Andrea flutt með börnin og gerist jógakennari í Köben

Andrea Eyland er flutt til Danmerkur með þrjú af börnunum …
Andrea Eyland er flutt til Danmerkur með þrjú af börnunum og mun hefja störf sem jógakennari í október. Samsett mynd

„Ég keypti mér miða aðra leið til Kaupmannahafnar. Með mér út komu hluti af barnahópnum en Ylur og Varmi sem eru fimm og fjögurra ára og Sóley 18 ára munu búa hjá mér. Restin er hjá pabba sínum á Íslandi,“ segir Andrea Eyland í samtali við Smartland. 

Andrea hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu ár en hún gerði sjónvarpsþættina Líf kviknar og Dafnar sem fjölluðu um meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Hún hefur líka haldið úti hlaðvarpinu Kviknar en síðustu ár hafa hún og Þorleifur Kamban, barnsfaðir hennar, staðið í ævintýralegri húsbyggingu í Hveragerði. Hús þeirra Kambastaðir hefur ekki bara hýst fjölskylduna heldur hafa þau haldið námskeið fyrir foreldra sem þurfa á andrými og styrk að halda.

Andrea er mikil flökkukind og Danmörk togar alltaf reglulega í …
Andrea er mikil flökkukind og Danmörk togar alltaf reglulega í hana.

Nú er Andrea hinsvegar flutt tímabundið til Danmerkur. Þegar hún er spurð að því hvað hún ætli að gera í kóngsins Kaupmannahöfn segist hún ætla að láta gamlan draum rætast. 

„Fyrsta vikan fór nú bara í að lenda. Danmörk tók á móti okkur með brjálæðislega góðu veðri og við erum aðeins að átta okkur á hverfinu sem við völdum að búa í. Ég var búin að leigja íbúð fyrstu dagana en þegar við mættum var ég tveimur dögum of snemma! Týpískt ég,“ segir hún og hlær og bætir við:

„En yndislega Karen, sem ég kynntist í sumar, mokaði okkur öllum inn til sín og bjargaði málunum. Mörgum fannst glapræði að vaða út án heimilis nema í nokkra daga en á daginn er komið að ég fékk íbúð daginn eftir að við mættum. Svo hafa mér reyndar verið boðnar tvær aðrar sem henta okkur og ég valdi bara þá sem gaf mér besta tilfinningu í magann, þó hún væri ekki skynsamlegust,“ segir Andrea.

Tveir yngstu synirnir eru með í för og fluttir til …
Tveir yngstu synirnir eru með í för og fluttir til Kaupmannahafnar ásamt móður sinni.

Bjó í Danmörku fyrstu fimm ár ævinnar

Aðspurð að því hvers vegna Danmörk hafi orðið fyrir valinu segist hún vera flökkukind og landið kalli reglulega á hana en hún bjó þar með foreldrum sínum þegar hún var lítil.  

„Ég hef flakkað milli landa og bæjarfélaga síðan ég var barn. Mamma og pabbi voru í námi í Álaborg svo fimm ár af æskunni voru á dönsku. Þó heimili sé alltaf þar sem hjartað er og foreldrar mínir ávalt verið snillingar í að gera öruggt og huggulegt þar sem við búum hverju sinni þá hefur flakkari fests í mér og mér finnst gaman að vera fiðrildi sem prófar nýja hluti. Ég á held ég auðvelt með að aðlagast breytingum og er opin fyrir nýjum hlutum fyrir vikið. Danmörk hefur alltaf kallað, ég hef flutt hingað nokkrum sinnum og síðan ég flutti til Íslands síðast hefur það verið á dagskrá. Þegar ég hitti Karen í sumar og tvær hvatvísar byrjuðu að blaðra fannst mér rétti tíminn komin. Hún bauð mér vinnu og af því ég hafði sótt um margar á Íslandi en ekki einu sinni fengið viðtal fannst mér hugmyndin hreinlega brilliant,“ segir Andrea og er þá að tala um Karen Halldórsdóttur jógakennara í Kaupmannahöfn. 

„Í lok september fáum við íbúðina okkar og svo vonandi komast strákarnir inn á leikskóla á þessu ári. Þessa dagana skiptum við Sóley dóttir mín þeim með okkur, meðan ég er í jóga og að koma mér inn í nýja vinnu er hún í hjólatúrum og á leikvöllum með þá. Og öfugt, ég hleypi henni alveg líka út,“ segir Andrea og hlær. 

„Í lok október fer ég síðan af stað með jóganámskeið fyrir verðandi og nýbakaðar mæður hjá Dóttir Hot Yoga Studio í Nordhavn sem er fyrirtæki í eigu Karenar. Við erum síðan með á prjónunum fáránlega spennandi verkefni sem ég get ekki sagt frá fyrr en samningar hafa náðst.

Þorleifur er heima á Kambastöðum með unglingana og heldur þar áfram að hlúa að húsinu okkar sem er hvergi nærri lokið og svo sjáum við hvað framtíðin ber í skauti sér. Köben eða Kambey, eða bæði,“ segir hún. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál