Á dögunum varð leikkonan Sofia Vergara 51 árs og naut afmælisdagsins til hins ýtrasta á snekkju á Ítalíu. Vergara er þekkt fyrir að geisla af fegurð og vera í hörkuformi, en hún birti sjóðheitar sundfatamyndir í tilefni dagsins og óhætt að segja að aðdáendur hafi verið hæstánægðir með leikkonuna.
Svo virðist sem Vergara hreinlega eldist aftur á bak, en hún hefur sjaldan litið betur út en í dag. Leikkonan er með nokkur góð fegrunarráð sem hún fylgir til þess að halda í æskuljómann.
Vergara hefur oft viðurkennt að hafa ekki gaman af því að hreyfa sig. Hún veit þó hve mikilvæg regluleg hreyfing er fyrir heilsuna og kýs því að mæta á æfingar undir leiðsögn einkaþjálfara tvisvar til þrisvar í viku, en hver æfing er um það bil klukkutími að lengd.
Þar sem leikkonunni líður afar vel í vatni þykir henni gaman að stunda hreyfingu í sundi. Þar að auki er hún dugleg að fara í pílates, jóga og stundar einnig dans.
Mataræði leikkonunnar samanstendur aðallega af kjúklingi, fiski, ávöxtum og grænmeti. Fram kemur á vef Style Craze að hún hafi þó mikið dálæti á sætindum eins og makkarónum og kökum. Hún passar svo að sjálfsögðu að drekka nóg af vatni yfir daginn og sérstaklega þegar hún ferðast.