Nokkuð heitar umræður sköpuðust á Facebook-grúppunni „Motivation stelpur“ í gærdag um Loga Geirsson, fyrrverandi landsliðsmann í handknattleik. Meðlimur grúppunnar og viðskiptavinur FjarForms, þjálfunarfyrirtæki Loga, setti inn færslu og forvitnaðist um hvort aðrir meðlimir grúppunnar hefðu reynslu af svarleysi og seinagangi þjálfarans.
Flestallar sem tóku þátt í umræðunni deildu svipaðri reynslu af Loga og sögðu flestar að það væri hálf ómögulegt að ná í hann, en regluleg samskipti þjálfara og viðskiptavinar eru stór hluti af prógramminu sem FjarForm kynnir.
Ein greindi meðal annars frá því að henni hafi borist tölvupóstur með nánast engum upplýsingum, innihélt hvorki matar- né æfingaprógram, en reikningur fyrir persónulegri þjónustu Loga, sem hann auglýsir meðal annars á Facebook, fór beint í innheimtu. Sú hætti strax.
Logi hefur ekkert birt á Facebook-síðu FjarForms frá því 1. janúar en þá tilkynnti hann að skráning væri hafin fyrir 2024 og birti verðskrá.
Í verðskránni er að finna verð á allri þjónustu Loga. Hann býður meðal annars upp á staka ástandsmælingu á 9.900 krónur, stök matar- og eða æfingaprógrömm á 12.000 krónur og sameiginlegt prógramm á 19.900 krónur. 60 mínútna vídeófundur er það dýrasta sem hann býður upp á en hann kostar 24.900 krónur. Val er um 30 mínútna vídeófund á 15.900 krónur.
Vefsíðu þjálfunarfyrirtækisins, fjarform.is, virðist einnig hafa verið lokað.