Heiður Hallgrímsdóttir og eiginmaður hennar, Guðni Eydór Loftsson, komu sér upp heimarækt þegar þau stækkuðu við sig. Heiður segir þægilegt hversu stutt er að fara í ræktina, sérstaklega með tvö ung börn heima við.
„Núna er ég alltaf í heimaræktinni eða Skúrnum eins og hann er kallaður. Ég fer af og til að synda, það er ein af fáum brennsluæfingum sem ég nenni að gera. Þegar ég og maðurinn minn byrjuðum saman í byrjun 2013 bættust þessi klassísku sambandskíló á okkur bæði. Við höfum bæði alltaf verið dugleg að hreyfa okkur og viljum frekar einbeita okkur að því að gera það saman heldur en að sitja og hakka í okkur enn einn bragðaref yfir þáttum. Þegar við tókum meðvitaða ákvörðun um að rífa okkur í gang aftur, þá fóru hlutirnir að gerast,“ segir Heiður.
„Fyrir mig snúast þessar æfingar ekki bara um að styrkja mig líkamlega, heldur líka liðka líkamann og svo gerir þetta auðvitað svakalega mikið fyrir andlegu hliðina. Ég fer alltaf í morgunrækt því þá er ég orkumeiri yfir daginn, líkaminn ekki stífur og hausinn á réttum stað. Fyrir utan það að ég vil vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín og hreinlega vera sterk mamma.“
Á undanförnum árum hefur Heiður meðal annars verið að byggja sig upp eftir tvær meðgöngur.
„Æfingar á meðgöngu eru öðruvísi en venjulega og meðgöngurnar mínar voru mjög mismunandi og líkaminn minn allt öðruvísi eftir fyrra og seinna barnið mitt. Ég var í mínu besta formi árið 2017 áður en ég eignaðist mitt fyrsta barn í desember 2018. Fyrir það mætti ég sex til níu sinnum í viku. Ég hélt áfram að mæta í ræktina á meðgöngunni. Ég fann það strax á fyrstu mánuðunum á meðgöngunni hvað ég var orkulaus. Ég var enn þá peppuð að mæta en flesta daga sofnaði ég upp í sófa eftir vinnu, borðaði kvöldmat og fór svo aftur að sofa. Á fjórða til sjötta mánuði meðgöngunnar var ég aftur komin með orkuna og fór reglulega á æfingu. Ég fór rólega af stað og hlustaði á líkamann. Ég prófaði mig áfram til dæmis með að halda áfram að sippa og lyfta lóðum þótt margt á netinu sagði manni ekki að gera það. En ég var vön, hlustaði bara á líkamann og fór aldrei fram úr sjálfri mér.
Ég fór aftur að mæta í ræktina mánuði eftir að hafa átt dóttur mína, einfaldlega því ég saknaði þess að hreyfa mig og vildi byrja að líða meira eins og ég sjálf aftur. Það er merkilegt hvað margt getur breyst eftir að þú gengur með barn. Ég þurfti að læra upp á nýtt að spenna magavöðvana og passa að beita líkamanum aftur rétt því ég var vön að vera fött í baki til að halda jafnvægi þegar ég var með kúluna framan á mér. Ég fór auðvitað hægt af stað og skref fyrir skref byrjaði ég að taka lengri æfingar og lyfta þyngri lóðum. Við mæðgurnar æfðum okkur líka saman heima, ég að halda planka á meðan hún var að æfa sig að vera á maganum.
Ég varð ólétt að yngra barninu mínu í lok 2019 þegar Covid-19 var að gera vart við sig úti í heimi. Ég gat því ekkert hreyft mig eins og ég gerði þá meðgöngu þar sem ræktirnar voru lokaðar stóran hluta. Ég eignaðist svo son minn í september 2020, þá var blessað Covid komið upp aftur og allt lokað aftur. Endurhæfingin eftir þá meðgöngu varð því miklu lengri heldur en með eldra barnið mitt. Satt best að segja er ég enn þá að vinna í því þremur árum síðar.“
Af hverju ákváðuð þið að fá ykkur heimarækt?
„Þetta hefur verið draumur hjá okkur hjónunum í langan tíma. Þegar við vorum að leika okkur að skoða fasteignir þegar við vildum stækka við okkur og færa okkur um set langaði okkur að gera ýmislegt. Þar á meðal var að vera með bílskúr sem við gætum sett upp heimarækt í og samt haft sem geymslu. Maðurinn minn fann svo draumaeignina okkar í Hveragerði. Þar var einbýlishús með stórum garði fyrir börnin og hundinn og bílskúr. Það er mikil Crossfit-menning hér í Hveragerði en ég var ekki viss um að líkami minn væri alveg tilbúinn í það strax og eina ræktin þar er í sundlauginni sem opnaði ekki nógu snemma til að fara á morgunæfingu fyrir vinnu. Við ákváðum þá að gera drauminn að veruleika og splæsa í okkar eigin rækt. Við settumst niður og spáðum mikið í hvað við vildum kaupa inn í hana þannig að við fengjum sem mest út úr peningunum okkar og að geta gert eins margar og mismunandi æfingar og kostur er.“
Er ræktin alveg tilbúin?
„Nei ekki alveg. Við erum alltaf eitthvað að breyta og bæta. Við erum nýlega búin að færa allt til í Skúrnum til að búa til meira pláss svo við getum verið fleiri að taka æfingu saman. Einnig bjuggum við til smá krakkahorn fyrir börnin okkar sem vilja alltaf koma með okkur í ræktina. Þar eru fimleikahringir og stór dýna fyrir neðan. Þar eiga eftir að koma rimlar og klifurveggur og margt fleira. Börnin elska að koma með okkur um helgar eða eftir leikskólann. Í ræktinni sjálfri erum við hægt og rólega að bæta í safnið okkar. Okkur langar að setja upp skilti inn í ræktina eins og þetta væri alvöru rækt, einfaldlega því okkur og vinum sem nota ræktina með okkur af og til finnst það fyndið.“
Er öðruvísi tilfinning að æfa heima en á stórri líkamsræktarstöð?
„Mér finnst klárlega vera munur á því að æfa í minni eigin rækt og almenningsrækt. Fyrst og fremst þá er hún alltaf opin fyrir okkur, sem hefur gefið okkur mikið frelsi. Það munar líka um það að allir frídagar og rauðir dagar eru vel nýttir í ræktinni. Ég byrja daginn á því að fara í ræktina þegar allir á heimilinu eru sofandi. Maðurinn minn stekkur svo í ræktina annað hvort eftir vinnu eða þegar börnin eru sofnuð. Við settum upp barnapíuna inn í ræktina þannig að við getum farið saman í ræktina eins og í gamla daga, á meðan börnin sofa vært í næsta húsi.
Það eru líka litlu hlutirnir eins og að geta sungið hástöfum með lögunum á milli æfinga, eða til að koma mér í gírinn. Ég fattaði fljótlega að ég þarf ekki að vera í bol heldur bara í topp frekar ef ég vil það. Ég þarf ekki heldur að bíða eftir að einhver klári að nota ákveðið tæki.“
Finnur þú mun á því að vera með ræktina heima?
„Þetta er svakalegur lúxus, sérstaklega þegar maður á ung börn. Það tekur mig tíu sekúndur að labba út í skúr og það hefur verið mikill drifkraftur fyrir mig, það er að segja ég hef ekki leyft mér að vera með einhverjar afsakanir. Þegar það var snjór upp fyrir hné síðustu vetur, þurfti ég ekki að skafa af bílnum og keyra í ræktina heldur hoppa bara í gönguskóna og troða nýfallinn snjó í tíu sekúndur. Maðurinn minn er duglegur að grafa smá göngustíg fyrir okkur til að komast í Skúrinn.“
Heiður er dugleg að birta myndir af sér í Skúrnum á Instagram en hún notar það til þess að hvetja sjálfa sig áfram. „Ég byrjaði að taka myndir af mér síðasta sumar í hvert skipti sem ég tók æfingu og taldi hvaða æfing það væri í þeim mánuði til að hvetja sjálfa mig áfram og til að halda utan um það. Ég gerði það líka af því ég er ekkert að spá í vigtinni, ég er frekar að fylgjast með andlegum og líkamlegum breytingum. Það gerði ótrúlega hluti fyrir mig, ég velti því ekkert sérstaklega fyrir mér, því ég er aðallega með fólk sem ég þekki á Instagraminu mínu. Þetta var aðallega fyrir mig og forvitnina mína, hversu margar æfingar gæti ég tekið í mánuði án þess að breyta mínu daglega lífi og skipulagi. Það kom í ljós að það var heill hellingur, ég er að taka allt frá 20 til 27 æfingar í hverjum mánuði. Auðvitað eru æfingarnar misöflugar en margt smátt gerir eitt stórt. Eftir einhvern tíma var fólk byrjað að hafa orð á því hvað ég væri dugleg, það hafi hvatt þau til að hreyfa sig þann daginn því þau sáu ræktarmyndina mína á Instagram. Ég fæ líka af og til fólk sem sendir mér persónulega mynd að taka æfingu, og biðja mig um að senda þeim myndbönd af því hvernig ég geri ákveðnar æfingar. Það finnst mér alveg sturlað gaman að ég hafi alveg ómeðvituð hvatt einhver til að taka æfingu og þau vilji hjálp frá mér.“
Ertu dugleg að setja þér markmið?
„Já, í fyrsta lagi þá reyni ég alltaf að ná 20 æfingum í mánuði. Ég hef svolítið verið að horfa á líkamann í þremur pörtum. Efri hluti, miðja og neðri hluti. Ég hef verið að einbeita mér að efri hluta síðustu misseri. Handleggir, axlir og efra bak. Þótt að ég gæti þess að æfa allan líkamann í hverri viku þá hef ég lagt meiri áherslu á efri hlutann. Núna langar mig að fara að einblína meira á miðjuna. Maga og neðra bak. Þannig finnst mér ég geta séð mun á mér betur og þá dett ég ekki í vonleysispakkann og næ að halda ótrauð áfram.
Markmiðið fyrir veturinn er að einbeita mér að því að næra líkama minn vel. Ég er komin á gott skrið með reglulegar æfingar og núna vil ég bæta mataræðið líka. Ég er ekki bara að mæta í ræktina til að styrkja mig heldur gerir þetta svo svakalega mikið fyrir andlegu hliðina.“
Heiður deilir meðal annars hvetjandi æfingamyndum á @heidurhallgrims á Instagram.