Læknar vara við notkun á „náttúrulegu Ozempic“

Læknar hafa verulegar áhyggjur af þróun nýjasta heilsutrendsins á TikTok.
Læknar hafa verulegar áhyggjur af þróun nýjasta heilsutrendsins á TikTok. Samsett mynd

Sérfræðingar hafa verulegar áhyggjur af nýjasta heilsutrendinu á samfélagsmiðlinum TikTok, fæðubótarefninu Berberine, sem hefur verið kallað „náttúrulegt Ozempic“.

Undanfarna mánuði hefur mikið verið rætt og skrifað um lyfið Ozempic sem hefur verið kallað „töfralyfið“ í Hollywood. Lyfið er ætlað sykursjúkum til að léttast og eru fjölmargar Hollywood-stjörnur sagðar nota lyfið í þeim tilgangi. 

Ozempic tók yfir TikTok í ársbyrjun, en nú hefur fæðubótarefnið Berberine tekið yfir. Fjölmargir hafa deilt myndskeiðum af þyngdartapi sínu með hjálp fæðubótarefnisins, en myllumerkið #berberine hefur þegar fengið yfir 58 milljón áhorf á miðlinum. 

Efninu geti fylgt töluverðar aukaverkanir

Læknar hafa hins vegar áhyggjur og vara við því að efnið geti „verið hættulegt“ sé það tekið inn í von um þyngdartap. Þá hafa þeir einnig vakið athygli á að efninu geti fylgt töluverðar aukaverkanir eins og niðurgangur, hægðatregða, magaóþægindi og ógleði. 

Dr. Simon Cork, dósent í lífeðlisfræði við háskóla í Cambridge, segist ekki hafa fundið neinar sannanir fyrir þeim fullyrðingum sem settar hafa verið fram um efnið á TikTok. „Ég hef aðeins getað fundið eina klíníska rannsókn þar sem Berberine er notað til þyngdartaps,“ sagði hún í samtali við Daily Mail.

Í rannsókninni sem um ræðir voru aðeins sjö þátttakendur, en niðurstöður sýndu ekkert marktækt þyngdartap á þeim sex vikum sem þátttakendur tóku efnið inn. Þá þyngdust sumir þátttakendur meðan á rannsókninni stóð.

Enn ein skyndilausnin sem leysir engin vandamál

„Það er ekki rétt að vísa til efnisins sem „náttúrulegs Ozempic“ þar sem þessi efni vinna á mjög ólíkan hátt,“ bætti Cork við, en hún segir efnið ekki minnka matarlyst eins og sykursýkilyfið og því muni hungur aðeins aukast og þetta leiða til þyngdaraukningar á endanum. Þá gæti fæðubótarefnið einnig haft áhrif á niðurbrot annarra lyfja og þannig dregið úr virkni þeirra eða leitt til uppsöfnunar þeirra í líkamanum. 

Talsmaður National Center for Eating Disorders benti einnig á að efnið væri bara enn ein skyndilausnin á flóknu vandamáli. „Berberine mun ekki leysa át vegna vanlíðunar, hugarfars eða félagsleg vandamál sem valda offitu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda