagði einnig frá því hvernig heilkennið hefur haft áhrif á hana. „Ég komst heldur nýlega að því að ég er með fjölblöðrueggjastokkaheilkenni eins og margar aðrar konur. Og margar konur þjást af heilkenninu án þess að hafa hugmynd um það,“ sagði söngkonan.
Óútskýrð þyngdaraukning er eitt af helstu einkennum heilkennisins og eitt af því sem Rexha hefur átt hvað erfiðast með svona í byrjun. „Ég hef verið að berjast við mat síðan ég man eftir mér. Þegar ég byrjaði í tónlistarbransanum, ung og lífleg, og undirritaði minn fyrsta plötusamning heyrði ég nánast áður en blekið þornaði: Ertu tilbúin? Þú þarft að komast í betra form. Þú þarft að missa 10 kíló,“ sagði Rexha við King.
Þyngdaraukning söngkonunnar hefur verið mikið á milli tannanna á fólki og var myllumerkið #beberexhaweight eitt það vinsælasta og umtalaðasta á samfélagsmiðlinum TikTok fyrir örfáum vikum. „Að sjá þetta er svo pirrandi,“ skrifaði Rexha á Twitter. „Ég er ekki reið yfir þessu, þetta er satt. Ég þyngdist. Það er bara leiðinlegt að þetta skuli skipta svona miklu máli.“
Þessi miskunnarlausa þráhyggja annarra yfir stærð Rexha og skaðleg ummæli fólks á netinu hafa þó kennt söngkonunni dýrmæta lexíu. „Það er mikilvægt að hafa gott félagsnet. Ég hef verið á ótal rauðum dreglum brosandi og veifandi en liðið svo illa af því að ég var umkringd allri þessari neikvæðni. Nú vil ég bara ekki hafa þetta í kringum mig lengur.“
Söngkonan sagði þetta einnig stórt og mikilvægt skref fyrir sig þar sem hún hefur lengi átt í erfiðleikum með líkamsímynd sína og nú þegar hún er farin að læra á sjálfið og líkama sinn með fjölblöðrueggjastokkaheilkenni þá vill hún ekki alla þessa óþarfa neikvæðni. „Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með útlitið. Það hefur verið mjög erfitt.“