Bakarinn Jóhannes Felixson, eða Jói Fel eins og hann er jafnan kallaður, segir hreyfingu vera hluta af lífsstílnum. Í fyrra fékk hann kransæðastíflu og þakkar meðal annars góða forminu hversu hratt hann jafnaði sig. Í dag er hann jafnvel betri ef eitthvað er.
„Það eru akkúrat 40 ár núna frá því að ég byrjaði að æfa í líkamsræktarsal. Þannig að ég er af gamla skólanum, það er bara rifið vel í lóðin og tekið vel á því. Ég ólst upp við það að æfa með Jóni Páli og Bjössa í World Class áður en hann opnaði stöðina sína. Ég tek brennslu á bretti nokkrum sinnum í viku og þá aðallega til að halda lungum og hjarta í góðu formi, ekki til að brenna fitu,“ segir Jói þegar hann er spurður hvernig hann æfir.
Hvað færðu út úr því að hreyfa þig?
„Mér finnst ég ferskari og hressari, get borðað meira en lífið gengur út á það hjá mér. Annars finn ég mest fyrir því þegar ég næ ekki æfingu, þá er eins og eitthvað vanti upp á daginn og lífið. Andlega hliðin er alltaf betri ef ég fer á æfingu og ég tilbúnari í daginn. Svo finnst mér gott að líta í spegil og spegillinn segir: „Jói minn, þú ert ágætur en verður að halda áfram.““
Jói og sambýliskona hans, Kristín Eva Sveinsdóttir, fara oft á æfingu saman. „Ég og unnusta mín æfum sex sinnum í viku saman, stundum sjö sinnum. Ég reyni að fara á hverjum degi á æfingu en er ekki nema einn til einn og hálfan tíma á dag. Konan er reyndar miklu flottari og betri. Hún er margfaldur Íslandsmeistari í fitness, hún er til dæmis núverandi Íslandsmeistari í icefitness. Hún vann allar þrautir sem voru í boði, vann samanburð og tók til dæmis 90 armbeygjur, geri aðrir betur. Hún vann allt sem hægt var að vinna á þessu móti. Æfingar eru ekki áhugamál hjá mér, meira svona lífsstíll. Áhugamál mín eru af öðrum toga, ég mála mikið og teikna mikið og spila smá golf á sumrin.“
Skiptir heilsa miklu máli á ykkar heimili?
„Orðið heilsa er víðtækt orð og hægt að nota það og túlka á marga vegu. Heilsan skiptir okkur miklu máli því hún er eitt af því dýrmætasta sem við eigum. Við hugsum um heilsuna ómeðvitað á hverjum degi því þetta er orðið að lífsstíl hjá okkur og komið í fasta rútínu, það er að hreyfa okkur og borða mat sem búinn er til frá grunni, við erum þó aldrei í að telja kaloríur eða slíkt. Við reynum að halda unnum matvörum í algjöru lágmarki. Við erum einnig mjög meðvituð um að svefn og hvíld skipta miklu máli og ég reyni að alltaf að ná sjö til átta klukkustunda svefni. Þar sem búið er að spengja á mér bakið og ég er með nokkrar skrúfur í því verð ég að æfa vel og rétt svo bakið verði í lagi og ég geti staðið í lappirnar.“
Hvernig hugsar þú um mataræðið?
„Ég hugsa um mat allan daginn og hef alltaf gert, hvort sem það er að elda fyrir mig eða aðra. Eina sem ég hugsa um í mataræði mínu er að fá sem fjölbreyttastan mat. Ég er búinn að borða sama morgunmat í um það bil 40 ár; haframjöl, rúsínur og smá cheerios með fjörmjólk eða AB-mjólk. Ég borða mikið af kjúklingi og rauðu vel feitu kjöti. Alltaf smá grænmeti og ávexti. Eina sem ég þarf að bæta meira inn í hjá mér er fiskur. Annars borða ég nánast allt nema grænar Ora-baunir, get þær ekki því miður. Ef ég borða mikið og vel um helgar tek ég það rólega á mánudeginum og borða minna til að halda jafnvæginu. Ég hugsa oft eina viku í einu; ef ég borða mikið einhverja daga borða ég minna næstu daga, þannig held ég þessu jafnvægi.“
Finnst þér fólk mega hafa meira jafnvægi í huga gagnvart mataræði?
„Ég veit að ég get verið mjög erfiður þegar aðrir spyrja mig um mat og hvað er hollt og fleira. Venjulega vita flestir hvað er hollt og óhollt. Ég hef ekki skilið þessa kúra sem er eins og allir vita oftast einhverjar skyndilausnir sem duga stutt, betra er að reyna að gera breytingar til frambúðar. Best er að horfa nokkra mánuði eða ár eða mörg ár fram í tímann. Þetta er bara þolinmæði og ekkert annað. Svo er bannað að nota vigtina sem mælikvarða, því kíló segja bara alls ekki allt, bara nota spegilinn sem viðmið. Ef manneskjan er ánægð í speglinum er allt í lagi, en stundum er hægt að gera betur ef einstaklingurinn vill það og langar. Eina sem fólk má ekki hugsa um er að það langi til að vera eins og einhver annar, engir tveir eru eins og allir eru jafn fallegir. Það verður enginn eins og Arnold Schwarzenegger, Bjössi í World Class eða Jói Fel. Markmiðið er að gera betur í dag en í gær og vera besta útgáfan af sjálfum sér, líða vel í eigin skinni.“
Finnurðu fyrir því að þú ert að eldast?
„Eina sem ég finn fyrir því að eldast er að ég man ekki hvað ég er gamall. Ég stóð á sviði 1988, þá 21 árs, og mér finnst ég ins og þá, enda er eina markmiðið mitt að halda mér eins og hef alltaf verið og ætla að halda því áfram. En eftir því sem maður eldist þarf að hafa meira fyrir að halda brennslunni í lagi þar sem það hægist á henni með árunum. Stundum fæ ég mér einn bjór (í einu) og við, allavega karlarnir, vitum alveg hvar hann endar hjá okkur. Þegar við eldumst förum við að njóta meira í mat og drykk, slökum meira á og njótum lífsins. En það kostar það að ég hreyfi mig oft þar sem ég finn að ég þarf þarf að hafa meira fyrir að halda mér í formi en áður þegar brennslan kom af sjálfu sér.“
Jói lenti á spítala í fyrra þegar hann fékk kransæðastíflu algjörlega upp úr þurru. „Ég hélt að ég væri í góðum málum þar sem ég er ekki með hátt kólesteról og tel mig hugsa vel um heilsuna. Ég hafði ekki fundið nein einkenni. Kransæðastífla er mjög ættgengur sjúkdómur í móðurætt minni. Hjá mér byrjaði þetta mjög skyndilega á svima, köldum svita, verk í brjósti og út í vinstri hönd. Þá er nú gott að eiga konu sem er menntuð hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður og vissi strax hvað var í gangi. En frá fyrstu verkjum var ég búinn í hjartaþræðingunni tveimur tímum seinna. Allt gekk upp á tíu, ég fékk stoðnet í æðina og mér var sagt að ég yrði betri fyrir vikið. En þannig hugsa ég í dag, að ég sé bara betri, ef það er hægt.“
Var þér brugðið?
„Mér var ekki brugðið, fannst þetta ekki vera neitt. En fólkinu mínu í kringum mig var meira brugðið og gott að vita að allir hugsuðu vel og fallega til mín meðan á þessu stóð og á eftir. Ég hef samt hugsað mikið um þetta eftir á. Eins og einn læknirinn sagði: ef ég hefði verið á rjúpu að veiða uppi á fjöllum hefði þetta getað farið mun verr.“
Þurftirðu að gera eitthvað til að ná upp fyrri styrk?
„Ég var á spítala í tæpa viku og átti svo að taka því rólega á eftir. En ég var mættur í vinnu daginn eftir og í World Class viku seinna. Enda sögðu læknarnir að ég væri góður og bara betri. Eina var að ég mátti ekki reyna mikið á hjartað til að byrja með. Ég held að um mánuði seinna hafi ég verið búinn að ná fullum styrk, enda í góðri þjálfun fyrir áfallið. Ég breytti engu öðru, enda í ágætu formi og allt í lagi í skrokknum. Bara áfram með þetta líf,“ segir Jói.
„Við karlpungarnir mættum hætta að halda að það sé ekkert að okkur þegar við finnum dæmigerð einkenni eins og svima, kaldan svita, brjóstverk – getur fylgt leiðni í handlegg, aukna mæði og óútskýrða þreytu. Ef þið finnið fyrir þessu þá beint upp á spítala og ekkert væl. Þetta er dauðans alvara.“
„Ég hef alltaf verið á fullu frá því ég man eftir mér og er ekkert að slaka á. Enda finnst mér ég vera í fullu fjöri enn þá og get gert næstum allt sem ég gerði þegar ég var yngri. En það er mjög nauðsynlegt að geta slakað vel á inn á milli. Ég hef alltaf verið að teikna og mála og er það einhver mesta slökun sem ég veit um. Þá er ég ekki að hugsa mikið um mat, læt bara listina fljóta áfram og næ góðri andlegri slökun. Svo er hrikalega gott þegar við liggjum uppi í sófa að horfa á góða bíómynd með smá nammi. En ég næ ekki að borða mikið þar sem konan klárar það svo fljótt.“
Ertu með einhver markmið eða eitthvað sem þig langar að prófa heilsutengt í vetur?
„Markmiðin eru alltaf þau sömu hjá mér: áfram gakk og ekkert væl. Ég er búinn að prufa og fara í gegnum svo margt í lífinu, búinn að fara í margar litlar og stórar aðgerðir í bakinu. Eina markmiðið er bara að halda áfram og reyna gera betur á morgun en ég gerði í dag. Það er erfitt að snúa við svona stóru flugmóðurskipi, best bara áfram gakk takk fyrir.“
Hvað gefur lífinu gildi?
„Núið er best, ekki horfa of langt fram í tímann og njóta dagsins í dag enda er það alltaf besti dagurinn. Vitandi að allir séu hressir í kringum mig, að sjá elsku bestu börnin mín dafna vel og að eiga foreldra á lífi eru forréttindi. Sjá dýrin mín í kringum mig og hlakka til að koma heim eftir langan en góðan vinnudag og allir glaðir. Mér finnst gott að fara snemma að sofa með góða bók en ég les mjög mikið. Að knúsa konuna mína góða nótt og hlakka til að taka morgundeginum með bros á vör. Ég get ekki beðið um mikið meira en það.“