„Ef þú segðir mér að ég þyrfti að borða kúk á hverjum degi til þess að líta yngri út, þá myndi ég kannski gera það,“ sagði Kim Kardashian í blaðaviðtali.
Ellen Atlanta hefur lengi starfað innan fegurðargeirans meðal annars við samfélagsmiðla tímarita. Nú vill hún venda kvæði sínu í kross og vekja athygli á óheilbrigt umhverfi og óraunhæfar fegurðarkröfur sem lagðar eru á konur á öllum aldri.
„Ein vinkona mín fór í andlitshreinsun og var skömmuð harkalega af snyrtifræðingnum fyrir að vera ekki byrjuð að sprauta sig með fylliefnum og bótoxi,“ segir Atlanta í viðtali við The Times. Hún bendir á að margar af aðgerðunum eru beinlínis hættulegar.
Svokölluð vampíru-andlitsmeðferð sem Kim Kardashian hefur gert vinsæla komst í fréttirnar þegar þrjár konur smituðust í kjölfar slíkra meðferðar af HIV veirunni. Þá eru umdeildar rassastækkanir sagðar mjög vinsælar vegna áhrifa Kardashian. Þær eru taldar með hættulegustu lýtaaðgerðunum en einn af hverjum fjögur þúsund deyr í kjölfar aðgerðar.
„Það skrítna er að við höfum sætt okkur við þetta sem eðlilegan hlut og jafnvel sem valdeflingu kvenna eða sjálfsrækt. Þetta er það að sjálfsögðu ekki og við þurfum að láta í okkur heyra. Það að gagnrýna val annarra kvenna er kallað svik við málstaðinn. En samt, við þurfum að reiðast,“ segir Atlanta.
„Margar rannsóknir hafa sýnt að konur sem leggja mikið upp úr útlitinu þéna að meðaltali meira en aðrar konur. Þetta á hins vegar ekki við um karla. Konur undir kjörþyngd þéna meira en konur í kjörþyngd og konur í yfirþyngd þéna minnst. Sama á ekki við um karla fyrr en þeir eru í mjög mikilli yfirþyngd.“
„Á tíunda áratugnum hefði maður kannski séð mikið unna mynd af Hollywood leikara kannski tvisvar eða þrisvar á dag, annað hvort á auglýsingaskilti eða á forsíðu tímarita. Nú á tímum er vart komið hádegi þegar við erum búin að sjá ótal unninna mynda af fólki. Það hefur verið átt við hverja einustu mynd.“
„Ég hef heyrt átta ára stelpur segjast ekki vilja fara út fyrir hússins dyr eftir skóla því þær vilja ekki að fólk sjái hvernig þær líta út í alvöru. Á netinu eru þær að nota alls kyns filtera til þess að breyta andliti sínu og þær óttast það að raunveruleikinn sé of hræðilegur til þess að leggja á fólk.“
Atlanta bendir á að margar stúlkur hafi alist upp við að líta upp til kvenna á borð við Kylie Jenner sem byrjaði að fá sér fyllingu í varirnar aðeins 17 ára gömul. Atlanta var meðal þeirra og hún viðurkennir að hafa hugsað um það alla daga. Áhrifavaldar gerðu hana óörugga með allt sem viðkom útlitinu. Eftir að hafa fylgst með einum áhrifavaldi fannst henni tilvalin hugmynd að fara í fitufrystingu áður en hún færi í sumarfrí. Útkoman var sú að hún var svo aum og marin eftir meðferðina að hún gat ekki synt í sundlauginni.
Svo fór að Atlanta hitti svo fyrirmynd sína, Kylie Jenner, þegar hún var að vinna fyrir tímarit. „Hún var svo hrædd og hvumpin. Í nærmynd var hún síður en svo ímynd valdeflingar en þetta var konan sem hafði áhrif á mig og vinkonur mínar að fá varafyllingar og stunda öfgakennda líkamsrækt.“ Atlanta segir að Jenner hafi litið allt öðruvísi út í eigin persónu. Það var að vissu leyti mikill léttir að sjá með berum augum alla vinnuna sem lögð er í að breyta myndum af líkömum fólks. Að þetta væri ekki raunveruleikinn.“
„En þetta angraði mig mjög. Ég vorkenndi henni en ég var líka reið. Hún bað aldrei um neitt af þessu því hún var bara níu ára þegar henni var þrýst í sviðsljósið í raunveruleikaþætti Kardashian fjölskyldunnar. En nú er hún í þeirri stöðu þar sem hún getur haft áhrif og breytt einhverju. Hún bara gerir það ekki. Hún er þess í stað að hagnast á óeðlilegum fegurðarkröfum í garð kvenna.“
„Það þarf að ræða þessi mál, hversu undarleg þau eru núna áður en þau verða að normi.“