Svona fyrirgefur þú sjálfum/sjálfri þér

Unsplash/Imani Bahati

Að fyrirgefa öðrum getur verið mjög erfitt. En hvað gerist ef manneskjan sem þú þarft að fyrirgefa ert þú sjálf? Mörg okkar eru of sjálfsgagnrýnin og það getur verið mjög erfitt að fyrirgefa sjálfum sér fyrir að hafa gert mistök eða sært einhvern.

Hvort sem þú komst með nokkrar kærulausar athugasemdir á mannamóti, berð ábyrgð á hugsanlegum vinslitum eða þér finnst þreytandi að geta aldrei staðið með sjálfri/sjálfum þér, þá getur það verið hreint út sagt ómögulegt að binda enda á sjálfsfordæminguna. Þú skilur kannski ekki einu sinni hvers vegna það er svo erfitt að fyrirgefa sjálfum/sjálfri þér, jafnvel þótt þú haldir að þú sért tilbúin(n) til þess.

Hér eru nokkur ráð til þess að ná að fyrirgefa sjálfum sér.

Staðfestu getu þína til að fyrirgefa sjálfri/sjálfum þér

Það er fullkomlega eðlilegt ef þú getur varla hugsað um það sem þú hefur gert án þess að þurfa fljótlega að einbeita þér að einhverju öðru. Einnig er það eðlilegt ef þú upplifir endurteknar hugsanir um ástandið. Þess vegna getur fólk sem á erfitt með sjálfsfyrirgefningu fundið fyrir þunglyndi, kvíða og svefnleysi. Sum leita jafnvel í sjálfsskaða og eiturlyf til að deyfa tilfinningarnar.

Þér getur þótt það óframkvæmanlegt að fyrirgefa sjálfum/sjálfri þér ef allt sem þú gerðir, eða gerðir ekki, liggur þungt á þér.
Þess vegna er mikilvægt að geta sagt sjálfum/sjálfri sér að þú komist yfir þetta.

Byrjaðu á því að spyrja sjálfa(n) þig hvort þú trúir á getu þína til að verða betri en á sama tíma viðurkenna að þú sért ekki fullkomin(n), rétt eins og allir aðrir. Jafnvel þótt hugurinn segi nei, getur þú ögrað neikvæðum hugsunum þínum með því að sjá möguleikann á því að fyrirgefa sjálfum/sjálfri þér.

Komdu fram við þig eins og besta vin þinn

Þegar við gerum eitthvað sem er fyrir utan þægindarammann okkar byrjum við oft að refsa okkur fyrir það. Það gerir ekkert gagn og því er mikilvægt að sýna sjálfum/sjálfri sér samkennd.

En hvernig gerir þú það eiginlega? Þú þekkir tilfinninguna þegar besti vinur þinn hringir eftir sambandsslit og byrjar að segja hræðilega hluti um sjálfan sig. Jafnvel þótt það sé tækifæri fyrir vin þinn til að læra af sársauka sínum þá byrjar þú eflaust á því að segja að hann sé nú bara mannlegur og að hann eigi að sleppa tökunum af refsivendinum.

Oft lítum við ekki á sama hátt á okkar eigin veikleika eða mistök. Þess vegna getur þér liðið betur ef þú reynir að tala við sjálfa(n) þig eins og þú myndir tala við besta vin þinn. Getur það hjálpað til við að milda þær neikvæðu tilfinningar sem við berum oft í brjósti til okkar sjálfra.
Reyndu að muna að það er mannlegt að gera mistök og við gerum öll mistök af og til. Kannski varð þér á en það gerir þig ekki að slæmri manneskju. Það er stór munur á því að segja að það sem þú gerðir hafi verið hræðilegt og að segja að þú sért hræðileg manneskja.

Skrifaðu niður staðreyndir

Oft þegar fólki verður á finnur það fyrir yfirþyrmandi sektarkennd. Það getur verið freistandi að horfa á samskiptin með augum sjálfsfyrirlitningar eða jafnvel reyna að afneita afleiðingum gjörða þinna. Ef það er tilfellið gæti verið hjálp í því að skrifa niður hvað gerðist, eða segja það upphátt við sjálfa(n) þig. Þetta getur hjálpað þér að hætta að hugsa of mikið um þetta og líta á ástandið sem reynslu sem þú getur dregið mikilvægan lærdóm af.

Ef þú getur ekki verið heiðarleg(ur) við sjálfa(n) þig um hvaðan sektarkenndin kemur, verður erfiðara að halda áfram og breyta hegðuninni í framtíðinni.

Spyrðu þig hverjar væntingar þínar voru

Önnur leið til að breyta sjónarhorni þínu er að bera kennsl á þann sjálfskipaða staðal sem þú heldur að þér hafi ekki tekist að uppfylla þegar gerðir eitthvað sem þú sérð eftir. Spyrðu þig hverjar væntingar þínar voru. Voru þær byggðar á raunveruleikanum eða voru þetta ef til vill óraunhæfar hugmyndir sem gerðu ekki ráð fyrir því í hvaða stöðu þú varst?

Tilgangurinn með þessari æfingu er ekki að frýja sig ábyrgð eða saka aðra um eitthvað. Ekki heldur að koma í veg fyrir þörfina til að grípa til aðgerða til að ráða bót á ástandinu. Það sem þessar spurningar geta hins vegar gert er að skýra hvort þú sért of hörð/harður við sjálfa(n) þig.

Reyndu að bæta fyrir mistök þín

Þegar þú hefur skoðað aðstæður með aðeins samúðarfyllri augum og velt því fyrir þér hvað raunverulega átti sér stað, getur þú spurt sjálfa(n) þig hvernig þú vilt bæta fyrir það sem þú gerðir. Hugmyndin er ekki að refsa sjálfum þér, heldur nota eftirsjá þína sem tækifæri til að þroskast. Með því að biðjast afsökunar tekur þú ábyrgð á því sem þú gerðir og skuldbindur þig til þess að bregðast öðruvísi við í framtíðinni.

Prófaðu möntru og endurtaktu hana

Þú getur þjálfað heilann í að sleppa takinu á mistökum þínum með því að segja við sjálfa(n) þig að þú hafir gert það besta sem þú gast með þá vitneskju sem þú bjóst yfir á þeim tíma og að núna ætlir þú að gera betur. Þessi áminning getur ögrað þínum innri gagnrýnanda og minnt þig á að þú ert verðug(ur) fyrirgefningar.

Með þessu sýnir þú ákveðna iðrun og er þetta ákveðin leið til að viðurkenna mistökin. Þú getur sagt þetta við einhvern annan, skrifað þetta niður eða sagt þetta upphátt við sjálfa(n) þig.

Ekki gleyma að fyrirgefning er ferli

Hluti af því að sjálfsfyrirgefning getur virst svo óljós er að hún myndast ekki sjálfkrafa við það eitt að segja orðið fyrirgefðu. Fyrirgefning er virkt ferli og getur krafist endurtekningar.

Það gæti þurft meira til en einfalda möntru eða stutt sjálfstal til að losa um gremjuna gagnvart sjálfum þér. Kannski þarftu að vinna með sálfræðingi eða öðrum meðferðaraðila til að leiðbeina þér í ferlinu.

Að undanskildu því þá þarftu á endanum að sýna þolinmæði. Fyrirgefning er ferðalag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda