„Mér fannst ég alveg glötuð“

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna halda úti hlaðvarpinu, Í …
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna halda úti hlaðvarpinu, Í alvöru talað.

Vin­kon­urn­ar Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna eru um­sjón­ar­menn hlaðvarps­ins Í al­vöru talað. Gulla er 44 ára förðun­ar­fræðing­ur, áhuga­leik­ari og tísku­áhuga­kona mik­il og starfar sem versl­un­ar­stjóri í Col­lecti­ons á Hafn­ar­torgi. Lydía er 41 árs sál­fræðing­ur, jóga­kenn­ari og fyrirlesari. 

Í fyrsta þættinum var Gulla kynnt til leiks en hún ólst upp við erfðar aðstæður þar sem geðsjúkdómar og alkahólismi var fyrirferðarmikill. Lydía ólst upp við allt öðruvísi aðstæður en þrátt fyrir gott uppeldi og góðar heimilisaðstæður glímdi hún við áskoranir sem hafa markað hana. 

Í öðrum þætti fá hlustendur að kynnast Lydíu. 

Heimilisaðstæður Lydíu í bernsku voru góðar en samt sem áður einkenndust æskuárin af mikilli ábyrgðartilfinningu, óöryggi og „ég sé um þetta sjálf“ hugsunarhætti. Henni fannst erfitt að vera í skólanum og upplifði ákveðna útskúfun af hálfu skólafélaga. Það hefur mótað líf hennar og sjálfsmynd mikið.

„Mér fannst ég alltaf öðruvísi en hinir og fannst ég ekki passa inn í hópinn. Að ég væri ekki partur af hópnum og ekki samþykkt eins og ég. Það hefur verið rosalega mótandi. Ég var ekki beint lögð í einelti, en ég fékk samt ekki að vera með,“ segir Lydía.

Á þessum árum er mjög mikilvægt fyrir börn að finnast þau tilheyra hópnum og að eiga góða vini. Það skiptir mjög miklu máli fyrir þroska þeirra og sjálfsmynd.

„Eftir að ég varð fullorðin og eignaðist mín eigin börn sé ég hvað það er alvarlegt fyrir barn að upplifa svona útskúfun. Mér fannst ég alveg glötuð.”

Hringdi sjálf í rektorinn og komst inn

Hún ákvað þó fyrir tilviljun að athuga hvort hún gæti komist inn í MR og hringdi í rektor skólans sumarið eftir 10. bekk.

„Ég hringdi á skrifstofuna og rektorinn svaraði. Ég sagði honum frá einkunnum mínum í samræmdu prófunum og hann bauð mig velkomna í skólann í þessu símtali,“ segir Lydía.

Það reyndist mikið heillaskref í hennar líf.

„Þetta var það besta sem gat gerst, eftir á að hyggja því í MR fann ég fólkið mitt. Þar var fólk eins og ég. Þarna kynntist ég dásamlegum vinkonum sem fannst ég frábær eins og ég var. Þarna fann ég mig og gat leyft mér að skína eina og ég er, klár og dugleg að læra. Ég endaði t.d. Í landsliðinu í efnafræði og fór til Hollands fyrir Íslands hönd og keppti á Ólympíuleikum í efnafræði. Það var mjög merkileg lífsreynsla. Mesta nördasamkoma sem ég hef verið í á ævinni.“

Ofurdugleg, en svo kom myglan 

Lydía hefur alla tíð verið mjög dugleg, samviskusöm og viljað standa sig vel. Það hefur leitt til þess að hún hefur alla tíð valið sér að hafa mjög mikið að gera. Gert gríðarlegar kröfur til sín á öllum sviðum lífsins og hvergi viljað slaka á þeim.

„Ég hef alltaf valið mér að hafa mikið að gera. Í MR var ég til dæmis líka í tónlistarskóla og að vinna á kvöldin og um helgar.“

Það kom henni seinna á erfiðan stað þar sem hún brann út vegna langvarandi streitu. Það var þó í annað skipti sem hún missti heilsuna. Í fyrra skiptið var það vegna raka og myglu á heimili hennar.

„Á árunum 2006-2011 eignaðist ég fyrri börnin mín tvö með tveggja ára millibili og bjó þá í húsnæði þar sem reyndist vera raki og mygla,“ segir Lydía. 

Á þessum tíma var ekki mikið talað um að mygla gæti valdið slæmum áhrifum á heilsu eins og þekkt er í dag. Heilsan var mjög slæm og þolið mjög slæmt. Göngutúrar ollu því að hún þurfti að hvíla mig næsta dag og var með reglulegar öndunarfærasýkingar sem ollu því að hún þurfti að taka sýklalyf í hverjum mánuði.

„Ég var ótrúlega veik og enginn skildi af hverju. Læknar sem ég hitti vissu og skildu ekkert hvað var að mér. Meira að segja sagði einn lungnalæknir að þrengingar í öndunarfærum og endurteknar sýkingar væri líklega bara kvíði. Hann sagði í raun bara að ég væri að ímynda mér þetta eða væri bara með svona mikinn kvíða. Ég þurfti ekki bara að berjast við að sannfæra læknana um að það væri myglan sem ylli veikindunum heldur fjölskylduna líka. Ég þurfti í raun að standa í því að sannfæra alla um að ég væri ekki ímyndunarveik,“ segir hún.

Kulnun gerði var við sig

Þetta voru krefjandi ár og mikið áfall fyrir hana sem unga manneskju að missa heilsuna.

„Það erfiðasta var samt að fá ekki skilninginn frá fólki.“

Það tók hana 10 ár að jafna sig til fulls á þessum veikindum. Áfram hélt Lydía áfram að vera dugleg og setti himinháar kröfur á sig á öllum sviðum lífsins. Alltaf var brjálað að gera á öllum vígstöðum, bæði í vinnu og einkalífi. Hún eignaðist þriðja barnið sitt árið 2017 og vann mikið á þessum tíma. Öll þessi streita fór að segja til sín.

„Ég þurfti að standa mig vel á öllum sviðum en var bara búin á því. Eftir á að hyggja var ég búin að vera þreytt síðan í menntaskóla. Þannig að um áramótin 2019 þá bara allt í einu gat ég ekki meira. Allt í einu sagði líkaminn stopp. Hann hafði sent mér merki um að ég þyrfti að stoppa í langan tíma, en ég hlustaði ekki,“ segir Lydía sem hafði fundið fyrir alls konar einkennum eins doða í höndum, fótum og andliti, máttleysi og lömunartilfinningu í höndum og fótum, höfuðverk, vöðvabólgu, eyrnasuð, minnisleysi, heilaþoku, svefnleysi, tilfinningadoða og taugaspennu.

„Ég vissi að ég væri þreytt en mér datt aldrei í hug að ég væri í kulnun eða að ég væri í allt of mikilli streitu og þyrfti að hægja á mér. Þó ég sé sálfræðingur þá hvarflaði þetta ekki að mér,“ segir hún.

Var í veikindaleyfi í 20 mánuði

Um áramótin áttaði hún sig á því hvað væri að gerast, að hún væri komin í kulnun og þyrfti hjálp. Það sem fékk hana til þess að fá aðstoð var að hún áttaði sig á að hún var farin að ýta sínu vinnusiðferði yfir á börnin sín. Hún var farin að gera lítið úr þreytu sonar síns og sagði honum að hann ætti bara að vera duglegur og hætta að væla.

Hún talaði við heimilislækni sem skikkaði hana í veikindaleyfi og hún var frá vinnu alls í 20 mánuði. Skömmin yfir þessu ástandi var allsráðandi ásamt ótta við að fá heilsuna aldrei aftur og geta aldrei farið aftur á vinnumarkaðinn.

„Ég hélt að ég gæti bara hvílt mig og jafnað mig hratt, en ég fattaði ekki að líkaminn myndi stoppa mig. Mér leið eins og ég hefði hrapað fram af bjargi. Það gerðist eitthvað í líkamanum mínum og það var ekki aftur snúið.“

Hún var komin í kulnun.

„Ég ólst upp við það að ég ætti að vera dugleg og standa mig vel. Allt í einu gat ég ekki verið dugleg, ég gat ekki unnið. Mér fannst ég algjör aumingi. Þessu fylgdi rosalega mikil skömm og mikið hjálparleysi. Ég hélt að enginn myndi vilja ráða mig aftur í vinnu. Svo sá ég ekki leiðina út úr þessu. Hvernig á ég að geta náð aftur heilsu og hvernig á ég að geta minnkað álag í lífinu mínu,“ segir Lydía.

Með mikilli  hvíld, sjálfsvinnu og tiltekt í lífinu komst hún aftur til heilsu. Hægt og rólega kom orkan og áreitisþolið til baka. Lydía lýsir því að líf hennar núna sé betra en fyrir kulnun að því leytinu til að hún veit núna betur hver hún er og hvað henni finnst mikilvægt í lífinu. Hún velur núna betur hvað fær að taka pláss í hennar lífi og kann að hlúa að sér og hlusta á líkamann. Hún kann að halda sér í jafnvægi.

Nú starfar Lydía við að aðstoða fólk að minnka streitu í sínu lífi, bæði með sálfræðiviðtölum en einnig námskeiði sínu Gott jafnvægi sem hefur verið mjög vinsælt.

„Ég er í „missioni“. Ég ætla að breyta samfélaginu. Samfélagið okkar leggur of mikla áherslu á dugnað og að standa sig vel. Ég kalla þetta samfélagsmein og því þarf að breyta,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda