„Sjúkdómar taka ekki sumarfrí“

Valgeir Magnússon skrifar um heilbrigðiskrefið og andlega sjúkdóma í nýjum …
Valgeir Magnússon skrifar um heilbrigðiskrefið og andlega sjúkdóma í nýjum pistli. Samsett mynd

Valgeir Magnússon viðskipta- og hagfræðingur skrifar um heilbrigðiskerfið og andlega sjúkdóma í nýjum pistli þar sem hann segir mikilvægt að hugsa hlutina upp á nýtt.

„Því miður þá verð ég að segja þér að þú ert með krabbamein á þriðja stigi og ef ekkert verður að gert núna þá er ekki aftur snúið. Það verður að hefja meðferð núna strax. En því miður verð ég líka að segja þér að það er ekki hægt. Krabbameinsdeildin fer nefnilega í frí allan júlí og fyrstu vikuna í ágúst. Við verðum því bara að vona það besta og það verði ekki of seint að hefja meðferð um miðjan ágúst.“

Hvað myndum við segja ef við fengjum svona móttökur á krabbameinsdeildinni? Ég er viss um að engin myndi sætta sig við þetta enda fer krabbamein ekki í frí frekar en aðrir sjúkdómar. En því miður þá eru sumir sem halda að andlegir sjúkdómar fari í frí á sumrin. Alkóhólistar og aðrir fíklar verða að tóra sumarið og vona að þeir haldi lífi til að geta hafið sínar meðferðir í ágúst ef þeir komast að því biðlistinn lengist verulega á sumrin.

Fíknisjúkdómar drepa flesta, eyðileggja flest líf og valda mestum skaða í samfélaginu í dag. Samt sem áður er einhver sem ákveður að það sé í lagi að meðferðir við þessum sjúkdómi geti farið í sumarfrí í 5 til 6 vikur af því það hentar best kostnaðarlega. Þetta sé hvort sem er sjúkdómur sem fólk velur að hafa og því sé best að láta áhugasamtök um alla meðferð og skammta þeim bara fyrir hluta þeirra sjúklinga sem þurfa hjálp. En „alvöru sjúkdómar“ fá allt öðruvísi meðhöndlun. Þar eru „alvöru læknar“ að lækna og það inni á alvöru spítala. Það er eins og Saxi læknir hafi ákveðið hvernig þetta á allt að vera. „Það er aldrei neitt almennilegt að þér,“ sagði Saxi. Þannig eru skilaboðin sem heilbrigðiskerfi Íslands sendir þeim 10% landsmanna sem haldnir eru fíknisjúkdómi, banvænasta sjúkdómi veraldar í dag. Hann er víst ekki almennilegur sjúkdómur enda ekki hægt að lækna hann með pillum eða uppskurði.

Á síðasta ári hófst fentýlfaraldur í Bandaríkjunum og er að breiðast yfir heiminn. Yfir 100.000 manns létust þar í landi árið 2022 vegna ofneyslu fíkniefna og aldrei hafa jafn margir látið lífið á Íslandi vegna ofneyslu lyfja og í ár. Þetta er að megninu til ungt fólk sem fær aldrei að reyna lífið og aðstandendur standa eftir í sárum yfir þeirri framtíð sem glataðist. Sjá aldrei unga fólkið þroskast og verða sjálft að foreldrum. Halda á barnabarninu, hjálpa ungu foreldrunum og koma sér af stað inn í fullorðinslífið.

Ég hef sem betur fer ekki upplifað þann sára missi sem það hlýtur að vera að missa barn og geta ekkert gert til að hjálpa viðkomandi að snúa af þeirri braut sem það er á. Því þegar fíkillinn er við stjórnvölinn, þá er ekkert hægt að gera annað en vona og vera til staðar. Bíða átekta þar til fíkillinn er tilbúinn og vona að það verði ekki að vori því hann gæti verið hættur við þegar loks kemur að því að viðkomandi komist inn. Því þegar fíkillinn er búinn að taka ákvörðun um að fara í meðferð, þá byrjar erfiðasti tíminn. Uppgjöfin er komin en meðferðin hefur ekki hafist. Biðlistinn er dauðans alvara og það er þá sem fólk oft á tíðum missir allt. Eigurnar, fjölskylduna, æruna. Tjónið sem fólk með fíknisjúkdóma valda á þeim tíma sem þau eru á biðlista eru ómælanleg hvort heldur sem er í fjárhæðum eða tilfinningalega. Ég tel mig lánsaman að vera aðstandandi alkóhólista í bata, það er góður tími en ég finn til með öllum sem ekki eru jafn lánsamir og ég á þessum erfiðu tímum.

Sýndu mér frelsið flögrandi af ást

Falið bakvið rimlana hvar sálirnar þjást

Og nöfnin sem hjartað hafði löngum gleymt

Haltu fast í drauminn sem þig hafði eitt sinn dreymt

Þetta syngur Bubbi Morthens, en hann hefur sungið í fleiri jarðaförum ungs fólks í ár en nokkru sinni fyrr.

Ég skora á Willum Þór heilbrigðisráðherra að taka þessi mál upp sem mikilvægustu áskorun þjóðarinnar næstu árin í heilbrigðismálum. Það þarf að hugsa hlutina upp á nýtt. Þar sem ég bý í Noregi þessa dagana sé ég hvernig málin eru gerð þar. Þar er t.d. afvötnun á sjúkrahúsum og innan sama kerfis og aðrir sjúkdómar. Eftir það taka önnur samtök við með það sem við köllum eftirmeðferð, en þar er það bara kallað meðferð. Heimurinn er fullur af góðum hugmyndum. Nú liggur á að finna þær bestu og gera þær að okkar og vera til fyrirmyndar í þessum málum eins og okkur hefur tekist að vera til fyrirmyndar í svo mörgu öðru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda