6 leiðir til að dafna enn frekar

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar skrifar um heilsurækt.
Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar skrifar um heilsurækt. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar skrifar um lífsstíl og heilsurækt. Hvað getur fólk gert til þess að láta okkur líða betur? 

Í gegnum áratugina hafa heilsuáherslur verið ýmiskonar. Dellur og tískufyrirbæri koma og fara líkt og gengur. Nú sem áður eru margar kenningar á lofti um hvað sé farsælast að ástunda til að uppskera heilbrigt líf, sumar umdeildari en aðrar.

Þrátt fyrir að mikil þekking hafi áunnist á síðustu áratugum er enn mikil upplýsingaóreiða og mörgum þykir erfitt að átta sig á því hvað er skynsamlegt að gera til að bæta heilsuna og halda líkamanum sem lengst í heilbrigðu og góðu ástandi. Er kemur að skotheldum ráðum hvað slíkt varðar er a.m.k. eitt sem má reiða sig á að virkar, það er STÖÐUGLEIKI.  

Stöðugleikinn sem felur í sér að leitast við að ná góðu jafnvægi í lífinu og daglegum lífsstíl með litlum einföldum heilsusamlegum venjum, endurtekningum, sem þú fléttar inn í líf þitt daglega og verða að föstum þætti í lífi þínu.  Venjur sem þú átt auðvelt með að tileinka þér og halda þér við a.m.k. alla jafna.  Vitaskuld koma tímabil, veikindi, ferðalög o.fl. sem geta raskað góðri rútínu en þá þurfum við að geta stigið ákveðið sem fyrst aftur inn í góðu venjurnar okkar á ný um leið og færi gefst.  

Sex venjur sem breyta lífinu

1. Þú ert það sem þú borðar

Er það ekki stórkostlegt að enginn ræður því hverju við stingum upp í munninn, ja a.m.k. eftir að við komumst til vits og ára, annar en við sjálf?! Við sjálf erum einráð um hvernig við nærum okkur, líkamann sem við lifum og hrærumst í alla ævi.  Eitt það besta sem við getum gert fyrir okkur sjálf, líðan okkar, lífsgæði og almenna heilsu er að afla okkur upplýsinga um hvernig við nærum okkur sem best svo líkaminn blómstri fram á síðasta dag.  Því miður er gríðarlega mikið framboð af rusli sem vart er hægt að kalla mat, svo við ættum að lesa okkur til og vanda okkur.  Venjum okkur á að borða hreina óunna fæðu a.m.k. 80% af tímanum og svo er raunhæft að 20% sé svigrúm fyrir annað.

2. Gefðu gaum að þarmaflórunni

Heilbrigð þarmaflóra í meltingarvegi er einn lykilþáttur í betri líðan, jafnt líkamlegri og andlegri. Ástand hennar hefur mjög víðtæk áhrif t.d. á meltingu, ónæmiskerfið og jafnvel andlega líðan. Því hefur lengi verið haldið fram að fjölmargir sjúkdómar hefjist í þörmunum.  Það er rík ástæða til að kynna sér nánar leiðir til að stuðla að heilbrigðri meltingarflóru.  Fjölbreytt trefjaríkt mataræði er lykilatriði, losun streitu, hreyfing og nægileg vatnsdrykkja eru mikilvægir þættir sem þarf að huga vel að. Inntaka á góðum meltingargerlum gæti verið gagnleg til að styrkja þarmaflóruna. Að fjölmörgu er að huga, t.d. hafa rannsóknir sýnt að gervisætuefni sem má finna í orkudrykkjum og próteinstykkjum, gjarnan kynnt sem heilsuvara, geta riðlað jafnvægi mikilvægrar þarmaflóru sem getur haft alvarleg áhrif á samskipti þarma, heila og taugakerfis. Vendu þig á að lesa innihaldslýsingar og afla þér þekkingar svo þú getir tekið upplýstar ákvarðanir fyrir þína heilsu. 

3. Hreyfing, hreyfing og meiri hreyfing

Kyrrseta drepur! Það hefur e.t.v. ekki farið hátt, en nýlegar rannsóknir segja að mikil kyrrseta sé jafnvel skaðlegri en reykingar. Það er mannskepnunni eðlislægt að vera á hreyfingu og við ættum að nota hvert tækifæri til að standa upp og hreyfa okkur úr sporunum. Lítil atriði eins og standa upp t.d. á 30 mín fresti upp til að teygja úr þér eða fylla á vatnsglasið eða kaffibollann, hefur jákvæðari áhrif en þig gæti grunað. Ennfremur er styrktarþjálfun 2-3x í viku bráðnauðsynleg.  Þetta styrkir sig víst ekki sjálft! Settu í forgang að lyfta lóðum í hverri viku eða stunda aðrar æfingar með mótstöðu til að viðhalda/auka vöðvastyrk. Vöðvastyrkur er einn af lykilþáttum lífsgæða og langlífis.  Ef við notum þá ekki, missum við þá.  

4. Góður svefn er göldrum líkastur

Það þekkja það allir að dagsformið veltur að miklu leyti á nætursvefninum. Nýjustu rannsóknir segja okkur að svefninn er algjör megin heilsustólpi í lífinu og vanræktur svefn geti haft fjölmörg neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu og jafnvel raskað þarmaflórunni.  Stöðugleiki í svefnrútínu er mikilvægur jafnt sem góðar venjur á kvöldin sem undirbúningur fyrir svefninn s.s. að minnka lýsingu, skjátíma og forðast átök og hasar. T.d. er ekki góð hugmynd að taka kröftuga æfingu rétt fyrir háttatíma eða hanga í skjáskruni uppi í rúmi rétt fyrir svefn. Vendu þig á að setja svefninn þinn í forgang.

5. Finndu það sem hvetur þig áfram, hver er þinn tilgangur?

Finndu eldmóðinn þinn, tilganginn og hvað það er sem hvetur þig til dáða. Hvernig sinnir þú þér, andlega og líkamlega, hvað skiptir þig máli til að líða betur og finna gleðina? Hvern einasta dag vöknum við og tökum óteljandi ákvarðanir sem hafa áhrif á líf okkar, líðan og heilsu. Hvaða ákvarðanir tekur þú og hvers vegna? Veitir starfið þitt eða nám þér ánægju og lífsfyllingu? Umgengst þú fólk sem hefur uppbyggjandi og hvetjandi áhrif á þig og styður þig eða dregur þig niður? Velur þú að taka frá daglegar gæðastundir fyrir þig til að auka gleðina í lífi þínu og draga úr streitu?  Velur þú að næra líkamann af kostgæfni?  Öll tökum við ótal litlar og stórar ákvarðanir dag hvern og oft og iðulega höfum við val, að velja það sem hefur góð og uppbyggjandi áhrif á líf okkar og líðan.

6. Settu þig í fyrsta sæti 

Í flugvél erum við minnt á að setja öndunargrímuna fyrst á okkur sjálf áður en við hjálpum öðrum.  Kjarni máls er sá að ef við setjum okkur sjálf ekki í fyrsta sæti er hætt við að við höfum ekki orku eða heilsu til að vera til staðar fyrir fólkið okkar.  Setjum í forgang það sem skiptir okkur máli, það sem hækkar gleðistuðulinn í lífi okkar og það sem byggir okkur upp fyrir framtíðina. Góð heilsa er undirstaða góðra lífsgæða.  Sagt er að sjúkur maður eigi aðeins eina ósk, að ná heilsu.

Settu þér markmið um að tileinka þér marga litla góða siði. Taktu einn dag í einu og gefðu gaum að því jákvæða sem þú finnur og upplifir á þinni heilsu vegferð.  Það er sjálfsagt og mikilvægt að setja eigin heilsu í forgang, sér í lagi eftir því sem við verðum eldri. Slík forgangsröðun er líkleg til að skila okkur vellíðan, seiglu, hamingju og langlífi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda