Breska fréttakonan Susanna Reid segir að lífið hafi umbreyst til hins betra eftir að hún hætti að drekka áfengi.
Reid sem er 53 ára hætti að drekka fyrir nokkrum árum og ræddi upplifunina í morgunþætti Lorraine Kelly.
„Margir eru að hætta að drekka í janúar og maður þarf einhverja ástæðu og hvatningu,“ segir Reid.
„Mín ástæða var sú að ég var stögugt að fá bólur og læknirinn minn sagði að það væri vegna þess að áfengi víkkar háræðarnar í húðinni. Ég var því gjörn að fá bólur, útbrot og rósroða. Ég vildi einfaldlega sleppa við allt slíkt.“
Reid er þáttastjórnandi morgunsjónvarpsins Good Morning Britain og þarf því alltaf að vakna mjög snemma á morgnana.
„Maður þarf að hafa skýran haus til þess að geta mætt svona snemma til vinnu. Ég komst að því að bara einn drykkur um helgar gat verið lengi að fara úr kerfinu mínu. Mér líkaði ekki sú tilfinning að vera alltaf pínu á tauginni.“
„Þá hafði áfengisleysið töluverð áhrif á þyngdina mína en ég missti nokkur kíló. En maður auðvitað bætir áfengisleysið upp með öðrum hlutum. En almennt er áfengi ekkert nema hitaeiningar í fljótandi formi. Ég mæli því með að fólk prófi þetta í mánuð og veiti því eftirtekt hvaða áhrif það hefur á húð og heilsu.“
„Ég skála enn fyrir fólki við sérstök tækifæri en almennt er ég 99,9% áfengislaus.“
Reid er einhleyp þriggja barna móðir og segir að áfengisleysið hafi haft áhrif á ástarlífið.
„Ég og einn náungi ætluðum saman á stefnumót og mér fannst það vera góð hugmynd að minnast á það að ég drykki ekki enda flestir sem vilja drekka á stefnumótum. Og eins og hendi væri veifað hvarf hann. Margir halda að maður verði leiðinlegur úti á lífinu edrú. Mér er alveg sama ég er bara þakklát að þurfa ekki að vakna þunn.“