„Ég borða ekki fyrr en eftir hádegi“

Þorbjörg Hafsteinsdóttir reynir að lifa eins heilsusamlegu lífi og hún …
Þorbjörg Hafsteinsdóttir reynir að lifa eins heilsusamlegu lífi og hún getur. Ljósmynd/Stine Heilmann

Þor­björg Haf­steins­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og nær­ing­arþerapsti, er um­hugað um breyt­inga­skeiðið og heilsu­far fólks. Hún seg­ir mik­il­vægt að sneiða fram hjá sykri. Hún ger­ir slík sjálf og stund­ar reglu­lega hreyf­ingu ut­an­dyra ásamt því að fara í jóga­tíma. 

„Breyt­inga­skeiðið og heilsu­far kvenna 50 ára og eldri er komið á kortið og löngu tíma­bært að við ræðum það og viður­kenn­um þá staðreynd að mörg­um kon­um líður miður vel í ósann­gjarn­lega mörg ár. Breyt­inga­skeiðið er ekki sjúk­dóm­ur held­ur eðli­legt tíma­bil í lífi kvenna þegar fram­leiðsla af horm­ón­un­um estrógeni, prógesteróni og testó­steróni í eggja­stokk­um minnka og að lok­um stoppa. Ein­kenni eru mörg og mis­jafnt eft­ir kon­um en þau helstu eru hitakóf, þreyta, van­líðan, svefntrufl­an­ir, beinþynn­ing og skert fitu­brennsla,“ seg­ir Þor­björg um breyt­inga­skeiðið. 

Hún seg­ir ým­is­legt hægt að gera til að und­ir­búa tíma­bilið auk þess sem hægt er að tak­ast á við það með nokkr­um góðum bjargráðum á meðan því stend­ur. „Það er ekki hægt að end­ur­ræsa tapaða horm­óna en það er hægt að vinna í und­ir­liggj­andi aðstæðum og ræsa kerf­in og end­ur­heimta orku, styrk, jafn­vægi og gleði,“ seg­ir Þor­björg sem er ein­mitt með nám­skeið um breyt­inga­skeiðið í Reykja­vík í janú­ar.

Eins og svo oft áður skipt­ir mataræðið máli. „Að sleppa öll­um bólgu­vald­andi mat þar á meðal sykri og viðbætt­um sykri og hafa stjórn á brauðmeti, sér­stak­lega hvíta hveit­inu. Þetta mun líka gagn­ast þeim horm­ón­um sem stjórna fitu­brennslu. Borða gæða pró­tín og kolla­gen fyr­ir vöðva og bein og góða gæða fitu fyr­ir horm­óna, heila og tauga­kerfi. Reglu­leg hreyf­ing og lík­ams­rækt er líka mik­il­væg sem og að skapa kring­um­stæður með ró til dæm­is stunda hug­leiðslu og jóga, stunda handa­vinnu og hlusta á góða bók eða tónlist,“ seg­ir Þor­björg. 

Þor­björg býr og starfar í Dan­mörku og seg­ir hún að þar er fólk farið að veita breyt­inga­skeiðinu og kon­um 50 ára og eldri verðskuldaða at­hygli. „Til dæm­is hef­ur stór vinnustaður sett af stað frá­bært fram­tak með heilsustyrkj­andi fund­um fyr­ir kon­ur 50 ára og eldri. Ég var svo lán­söm að vera beðin um að taka þátt sem fræðslu­stjóri í þessu spenn­andi verk­efni. Mark­miðið er skapa auk­inn skiln­ing á breyt­inga­skeiðinu og skapa rými fyr­ir kon­ur til að tala sam­an og fá fræðslu og góð ráð. Það eru ekki all­ir á vinnustaðnum sem fatta að til dæm­is Jóna sé þreytt og ekki eins af­kasta­mik­il eins og hún er vön að vera, af því að hún var log­andi heit alla nótt­ina og skipti um rúm­fatnað tvisvar út af hitakófi!“

Allt und­ir okk­ar stjórn 

Hvað finnst þér spenn­andi í dag þegar kem­ur að heilsu?

„Heilsa okk­ar er það dýr­mæt­asta sem við eig­um. Við heyr­um þetta svo oft og ég end­ur­tek það gjarn­an; heils­an er það dýr­mæt­asta sem við eig­um og tím­an­um sem við verj­um í að efla og styrkja okk­ur er vel varið. Ég hef sterka trú á að við séum far­in að átta okk­ur á því að góð heilsa og gott heil­brigði er háð meðvituðum ákvörðunum og það er und­ir okk­ar stjórn að næra lík­ama og sál. Það má held­ur ekki gleyma, að við erum fé­lags­ver­ur með þær grunnþarf­ir vera elskuð og virt fyr­ir það sem við erum. Og við erum öll frá­bær, sterk og viðkvæm.

Það er áhuga­vert og spenn­andi, alla vega frá mín­um dyr­um séð, hvað vís­ind­in eru áhuga­söm um lang­lífi og hreysti. Síðustu árin hafa óend­an­lega marg­ar rann­sókn­ir sýnt og sannað að tíma­bund­in fasta, köld böð og heit gufa, reglu­leg hreyf­ing, lík­ams­rækt og lág­kol­vetna fæði eyk­ur holl­ustu og lík­urn­ar á að lengja lífið um nokk­ur ár. Öll þessi fyrr­nefndu heilsu­verk­færi virka á eðli­lega starf­semi lík­am­ans í sinni heild. Þau styrkja ónæmis­kerfið, horm­óna­bú­skap­inn all­an, efna­skipti, fitu­brennslu, háþrýst­ing og bólg­ur svo eitt­hvað sé nefnt. Í verk­færa­kass­ann má bæta við meðvitaðri önd­un og hug­leiðslu.“

Hreyfing skiptir líka máli.
Hreyf­ing skipt­ir líka máli. Ljós­mynd/​Lauf­ey Sig­urðardótt­ir

Syk­ur er ávana­bind­andi

Þor­björg legg­ur mikla áherslu á að minnka syk­ur­neyslu. 

„Grunn­ur­inn að góðri heilsu er mataræðið. Það sem við velj­um að borða og það sem við velj­um ekki að borða. Þetta er ekki flókið, all­ir vita núorðið hvað er óhollt og hvað ekki. Samt er syk­ur­neysl­an hér á landi að meðaltali 50 kg á hvert manns­barn á ári og þar af eru um 30% sykraðir gos­drykk­ir. Áhrif á holdafar og offitu er aug­ljós en ekki er eins ljóst að viðbætt­ur syk­ur í ofskömmt­um skap­ar ójafn­vægi á m.a. horm­óna­bú­skap­inn, ónæmis­kerfið, bólg­ur og and­legt heil­brigði.

Hér í Dan­mörku, þar sem ég bý og starfa, er heilsu­far á svipuðum nót­um eins og hér heima og hér eru sam­bæri­leg­ar heilsu­fars­leg­ar áskor­an­ir. Það sem ég sé hins veg­ar mun á er á meðvirkni og fíkni, ég upp­lifi það flókn­ara hér heima. Hluti af ástæðunni er að mínu mati arf­ur frá fyrri kyn­slóðum þar sem mis­notk­un áfeng­is var gríðarlega mik­il, hvernig drykkj­an og drykkju­menn­ing­in varð til í kring­um fjöl­skyld­ur og þjóðfé­lagið. 

Syk­ur­inn er að mínu mati ávana­bind­andi efni og trigger­ar „fíkni­g­engið“ og þess vegna, sam­kvæmt bæði minni per­sónu­legu og fag­legu reynslu, get­ur verið flókið verk, að vinna sig frá hon­um og aðstæðunum sem við not­um hann í. En það er að sjálf­sögðu hægt með ásetn­ingi og rétt­um verk­fær­um. Ég hef í mörg ár aðstoðað og leiðbeint fólki með syk­ur­stopp og ofþyngd í per­sónu­leg­um hnit­miðuðum einka­tím­um og á nám­skeiðum. Ég er hér heima í janú­ar og býð upp á bæði.“

Reglu­leg hreyf­ing ætti að vera á lyf­seðlin­um

Þor­björg seg­ir einnig mik­il­vægt að hreyfa sig reglu­lega og stunda lík­ams­rækt og all­ir hafa aðgang að henni. 

„Það er ótví­rætt hvað það ger­ir okk­ur gott, bæði lík­am­lega og and­lega. Ég er fyr­ir löngu búin að sjá og sann­reyna hvað það ger­ir fyr­ir mína heilsu. Ald­ur er og ætti ekki að vera nein hindr­un. Þvert á móti, þá sýna fjöl­marg­ar rann­sókn­ir að hreyf­ing og lyft­ing­ar og það að bera þungt, styrk­ir vöðva og bein og fyr­ir­bygg­ir vöðvarýrn­un og beinþynn­ingu, styrk­ir ónæmis­kerfið og viðnám gegn sjúk­dóm­um. Reglu­leg hreyf­ing og úti­vera ætti að vera á lyf­seðli við dep­urð og þung­lyndi.

Ég stunda lyft­ing­ar og stöðvar þjálf­un með hópi ut­an­dyra þris­var í viku, í hvaða veðri sem er, sum­ar og vet­ur. Það stopp­ar mig ekk­ert! Ég fer í jóga­tíma, stilli tauga­kerfið mitt og held mér liðugri. Ég geng mikið og hjóla allt sem ég þarf að fara. Á meðan hlusta ég á bæk­ur. Ný­lega hafði ég mikla ánægju af nýju bók­inni hans Sölva Tryggva­son­ar, Skugg­ar og bók Sig­ríðar Hagalín Björns­dótt­ur; Eld­arn­ir, ást­in og aðrar ham­far­ir. Ólík­ar en báðar frá­bær­ar bæk­ur og ég lærði heil­mikið. Ég slaka á í jóga, í kuld­an­um í haf­inu og hit­an­um í guf­unni.

Ég geri það sem ég pre­dika. Ég borða ekki fyrr en eft­ir há­degi, og tvær máltíðir á dag. Ég sniðgeng syk­ur, sem mér tekst oft­ast, borða kjöt og fisk, smjör og kaldpressaða ólívu­olíu og horm­óna­vænt græn­meti, þar á meðal spergilkál og blóm­kál. Bæti­efni hef ég tekið reglu­lega í 30 ár. Það er mis­jafnt hvað ég tek en grunn­ur­inn er gæða omega-3 fiski­ol­ía, D3 og K2 víta­mín, kolla­gen duft, kreatin duft, gæða B- víta­mín og Probi mage gerl­ar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda