„Við þekkjum bæði fullt af kláru fólki sem er búið að sigra heiminn en því líður samt kannski ekkert rosalega vel,“ segir Kjartan Guðbrandsson einkaþjálfari í Dagmálum.
Kjartan hefur um margra ára skeið aðstoðað fólk við að setja líkamlega og andlega heilsu í forgang. Til hans hefur fólk úr öllum stéttum samfélagsins leitað eftir öruggri og árangursríkri leiðsögn í líkams- og heilsurækt og segir Kjartan að ekkert samasemmerki sé á milli vellíðunar og veraldlegrar velgengni fólks.
„Þá spyr ég bara, hversu klár ertu ef þú getur sigrað heiminn en getur ekki látið þér líða vel?“ segir Kjartan. „Það er ekkert rosalega klárt að sigra heiminn og vera með fyrirtækið á hreinu og allt frábært en svo ert þú í vonbrigðum eða líður ekki vel. Mér finnst ekkert klárt við það,“ segir Kjartan.
Hann segir fólk á framabraut oft eiga það til að upplifa vansæld þrátt fyrir að því skorti ekkert. Nema þá kannski sjálfsmildi og núvitund, eða heilbrigða eigingirni, eins og hann orðar það.
„Það sem að ég geri þegar ég fæ fólk til mín er að fá það til að opna augun og hugsa. Þetta snýst í rauninni bara alltaf um eina manneskju,“ segir Kjartan.
„Þú getur fengið ráð hér og þar en okkur er gefin ótrúlega góð skilningarvit. Svo eyddu meiri tíma í að finna lyktina af hlutum, eyddu meiri tíma í hlusta, eyddu meiri tíma í að veita sjálfum þér og öðru fólki athygli eða eins og ég vil kalla það bara heilbrigð eigingirni,“ segir hann og hvetur fólk til að hægja á sér, staldra aðeins við í hversdagsleikanum og meta hvað það er sem veitir því vellíðan.