Hafdís Björg Kristjánsdóttir einkaþjálfari og Kristján Einar Sigurbjörnsson áhrifavaldur kynntust fyrst í World Class fyrir nokkrum árum. Ástin bankaði upp á fyrir alvöru fyrir nýlega en henni fylgdi sömuleiðis óumbeðin athygli sem þau takast á við saman. Þau prýða forsíðu Heilsublaðs Morgunblaðsins sem kom út í dag.
Í viðtalinu tala Hafdís og Kristján um heilsuna, ástina og hvernig þau kynntust. En hvað skyldu þau gera til þess að hlaða batteríin?
„Við fórum mikið á húsbíl bara við tvö þó það er ekki nema klukkutíma út úr bænum. Við förum til að kúpla okkur aðeins út og tökum ekki símana með. Við erum með leynisíma sem strákarnir eru bara með númerið í ef eitthvað er, fjölskyldan getur alltaf náð í okkur,“ segir Hafdís.
Er það ekki erfitt?
„Því fylgir smá rasssviti til að byrja með en venst hægt og rólega. Við erum líka komin með þá reglu að ef við förum til útlanda eða í frí þá skiljum við símann eftir heima. Þeir eru alveg takmarkaðir fyrir utan kannski myndavélina. Við viljum vera saman þegar við erum saman,“ segir Kristján
„Við erum að stefna á að flytja út. Á næsta ári þá er markmiðið okkar að vera komin út,“ segir Hafdís þegar þau eru spurð hvernig framtíðin lítur út. Þau horfa annað hvort til Danmerkur eða Ítalíu.
Af hverju?
„Það eru miklu fleiri tækifæri af því sem við viljum gera,“ segir Kristján.
Hugmyndin um að komast í burtu frá áreitinu á Íslandi finnst þeim ekki slæmt heldur.
„Það leiðinlegasta sem ég geri er að fara í búðina. Áður en ég kynntist honum fór ég ekki í búðina fyrr en korter í lokun en eftir að ég byrjaði með honum snarversnaði það,“ segir Hafdís sem hélt að hún væri komin með félagsfælni en sálfræðingur tók fyrir það. Það er hins vegar auðvelt að skríða inn í skelina þegar áreitið er mikið.
Nánar er fjallað um málið í Heilsublaði Morgunblaðsins í dag.