7 skref til að forðast kulnun

Ljósmynd/Unsplash/Fellipe Ditadi

Kulnun og streita hafa aldrei verið algengari en í dag, enda lifum við í hröðu samfélagi þar sem hvíld virðist vera aftast í forgangsröðinni. Á sama tíma og fyrrnefnd vandamál hafa aukist hefur þekking á mikilvægi þess að fá nægan svefn og hvíld einnig færst í aukana síðustu ár. 

Árið 2019 hélt Dr. Saundra Dalton-Smith merkilegan TED-fyrirlestur um mikilvægi hvíldar sem vakti mikla athygli. Þar talaði hún um sjö gerðir hvíldar sem við verðum að fá til þess að vera útvhíld og endurnærð, en það er algengur misskilningur að svefn sé eina hvíldin sem við þurfum á að halda. 

Rannsóknir benda til þess að hvíld sé lykillinn að því að forðast kulnun, en þar að auki minnkar hún streitu og eykur hamingju. 

Líkamleg hvíld

Líkamleg hvíld er hlé frá líkamlegri áreynslu, en hún er afar mikilvæg þar sem hún gefur líkamanum færi á að losa um spennu og komast í ró. Dæmi um líkamlega hvíld er að taka sér hvíldardag frá æfingum eða líkamlega erfiðri vinnu. 

Jóga og hugleiðsluæfingar hafa reynst mörgum vel til þess að ná góðri slökun, en þær hjálpa ekki einungis við líkamlega hvíld heldur róa þær einnig hugann. 

Ljósmynd/Unsplash/Dmitriy Frantsev

Andleg hvíld

Andleg hvíld er lykilatriði, en hún á sér stað þegar við gefum heilanum hlé og þegar við gerum athafnir sem krefjast lítils af heilanum. Pomodoro-tæknin er til dæmis frábær leið til að fá andlega hvíld í dalgegu amstri, en þá er vinnudeginum skipt upp í 25 mínútna vinnulotur með fimm mínútna hléum á milli.

Athafnir sem veita andlega hvíld getur til dæmis verið að þrífa, horfa á uppáhaldsþáttinn þinn, vinna í garðinum þínum eða hlusta á hlaðvarpsþátt. 

Ljósmynd/Unsplash

Skynjunarhvíld

Flest vitum við að birtan frá raftækjunum okkar getur truflað heilbrigt svefnmynstur, en það getur hávaði líka gert. Það eru dæmi um áreiti sem við skynjum sem geta haft áhrif á svefninn okkar, en yfir daginn verðum við fyrir alls kyns áreiti sem geta gert það að verkum að við eigum erfitt með að ná slökun og einbeitingu yfir daginn. 

Skynjunarhvíld getur verið að leggja símann frá sér þremur klukkustundum áður en við förum upp í rúm, en það getur einnig verið að slökkva á óþarfa tilkynningum í símanum yfir vinnudaginn. 

Ljósmynd/Pexels/Andrea Piacquadio

Skapandi hvíld

Jafnvel þeir sem búa yfir mesta sköpunarkraftinum, eins og listamenn, tónlistarmenn og rithöfundar, þurfa hlé frá sköpun. Dæmi um skapandi hvíld getur verið að fara út í náttúruna, hlusta á tónlist eða fara í göngutúr um hverfið. 

Ljósmynd/Pexels/Julia Volk

Tilfinningaleg hvíld

Tilfinningaleg hvíld á sér stað þegar við tökum okkur tíma til að tjá tilfinningar okkar á heiðarlegan hátt. Með því að deila tilfinningum okkar með öðrum þá minnkum við tilfinningalega byrði á huga og líkama okkar. 

Þetta getur verið að tala við traustan vin eða fjölskyldumeðlim, að fara til sálfræðings eða jafnvel að skrifa tilfinningar okkar niður á blað.

Ljósmynd/Pexels/John Diez

Félagsleg hvíld

Félagsleg hvíld getur vissulega verið að draga okkur í hlé þegar við höfum verið mikið í félagslegum aðstæðum og við upplifum samskiptin sem yfirþyrmandi. Hins vegar snýst félagsleg hvíld aðallega um að forgangsraða félagslegum aðstæðum sem veita okkur kraft. 

Félagsleg hvíld getur því verið að segja nei við boði á viðburð sem þig lankar ekki að fara á, en félagsleg hvíld getur líka verið að eyða gæðatíma með nánum vinum eða fjölskyldumeðlimum sem þér líður vel með.

Ljósmynd/Unsplash/Chewy

Trúarleg hvíld

Þessi gerð af hvíld á sér stað þegar við náum djúpri tengingu við okkur sjálf í gegnum bæn eða hugleiðslu, en hún getur hjálpað við einbeitingu auk margra annarra þátta.

Ljósmynd/Pexels/Olia Danilevich
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál