Gyða Björk Ingimarsdóttir var aðeins tvítug þegar hún fékk sér brjóstapúða sem virkuðu fyrst um sinn sem plástur á brotna sjálfsmynd hennar. Smám saman fór hún hins vegar að verða ólíkari sjálfri sér og upplifði langan lista af líkamlegum og andlegum kvillum sem með tímanum drógu úr henni alla orku og gleði. Árið 2022 ákvað hún svo að láta fjarlægja brjóstapúðana og öðlaðist í kjölfarið nýtt líf.
Gyða er með BA-gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og er í dag búsett í Svíþjóð þar sem hún stundar meistaranám í afbrotafræði. Hún lýsir sjálfri sér sem íþróttaálfi úr Árbænum enda hefur hún mikla ástríðu fyrir hreyfingu og útivist.
Haustið 2016 fékk Gyða sér brjóstapúða, þá aðeins 20 ára gömul. „Ég hitti lýtalækni á föstudegi og var með bókaðan tíma í aðgerð miðvikudaginn eftir það. Það var í raun ekkert flóknara en það, ég sagði bara: „Hæ, ég vil brjóstapúða“ og hann sagði bara: „Ókei“,“ rifjar hún upp.
„Ég á erfitt með að viðurkenna það en í raun hafði mig dreymt um að vera með stór brjóst alveg síðan ég fékk minn fyrsta brjóstahaldara. Ég man eftir augnablikinu þegar ég lærði að stór brjóst væru „betri“ og „flottari“ en ég var að kaupa brjóstahaldara þegar kona í búðinni benti mér á að það væri hægt að fá haldara með púðum. Ég spurði hana af hverju ég ætti að vilja það, og hún svaraði: „Til þess að virðast vera með stærri brjóst en þú ert með“.
Ég man bara að þetta var svona „aha-móment“ þar sem ég fékk flashback minningar af öllum tónlistarmyndböndum, auglýsingum, bíómyndum og öllu því sem ég hafði séð og ég hugsaði bara: „Aa já þú meinar, auðvitað“,“ bætir hún við.
Með aldrinum fór brjóstastærðin að skipta sífellt meira máli en á sama tíma segir hún sjálfstraustið hafa farið minnkandi. „Ég hafði líka alltaf verið frekar mössuð og þegar ég komst á unglingsaldurinn þá fékk ég að heyra að ég væri ókvenleg og ætti frekar heima í karlaklefanum. Þá fór að malla einhver hugmynd innra með mér um hvað það væri að vera kvenleg og flott, sem var alls ekki það sem ég sá þegar ég leit í spegilinn,“ segir Gyða.
Fyrstu árin eftir aðgerðina var Gyða hæstánægð með brjóstin og þótti þau vel heppnuð. Smám saman fór hún hins vegar að verða ólíkari sjálfri sér og leið eins og líkaminn væri að gefast upp.
„Listinn af einkennum sem ég upplifði er endalaus og það er margt sem ég fattaði ekki einu sinni að væri óeðlilegt fyrr en það batnaði eftir að púðarnir voru fjarlægðir. Ég hætti að vera íþróttaálfurinn sem ég er, fór að eiga erfiðara með að hreyfa mig og vildi frekar bara liggja heima allan daginn og gera ekkert. Ég fann harkalega fyrir veikindum og meiðslum sem höfðu áður ekki haft nein áhrif á mig,“ segir Gyða, en hún nefnir einnig einkenni eins og hárlos, höfuðverk og mikla verki í vöðvum og liðum.
„Nokkrum mánuðum áður en ég lét fjarlægja púðana þá var ég orðin þannig að ég svaf kannski í marga daga í röð án þess að standa upp úr rúminu og fá mér að borða eða fara á salernið þó svo það væri „ekkert að“ – það var bara eins og það væri slökkt á mér,“ rifjar hún upp.
Gyða upplifði einnig mikinn tilfinningalegan dofa og glímdi við hormónaójafnvægi, en árið 2017 fór hún að finna fyrir vandamálum í æxlunarfærum. „Ég fór reglulega upp á spítala vegna ólýsanlegra verkja þar sem ég fékk morfín við verkjum og sýklalyf við eitrun í blóði. Læknar vissu þó ekki hvað væri í gangi og ég veit í raun ekki enn hvað þetta var, en ég var sett á sprautuna til að bæla þetta niður. Ég er ennþá í dag að eiga við einhver vandræði en hef ekki þurft að fara á spítala síðan púðarnir voru fjarlægðir,“ segir hún.
„Það er erfitt að lýsa þessu en Gyðan í mér fór smám saman að hverfa. Ég átti mjög erfitt andlega og líkamlega en hélt bara að ég væri að eldast og væri orðin virkilega veik andlega. Allt í einu fann ég ekki rök fyrir því að vera með púðana lengur inni í mér, liggjandi undir vöðvunum að grasserast. Ég var hvort sem var hætt að njóta lífsins og var hætt að sjá tilgang með brjóstunum. Ég fékk mér púðana því ég vildi þá á sínum tíma og sá ekki eftir því en langaði samt að fjarlægja þá,“ útskýrir Gyða.
„Ég gat ekki vitað hvort ég væri að upplifa öll þessi einkenni útaf brjóstapúðunum, en mér fannst bara eins og líkaminn væri að berjast á fullu við einhvern hlut sem mér var farið að finnast algjör óþarfi,“ bætir hún við.
Gyða tók ákvörðun um að láta fjarlægja brjóstapúðana í maí 2022 og hitti lýtalækni. „Ég sagði honum að ég vildi láta taka púðana en hann var ekki alveg sammála og vildi að við myndum frekar skoða aðra valkosti eða að ég myndi hugsa málið frekar, en ég var harðákveðin í að losna við þá. Þetta var orðið svo ótrúlega kæfandi og þarna vissi ég bara að púðarnir væru að hafa mjög neikvæð áhrif á líf mitt þótt ég hefði enga sönnun á því, en mér fannst líkaminn vera kominn með sjáanleg ummerki þess að hann dauðlangaði að losna við púðana,“ segir hún.
„Það versta var samt að á þessum tímapunkti var ég það lágstemmd að það eina sem ég elskaði ennþá við sjálfa mig voru brjóstin eða allavega þessi hugmynd um þau. Það hljómar fáránlega og er erfitt að viðurkenna, en ég gat alltaf hugsað: „Æi ég er þó allavega með flott brjóst.“
Ég var líka alveg sannfærð um að ástarlíf mitt yrði búið þegar púðarnir yrðu fjarlægðir af því brjóstin væru það eina sem væri hægt að elska við mig,“ bætir hún við.
Gyða fór ekki í aðgerðina fyrr en í desember 2022 þar sem tímasetningin hentaði betur vegna vinnu og skóla. Fram að því segist Gyða hafa lifað í miklum ótta um hvernig útlit brjóstanna yrði eftir aðgerðina.
„Alveg sama hversu oft ég reyndi að sannfæra sjálfa mig um að útlitið á brjóstunum á mér skipti ekki máli, þá ætla ég ekkert að ljúga, ég fór mjög mikið fram og til baka með þetta. Ég leitaði á netinu eftir konum sem voru í sömu stöðu en fannst enginn tala um nákvæmlega þetta, mögulega því það fylgir því ákveðin skömm að vera svona upptekin að eigin útliti miðað við allt annað sem skiptir máli í þessum heimi. En ég ætla allavega að viðurkenna minn ótta og um leið taka það fram að ég hefði ekki þurft að hafa neinar áhyggjur – ég hef aldrei verið jafnt sátt í eigin skinni og ég er í dag,“ segir Gyða.
Aðspurð segir Gyða aðgerðina hafa heppnast ótrúlega vel, en hún skráði ferlið niður í dagbók til að gleyma engu. Hún segist ekki hafa fundið fyrir miklum sársauka heldur bara óþægindum sem hún líkir við það að vera með smá harðsperrur.
„Daginn eftir aðgerðina skrifaði ég í dagbókina: „Engir verkir, bara smá óþægilegt, sérstaklega drenin, en líður annars bara mjög vel, mikill léttir,“ bætir hún við.
„Ég fór ekki í brjóstalyftingu þó að læknirinn hafi mælt með því, en ég vildi ekki láta eiga við þau meira. Ég vildi bara leyfa þeim að vera eins og þau vildu vera og ég er mjög fegin þeirri ákvörðun í dag. Allt leit betur út en ég hélt eftir aðgerðina, en þegar læknirinn sýndi mér brjóstin fyrst þorði ég ekki að horfa. Þegar ég loksins þorði að horfa í spegilinn sá ég bara heilbrigðan líkama og var ótrúlega þakklát að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég sá ekkert nema hamingju þegar ég horfði á sjálfa mig,“ segir Gyða.
Aðspurð segist Gyða hafa byrjað að finna fyrir breytingum og bættum lífsgæðum um leið og hún vaknaði eftir aðgerðina. „Það hljómar kannski dramatískt en ég tók strax eftir breytingum með fyrsta andardrættinum sem ég tók eftir að ég vaknaði,“ segir Gyða og bætir við að það hafi tekið hana nokkrar vikur að venjast því að anda þar sem hún upplifði meira pláss vera í lungunum.
Í dag eru sjö mánuðir liðnir frá því Gyða fór í aðgerðina og öðlaðist nýtt líf, en hún segir lífsgæðin hafa aukist gríðarlega á síðustu mánuðum og að í dag sé hún full af orku og lífi og láti ekkert stoppa sig lengur.
„Í fyrsta sinn í mörg ár leggst ég upp í rúm og sofna, ég er ekki lengur andvaka allar nætur, eða hvað þá sofandi heilu dagana. Lífið mitt er bara orðið hundrað sinnum betra. Ég er orðin ég sjálf aftur,“ útskýrir Gyða.
Breytingarnar sem Gyða upplifði eftir aðgerðina voru bæði andlegar og líkamlegar, en hún segir það hafa tekið sig talsverðan tíma að venjast andlitinu á sér eftir að púðarnir voru fjarlægðir. „Það er allt annað að sjá mig í dag. Mér fannst bara eins og ég væri „photoshoppuð“ þegar ég leit í spegil eða tók sjálfu af mér. Munurinn er kannski ekki mikill fyrir fólk sem þekkir mig ekki en það var ótrúlegt hvernig það kom einhver glampi í augun sem hafði verið slökkt á allt of lengi, en ásamt því fór húðin og hárið allt í einu að ljóma,“ segir hún.
„Það er erfitt að útskýra hvað hefur breyst þar sem þetta er mjög mikið innra með mér og erfitt að sjá eða greina. Stærsta breytingin sem hefur haft mest áhrif á líf mitt er sú að ég get farið á fætur. Það er ekki flóknara en það. Þessi eina breyting hefur haft gríðarleg snjóboltaáhrif, en um leið og það er auðvelt að vakna þá gengur allt betur fyrir sig. Svefninn, mataræðið og hreyfingin er betri en nokkru sinni fyrr án þess að ég þurfi að þvinga sjálfa mig eða setja mér einhver boð og bönn. Þetta kom allt náttúrulega og áður en ég vissi af var ég orðin heilbrigðari en nokkru sinni fyrr,“ útskýrir Gyða.
„Án þess að hafa tekið einhverja meðvitaða ákvörðun um það þá er ég mun sáttari í eigin skinni eftir aðgerðina og eigið útlit er hætt að skipta mig svona miklu máli. Lífið er bara svo fáránlega yndislegt að ég tími ekki að eyða tíma í að spá í það,“ bætir hún við.
Gyða ráðleggur öllum að hugsa sig vel um að fræða sig áður en ákvörðun er tekin um að fá sér brjóstapúða. „Ég átti fyrst mjög erfitt með að ímynda mér hvað hefði fengið tvítugu mig til þess að hætta við þessa aðgerð á sínum tíma, en það er eitt sem stingur mest – það er hvaða áhrif þetta getur haft á æxlunarfærin. Ef einhver hefði sagt mér það á sínum tíma hefði ég ekki gert þetta, ekki séns,“ segir hún.
„Um leið og ég fór að setja eigin heilsu í fyrsta sætið þá fór sjálfstraustið að blómstra og það var svo miklu áhrifameira heldur en að uppfylla einhverja fegurðarstandarda,“ bætir hún við.
Gyða vonar að viðtalið fái fólk til að hugsa sig um tvisvar hið minnsta áður en það fær sér brjóstapúða og segir sjálfást vera galdurinn að því að vera sáttur í eigin skinni. „Ég veit að það getur verið mjög erfitt að sætta sig við sjálfan sig, og ég er sjálf ennþá á fullu að vinna í því, en þetta er eitthvað sem er vel þess virði að vinna að,“ segir hún að lokum.