Þorbjörg Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og heilsusérfræðingur, segist hafa verið orðin sykurfíkill sem lítið barn. Þorbjörg, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, hefur í áratugi unnið við heilsu og oft á tíðum verið talsvert á undan sinni samtíð.
„Ég fór í raun að læra hjúkrunarfræði vitandi það að mig langaði að starfa við næringu og heilsu, en á þessum tíma fannst mér hjúkrunarfræðinámið gefa mér meiri vigt og einnig undirbúa mig. En ég fann fljótt að það voru hlutir í náminu sem voru aðeins úr takti við aðra hluti sem ég var að lesa um og prófa á sjálfri mér. Ég þurfti að gera margar tilraunir á sjálfri mér af því að ég var komin í vandræði með mína eigin heilsu, ekki síst vegna mikillar sykurfíknar sem ég var að glíma við. Ég er í raun búin að vera með sykurfíkn allt mitt líf og er enn með hana. Þessi óstjórnlega löngun til að nota sykur til að breyta ástandinu í mjög stuttan tíma var eitthvað sem ég fann frá því að ég var lítið barn. Þetta er náttúrlega algjört bull og setur líkamann í mikið ójafnvægi. Hjá mér gæti þessi mikla sykurfíkn verið að hluta til genetísk. Ég er uppkomið barn alkóhólista og held að það sé bein tenging þaðan yfir í sykurfíknina mína. Það er mikil fíkn í fjölskyldunni og meðvirkni og ég fann þessa fíkn í sykur alveg síðan ég var ekki nema þriggja til fjögurra ára gömul,“ segir Þorbjörg, sem fann mikinn mun á allri líðan sinni þegar hún fór að gera tengingar við mataræðið.
„Það breyttist mikið hjá mér í kringum tvítugt þegar ég flutti til Danmerkur og fór að gera breytingar á mataræðinu. Ég hafði verið með stanslausa heilaþoku og svo varð ég líka hálfinnhverf og dró mig mikið til baka. Það breyttist hratt þegar ég fór að draga úr sykrinum og borða almennt hreinni mat. Þegar ég fann hvað árangurinn var mikill ákvað ég að þetta væri eitthvað sem ég ætlaði að gera að starfinu mínu. Að aðstoða annað fólk við að bæta líðan sína og líkamsstarfsemi í gegnum mataræði og lífsstílsbreytingar. Á þessum tíma var erfiðara en núna að sækja upplýsingar, af því að það var ekkert net eða Google til að fletta upp í. En þó að það væru ekki endilega sjálfsögð sannindi á þessum tíma þurfti ég engar staðfestingar á því hvað mataræði hefur gríðarleg áhrif á orku og líðan eftir að ég fór að prófa það á sjálfri mér.“
Þorbjörg hefur í gegnum tíðina gefið út bækur um heilsu sem hafa náð talsverðum vinsældum erlendis. Hún fór snemma að benda á ýmis atriði sem á þeim tíma voru talsvert á skjön við það sem oftast var talið rétt.
„Þegar ég var að byrja að skrifa bækur og boða mínar hugmyndir voru nánast öll manneldismarkmið og ráðleggingar að fólk ætti að sneiða hjá fitu og borða mikið af kolvetnum. En ég var svolítið á undan minni samtíð með að ræða sambland af ketó og lágkolvetnamatarræði til þess að bæta orku og almenna líðan yfir daginn. Ég skil það best allra að það geti verið fólki ofviða að breyta miklu í einu þegar kemur að mataræði. Sérstaklega ef fólk hefur verið lengi í óheilbrigðu sambandi við mat. En þegar fólk gerir ákveðnar breytingar byrjar það að finna allt aðra líðan og þá verður miklu auðveldara að halda áfram. Það er mjög erfitt að taka réttar ákvarðanir ef heilinn er baðaður í sykri og líkamskerfið er uppfullt af bólgum.“
Þorbjörg er ekki frá því að Íslendingar almennt glími jafnvel meira við fíkn en margar aðrar þjóðir.
„Eftir öll þessi ár sem ég hef unnið við næringarráðgjöf og heilsu er ég ekki frá því að sykurfíkn sé meiri á Íslandi en víða annars staðar. Ég bý í Danmörku og mér finnst staðan vera betri þar en hér. Sykur- og matarfíkn er mjög oft tilfinningatengd og Íslendingar koma úr mjög hörðum aðstæðum þar sem kynslóðirnar á undan drukku mikið. Það var áberandi mikil drykkja hjá kynslóðinni á undan mér sem bjó í mörgum tilvikum til mikla meðvirkni og fleiri fíknivandamál hjá börnum þeirra sem glímdu við alkóhólisma. Án þess að ég vilji á neinn hátt ýta undir skömm varðandi þessa hluti, þá virðist bæði þunglyndi og offita vera meiri á Íslandi en í nágrannalöndunum. Tölurnar tala sínu máli, bæði notkun þunglyndis- og kvíðalyfja og tölur um ofþyngd og offitu. Ég er ekki frá því að harðar aðstæður og þessi mikla drykkja sem hafði áhrif á uppeldi spili hlut í því. Það er líklega mikil streita í genunum okkar sem ýtir undir þessar fíknitilhneigingar og setur taugakerfið okkar í meira „fight or flight“ ástand. En sem betur fer erum við alltaf að verða meðvitaðri og meðvitaðri um áföll, streitu, meðvirkni og fleiri hluti. Smám saman erum við að ala upp kynslóðir sem fá annars konar uppeldi og upplýsingarnar eru orðnar miklu meiri og betri.“
Þorbjörg varð amma fyrir þremur árum og segir það hafa breytt lífi sínu. Á meðan börnin hennar og barnabarn eru í Danmörku segist hún ekki geta hugsað sér að flytja frá þeim til Íslands.
„Ef ég gæti fengið börnin mín til að flytja til Íslands, þá væri ég hér. Mér finnst gott að vera í Danmörku, en ég elska alltaf Ísland. Ég á þrjár dætur sem allar fæddust í Danmörku og þær eru því í raun meiri Danir en Íslendingar, þó að þær séu allar íslenskir ríkisborgarar. Elsta dóttir mín eignaðist dóttur fyrir þremur árum og ég bara gjörsamlega féll fyrir þessu barni. Ég varð mamma frekar ung og elskaði að verða mamma, en mér finnst næstum því betra að verða amma. Ég hef ákveðið að hagræða lífi mínu þannig að ég verði alltaf hluti af hennar lífi og sem betur fer vill dóttir mín að það sé þannig. Svo er annað barnabarn á leiðinni og ég hlakka svakalega til að verða tvöföld amma.“
Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.