Á dögunum afhjúpaði næringarfræðingur þau matvæli sem virka eins og lyfið Ozempic sem hefur verið á allra vörum undanfarna mánuði. Lyfið er ætlað sykursjúkum til að léttast og eru fjölmargar Hollywood-stjörnur sagðar nota það í þeim tilgangi. Lyfinu geta hins vegar fylgt þó nokkrar aukaverkanir.
Ástralski næringarfræðingurinn Emma Beckett er dósent í matvæla- og næringarfræði við háskólann í Newcastle. Hún útskýrði hvernig Ozempic virkar í grein sem birtist á The Conversation og afhjúpaði um leið matvæli sem hafa sömu virkni.
Beckett segir Ozempic örva þyngdartap með því að líkja eftir aðgerðum hormónsins GLP-1 sem losnar í meltingarveginum eftir að við borðum. Hormónið segir brisinu að framleiða meira insúlín og ber upplýsingar til heilans um seddu. Fyrir vikið getur semaglútíð komið í veg fyrir að einstaklingar borði of mikið.
Hún segir lyfið þó ekki vera án aukaverkana þar sem notendur þess kvarti oft yfir ógleði, hægðatregðu og niðurgangi. Í grein sinni vill hún vekja athygli á því að ákveðin matvæli geti gert það sama og „töfralyfið“ án allra aukaverkana.
„Næringarefnin sem koma GLP-1 seytingu af stað eru næringarefnin sem veita okkur orku,“ skrifaði Beckett, en þar á hún við næringarefnin fitu, prótein og kolvetni. Beckett segir rannsóknir benda til þess að með því að velja matvæli sem innihalda mikið af þeim næringarefnum sé hægt að auka magn á GLP-1 hormóninu.
„Þetta geta verið matvæli með hollri fitu, eins og avókadó eða hnetur, eða magur próteingjafi eins og egg. Einnig matvæli sem innihalda mikið af gerjanlegum trefjum eins og grænmeti og heilkorn sem næra þarmaflóruna okkar sem síðan framleiðir stuttar fitusýrur sem geta komið GLP-1 seytingu af stað,“ útskýrir hún.
Beckett vekur athygli á mikilvægi þess að borða fjölbreytta og næringarríka fæðu. „Ef þú minnkar matarlystina þína en heldur áfram að borða mikið af ofunnu matvæli með lítilli næringu gætir þú grennst en þú eykur ekki raunverulega næringuna þína. Þess vegna er mikilvægt að bæta mataræðið, óháð lyfjanotkun eða þyngdartapi, til að bæta heilsuna.“