Mjúkur maður undir öllum vöðvunum

Gummi Emil byrjaði að æfa aukalega þegar hann var aðeins …
Gummi Emil byrjaði að æfa aukalega þegar hann var aðeins 12 ára. mbl.is/Eyþór Árnason

Einkaþjálfarinn Guðmundur Emil Jóhannsson, betur þekktur sem Gummi Emil, segir hægt að læra margt á því að lyfta. Lyftingar taka á en lífið sjálft getur einnig verið erfitt og þarf að sýna kraft og staðfestu til að takast á við hvort tveggja. Áður en skelin er mótuð ráðleggur Gummi fólki að líta inn á við og huga að andlega þættinum. 

Gummi virðist við fyrstu sýn harður enda afar vöðvastæltur. Undir öllum vöðvamassanum býr hins vegar mjúkur tilfinningaríkur maður. „Ég er ljón í stjörnumerki. Góður vinur minn útskýrði þetta þannig fyrir mér að ég væri ljón í tjáningu en í persónu væri ég eins og krabbi,“ segir Gummi þegar hann lýsir sjálfum sér.

Á sínum yngri árum æfði Gummi fótbolta. „Maður var alltaf úti á veturna í frosti að spretta, þar kynntist ég hörkunni. Ég var ekki nógu sáttur með sjálfan mig, mér fannst ég svo feitur. Ég byrjaði að æfa inni í herbergi, það heyrðust hljóð úr herberginu og mamma og pabbi vissu ekki hvað var í gangi.“

En varstu of feitur?

„Já, í 6. og 7. bekk var ég of feitur. Ég fór út að skokka eftir að ég horfði á Rocky. Ég man eftir mér 12 ára fara út að skokka fyrir skóla í frosti. Í 9. og 10. bekk er ég kominn með þetta almennilega og byrjaði að vekja athygli í skólanum.“

Er gott fyrir krakka að hugsa svona um sjálfa sig?

„Já, krakkar í dag þurfa að fá útrás, þau eru kannski alltof mikið inni hjá sér að horfa á aðra gera eitthvað. Þau fá dópamín við að aðrir gera eitthvað. Þau eiga að slökkva á símanum, fara út sjálf og líða smá óþægilega. Þægindin geta drepið okkur hægt.“

Lyftingar eru ástríða Gumma Emils.
Lyftingar eru ástríða Gumma Emils. mbl.is/Eyþór Árnason

Kolvetnin mikilvæg

Gummi hætti að æfa fótbolta stuttu eftir að hann byrjaði í Verzló.

„Ég var í markinu en ég var ekki nógu hávaxinn fyrir það. Ég væri örugglega í landsliðinu ef ég hefði náð hæð. Ég byrjaði þá að lyfta á fullu og keppa mjög ungur.“ Þegar Gummi var að byggja sig upp fyrir mót æfði hann mikið, vaknaði hálfsex, tók æfingu fyrir skóla og eftir skóla. „Ég var alltaf með nesti í skólanum. Fólk spurði hvað væri eiginlega að mér. Af hverju ég borðaði ekki með þeim á Stjörnutorgi. Ég þurfti að standa af mér mikið mótlæti þegar ég var með minn eigin mat. Það er oft svo mikil pressa frá öðrum sem stoppar fólk.“

Gummi borðar nokkuð venjulegan mat en passar að hafa hann hreinan. „Unnar olíur gera matinn óvenjulega góðan. Ég hef tekið tímabil þar sem ég borða bara á veitingastöðum og ég hef pælt í því af hverju mig langar svona í matinn. Maturinn á veitingastöðunum er þá fullur af olíum og sósum, nokkuð sem á ekki heima í líkamanum. Ef maður borðar of mikið af þessu veldur þetta bólgum.“

Það vilja flestir borða bragðgóðan mat en Gummi segir fólk þurfa að hætta að hugsa of mikið um góðan mat. „Ég er alveg sekur um að hugsa of mikið um bragðið en maður á ekki að gera það. Alveg eins og þú ferð í vinnuna þótt þig langi ekki alltaf þá þarf matur ekki alltaf að vera stórkostlega góður.“

Gummi mælir alls ekki með því að fara á öfgafulla kúra, honum hugnast til dæmis illa að sneiða alveg hjá kolvetnum. „Kolvetni er okkar aðalorkugjafi. Við þurfum mat eins og íslenskar kartöflur. Ávextir eru frábærir en það skiptir máli að skola vel eitrið af þeim, svo eru það sætar kartöflur og hrísgrjón. Hafragrautur er mjög góður fyrir marga, sumir höndla reyndar ekki hafragraut. Ég þoli ekki öfgar, ég er kominn með nóg af öfgum í fólki sem segir nú er hafragrautur óhollur. Það er hægt að drekka 7Up Zero og Pepsi Max en kannski ekki tvo lítra dag.“

Gummi hvetur fólk til þess að lifa hollu lífi en …
Gummi hvetur fólk til þess að lifa hollu lífi en er mótfallin öfgum. mbl.is/Eyþór Árnason

Sjálfsást að elda eigin mat

Gummi borðar mikið kjöt sem hann kaupir gjarnan í kjötbúðum. „Lambakjötið er það besta sem þú færð af því að lambið étur gras og gengur laust. Það er gott að elda læri á sunnudögum, setja afganginn í ísskápinn og þá er hægt að borða lambakjöt á hverjum degi. Þegar þú gerir þetta allt sjálfur spararðu peninga og ert ekki að setja eitthvert drasl ofan í þig sem þú veist ekki hvað er.“

Íslenska mjólkin er ómissandi að mati Gumma en hann myndi helst vilja fá að drekka mjólkina eins og hún kemur beint af kúnni, ógerilsneydda og ófitusprengda. „Ég prófaði að drekka alveg lítra á dag í mánuð af mjólk sem ég fékk frá bónda og það var alveg súper. Það var gott fyrir magaflóruna og allan pakkann. Svo fékk ég brodd og það var gott líka.“

Gummi er einn af þeim sem borða morgunmat og á hann það til að fá sér kjöt í fyrstu máltíð dagsins. „Í morgun fékk ég mér nokkur steikt egg og nautahakk steikt upp úr beinmergsfitu, stuttu eftir það fékk ég mér kolvetni, hrísgrjónagraut.“

Hvar fær maður beinmergsfitu?

„Ég bý hana til sjálfur. Ég kaupi nautabein í kjötbúðinni, set beinin í sjóðandi vatn í mínútu, tek þau upp úr og hendi inn í ofn í 20 mínútur. Síðan skef ég beinmerginn úr og set í nýjan pott með engu í og þá aðskilur fitan sig frá kjötinu. Svo helli ég fitunni í ílát og þá er ég kominn með steikingarolíu með kollageni. Ég steiki ég kjöt upp úr þessu. Þetta er bara besta kollagen sem þú færð, þetta var inni í beinunum á nauti. Ég finn hvað þetta er frábært.“

Hvað eyðir þú mörgum klukkutímum á dag í eldhúsinu og í það að borða?

„Ég meina hvað eyðir fólk miklum tíma í að skrolla á facebook? Maður hefur alveg tíma til að sjá um sjálfan sig. Það er sjálfsást að elda einu sinni til tvisvar í viku. Þegar þú eldar geturðu eldað aðeins meira. Þú sýður sex egg, borðar þrjú núna og þrjú á morgun. Maður getur verið að hlusta á hlaðvarp á meðan.“

Gummi Emil er sterkur en leggur þó meiri áherslu á …
Gummi Emil er sterkur en leggur þó meiri áherslu á að byggja upp andlega heilsu en líkamlegan styrk. mbl.is/Eyþór Árnason

Mikilvægast að vera sterkur í hausnum

Skiptir máli að vera massaður?

„Ég segi ungum strákum núna að það sé mikilvægast að vera sterkur í hausnum en svo að vera sterkur í líkamanum. Það er alveg nóg að lyfta þrisvar í viku. En maður þarf ekkert að vera rosalega massaður og maður þarf ekkert að vera með „six pack“. Aðalatriðið er að líða vel og vera hraustur. Ég verð ekki veikur en ég hef verið að glíma við andleg veikindi og hef verið að skoða af hverju það er. Núna er ég ekki með það markmið að verða rosalega massaður, mig langar bara að vera heilbrigður og hjálpa öðru fólki að vera heilbrigt.“

Hvað færðu út úr því að æfa?

„Hreyfing er ástríðan mín. Mér finnst svo gaman að lyfta, það er svo góð hugleiðsla. Mér finnst eiginlega að allir ættu að prófa það. Maður lærir svo mikið á lífið við það að lyfta. Það er erfitt að fara í ræktina og lyfta en lífið er líka erfitt. En þegar þér líður vel og hausinn er í lagi þá geturðu allt.“ 

Er í andlegri vinnu

Gummi hefur upplifað erfiðleika sem hafa þroskað hann. „Ég lenti inni á spítala 2017 í þrjár vikur. Ég fékk blóðsýkingu og lungnabólgu og læknar skildu ekkert í því, en ég borðaði óhollt, svaf lítið og var í lokaprófum í Versló. Við þetta hófst leiðangur að skoða þetta, að borða hollar og ég byrjaði að fara í kalda potta. Árið 2020 byrjaði ég að þjálfa og alveg til 2022 var ég að þjálfa á milljón. Síðan í lok síðasta árs lenti ég í andlegum veikindum, fékk kvíða og þunglyndi og hef verið að vinna í því.“

Eitt af því sem Gummi gerir til að huga betur að andlegri líðan er að nota svokölluð „blue blocking“-gleraugu áður en hann fer að sofa. „Ljósið úr símanum okkar, sjónvarpinu eða jafnvel perurnar heima hjá okkur senda merki til líkamans um að það sé dagur og þá fáum við ekki góðan svefn. Þess vegna set ég á mig svona gleraugu og ég á auðveldara með að sofna og svefninn hefur verið betri. Ef ég sef almennilega á ég betra líf, get gert meira og hjálpað fleirum.“

Gummi jarðtengir sig líka með því að ganga berfættur úti. „Margir horfa á mig og hugsa: hvað er hann eiginlega að gera. Þetta hjálpar til við að minnka bólgur í líkamanum og stress. Að stjórna stressi er gífurlega mikilvægt ef við ætlum að koma í veg fyrir sjúkdóma. Ég nenni ekkert að fá sjúkdóma og fara á lyf og það eru síðan 100 fylgikvillar á þessum lyfjum. Ég ætla að koma í veg fyrir þetta allt og labba á tánum í 10 til 30 mínútur á dag.“

Gummi Emil.
Gummi Emil. mbl.is/Eyþór Árnason

Kaldur pottur í stað kaffibolla

Margir fá sér kaffi eða jafnvel orkudrykk með koffíni á morgnana en Gummi baðar sig upp úr köldu vatni í staðinn. „Um leið og ég vakna reyni ég að fara í kaldan pott eða kalda sturtu. Ég finn mikinn mun, orkan fer alveg upp. Ég tek pottinn fyrir æfingu. Ég held að það sé svo gott fyrir okkur í vetur að leyfa okkur að verða kalt, ekki bara hlaupa út í bíl og hlaupa svo inn á skrifstofu. Fólk þarf að verða kalt í vetur, við vorum ekki alltaf með þennan lúxus. Ég held að það sé svo gott fyrir líkamann að geta hitað sig upp. Við lifum hérna á Íslandi, við þurfum að tengjast náttúrunni betur,“ segir Gummi sem grípur einmitt oft til frasans „víkingar vakna“ sem vísar til víkingaeðlis okkar Íslendinga.

Hvað er besta heilsuráðið þitt?

„Það er að gefa sér tíma fyrir sig, fylgjast með andardrættinum á morgnana, gefa sér þrjár til fimm mínútur og spyrja hvernig mér líður. Að tengjast sjálfum sér betur. Er ég að gera það sem mig langar að gera eða er fólk stöðugt að forðast sjálft sig og hugsanir sínar? Að hlaupa út í bíl með hlaðvarp í gangi, vinna allan daginn, koma úr vinnunni með hlaðvarp og borða. Anda meira með nefinu, prófa að labba í grasinu á tánum, horfa upp til himins og reyna að fá sólargeisla í augun og spyrja af hverju er ég hérna? Hver er mitt hlutverk? Og ekki fara í símann fyrstu tvo til þrjá tímana af deginum og slökkva á netinu á kvöldin,“ segir Gummi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál