„Ég er búinn að missa 72 kíló síðan ég fór í aðgerðina“

Bóas Gunnarsson Trúbador.
Bóas Gunnarsson Trúbador. Samsett mynd

Trúbadorinn Bóas Gunnarsson er 32 ára Húsvíkingur sem hefur spilað á gítar frá barnsaldri en gerði gítarleikinn og söng að atvinnu fyrir tíu árum. Síðan þá hafa hann og söngkonan Lilja Björk Jónsdóttir eignast dótturina Unni Freyju, 7 ára, en parið er duglegt að halda uppi stuðinu á ýmsum viðburðum um allt land. Fyrir um einu og hálfu ári gekkst hann undir magaermaraðgerð og hefur misst 72 kíló síðan þá. 

Hefur alltaf verið fyrir ofan kúrfuna

Bóas segist hafa verið í ofþyngd frá því hann man eftir sér. Eftir stanslausar árangurslitlar tilraunir til að fækka kílóum í mörg ár ákvað hann að gangast undir magaermaraðgerð. 

„Maður hefur alltaf verið fyrir ofan kúrfuna í þyngd frá því ég man eftir mér. Ég var endalaust að reyna en maður gafst alltaf einhvern veginn upp. Maður kannski náði að skafa af sér einhver kíló en svo hafði maður ekki agann í að halda sér við. Þá komu kílóin bara fljótt aftur og jafnvel meira en það sem ég náði að skafa af mér. Svo þekki ég fólk í kringum mig sem hefur farið í þessa aðgerð og hún skilaði þeim árangri. Hugmyndinni var því plantað örugglega um fjórum árum áður en ég lét loksins verða að þessu.“

Bóas Gunnarson heldur ávallt uppi frábærri stemningu.
Bóas Gunnarson heldur ávallt uppi frábærri stemningu. Ljósmynd/Aðsend

72 kílóum léttari

Í dag er um eitt og hálft ár síðan Bóas gekkst undir aðgerðina sem hefur bætt heilsu hans mikið. Hann bætir við að aðgerðin sé engin töfralausn og árangur sé sjaldan bein lína upp á við.

„Aðgerðin tók minnir mig 2-3 tíma, svo lá ég yfir nótt og var sendur heim daginn eftir. Flestir eru að jafna sig í fleiri mánuði en ég er búinn að missa 72 kíló síðan ég fór í aðgerðina. Svo er maður líka að læra að borða algjörlega upp á nýtt. Þú ert að læra að lifa með rosalega takmarkaða getu til þess að borða. Þú þarft mikið að pæla í hvað þú ert að borða og setja fæðutegundirnar rétt saman. Þetta er mikil vinna, ekki bara töfralausn.“

Bóas Gunnarsson og dóttir hans Unnur Freyja í sólarlöndum.
Bóas Gunnarsson og dóttir hans Unnur Freyja í sólarlöndum. Ljósmynd/Aðsend

Mataræði skiptir máli 

Bóas nefnir það líka að aðgerðin geri það meðal annars að verkum að fólk finni minna fyrir svengd, sem getur verið áskorun að venjast.

„Maður verður bara að passa að halda að sér vökva og borða nóg yfir daginn þar sem ég get borðað bara lítið í einu. Þetta er víst tengt einhverri ensímframleiðslu í maganum sem sendir boð um að þú sért svangur og það er eins og þau hafi bara nánast stoppað hjá mér. Markmiðið eftir aðgerðina var að borða 4-6 sinnum á dag. Það tókst ekkert alltaf en maður gerði sitt besta. Svo er fullt af fæðutegundum sem ég get ekki borðað í dag. Það er t.d. ekki séns fyrir mig að borða sterkan mat. Það er reyndar eðlilegt þar sem það er búið að minnka magann mikið og í kjölfarið er eðlilegt að fá brjóstsviða. Ég er bara búinn að vera á magasýrulyfi síðan ég kom úr aðgerðinni en svo lærir maður þetta bara, hvað maður þolir og hvað ekki.“

Lilja Björk Jónsdóttir og Bóas Gunnarsson á fallegu kvöldi.
Lilja Björk Jónsdóttir og Bóas Gunnarsson á fallegu kvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Vill ekki að aðgerðir séu tabú

Bóas segir að hann upplifi aðgerðina ekki sem tabú þar sem hún hefur hjálpað fjölda manns í baráttunni við ofþyngd.

„Mér finnst magaermaraðgerð ekki tabú í dag. Þannig að ef þetta hjálpar þér, hvað er þá að því að fara í þetta? Ég vill samt taka það fram að þyngdartap er ekki jafnt og þétt. Það eru margir sem halda að þetta gangi upp eins og fullkomið graf í stærðfræði en það geta kannski liðið tvær vikur þar sem það gerist ekki neitt og svo kannski viku eftir það ertu búinn að missa sjö kíló. Þetta gerist kannski alveg línulega. Þetta hjálpar en vinnan er á þér. Þetta þýðir ekki að þú sért eitthvað stikkfrí.“

Fjölskyldan saman erlendis.
Fjölskyldan saman erlendis. Ljósmynd/Aðsend

Borgaði 1.250 þúsund krónur

Bóas, sem fór í aðgerðina á einkarekinni læknastofu, segir að viðmót starfsfólks og lækna hafi verið frábært. Fjölskyldan var svo auðvitað til staðar í gegnum allt ferlið.  

„Ég borgaði um 1.250 þúsund krónur fyrir þetta en ég gerði þetta allt sjálfur og fór ekki í gegnum neina heilsugæslu heldur tók einkaleiðina á þetta. Viðmótið var frábært og ég hef ekkert út á þetta að setja. Þau voru bara rosalega elskuleg.“

Hann bætir því við að eftirfylgnin hafi verið til fyrirmyndar.

„Nú veit ég ekki hvernig þetta er erlendis en ég hef verið í góðri eftirfylgni. Ég var í blóðprufum reglulega fyrsta árið til að mæla hvort það vanti nokkuð í mig vítamín og ýmislegt annað. Eftir það getur þú svo valið um að fara í árlegt tékk,“ segir Bóas.

Bóas segir að vinsælustu bókanirnar hjá sér séu afmæli, brúðkaup og útskriftir en hann stefnir á að fara enn lengra í tónlistinni. Fram undan er viðburðaríkt sumar, stútfullt af stuði og tónlist en Bóas og fjölskylda eru spennt fyrir framtíðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál