Er skrítið að íslenskar konur séu að bugast úr streitu?

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna.
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna.

Vin­kon­urn­ar Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarnadóttir halda úti hlaðvarpinu Í alvöru talað.  Gulla er förðun­ar­fræðing­ur, áhuga­leik­ari og tísku­áhuga­kona mik­il og starfar sem versl­un­ar­stjóri í Col­lecti­ons á Hafn­ar­torgi. Lydía er sál­fræðing­ur, jóga­kenn­ari og fyrirlesari. Í þessum þætti setur Lydía á sig sálfræðihattinn og segir Gullu og hlustendum frá því hvað streita er og hvað fólk getur gert til þess að minnka streitu í lífinu sínu og finna jafnvægið sitt.

Gulla segist finna fyrir streitu þegar hún andar of grunnt og fer að gelta á heimilisfólkið og fer að gera athugasemdir við að klósettpappírinn snúi öfug. Lydía segir að þetta séu klassísk streitueinkenni. 

„Streita er viðbragð líkamans við áreiti. Líkamlegu áreiti, tilfinningalegu og hugrænu. En streita er ekki óvinur okkar. Streita er eðlilegur partur af lífinu og í raun hjálpleg fyrir okkur. Hún hjálpar okkur að takast á við verkefni, hjálpar okkur að hugsa skýrt, hugsa hratt og leysa erfið verkefni. En ef streitan er mikil og í langan tíma þá fer hún að hafa neikvæð áhrif á heilsu okkar og líðan! Þess vegna er verkefni okkar í raun að finna jafnvægið okkar, að passa að streitan sé passleg en ekki of mikil. Þess vegna heitir námskeiðið mitt um streitu, Gott jafnvægi, því þetta snýst allt um þetta. Þegar koma streitutímabil í lífinu okkar þá þurfum við að gera eitthvað til að hlúa að okkur á móti. Til dæmis hvíla okkur eða sinna okkur á annan hátt. Það kalla ég að streitujafna. Við þurfum að finna hvaða verkfæri við getum notað til þess að hlúa að okkur og streitujafna og beita þeim reglulega,“ segir Lydía. 

Hún segir að það sé mikil streita í íslensku samfélagi. 

„Fólk hefur lært að nota einhver verkfæri til þess að passa upp á sig, hlúa að sér og streitujafna. Þannig nær það að halda sér í jafnvægi. Kannski breytist svo eitthvað í lífið fólksins, aðstæður í lífinu breytast, heilsan getur breyst og til dæmis hormónakerfið hjá okkur konunum. Þá gerist það stundum að þessi verkfæri virka ekki jafnvel og áður og fólk dettur úr jafnvæginu sínu. Þá geta aukin streitueinkenni farið að gera vart við sig og fólk mögulega fer í kulnun. Þegar staðan verður þannig upplifir fólk oft mikið varnarleysi og kann ekki leiðir til þess að finna jafnvægið aftur. Þá er mikilvægt að grípa í taumana og leita sér aðstoðar hjá fagaðila,“ segir Lydía. 

Lengi vel var lítið talað um streitu í okkar samfélagi þrátt fyrir að margir glími við of mikla streitu og missi jafnvel starfsgetuna sína vegna of mikillar streitu.

„Það er mikilvægt að við tölum um þennan vanda á mannamáli. Það er svo mikilvægt að við tölum um streitu. Við erum svo mörg að fást við þetta vandamál. Drögum þetta upp úr þessari skammarholu sem þetta hefur verið lengi í. Tölum bara um þetta því við erum svo mörg að fást við streitu. Tölum um streitu því við getum gert svo margt til þess að finna jafnvægið okkar og líða vel,“ segir hún. 

Bæði Lydía og Gulla vona að aukin upræða um steitu og kulnun í samfélaginu verði til þess að fólk átti sig fyrr á því hvað streitan í lífinu sé mikil og leiti sér aðstoðar. 

„Vonandi verður umræðan til þess að fólk stoppi sig af fyrr. Þegar við leyfum þessu að malla svona lengi án þess að stoppa þá verður svo miklu erfiðara að komast til baka, ná jafnvæginu og líða betur. Betra er að fólk stoppi áður en það klessir á vegginn, eða fer í kulnun,“ segir Gulla.

Lydía segir að það sé mikilvægt að við tölum um einkenni streitu svo fólk geti borið kennsl á það ef við erum í of mikilli streitu. Einnig er mikilvægt að fólk sem hefur verið að glíma við of mikla streitu tali um það til þess að minnka skömmina. Þá er líklegra að fólk leiti sér aðstoðar.

Hraðinn í samfélaginu er allt of mikill og áherslan á að vera duglegur er mjög skaðleg. Kröfurnar sem við setjum á okkur eru gríðarlegar og mjög óraunhæfar. Lydía og Gulla tala um hvernig samfélagið og við sjálfar setjum kröfur á konur.

„Við eigum að vera með allt á hreinu, vera með líkama eins og súpermódel, líta út eins og drottningar alla daga, heimilið okkar á að vera spotless, börnin okkar eiga að vera súper vel uppalin, við eigum að vera með allt upp á 10 í vinnunni, við eigum að ferðast langt og reglulega, fara í ræktina, alltaf að vera glaðar og sexý. Við eigum að vera með allt á hreinu og standa okkur fullkomlega á öllum sviðum lífsins. Þetta er algörlega óraunhæft!. Þegar við svo náum ekki að standast allar þessar kröfur, sem eru samt óraunhæfar, þá upplifum við skömm og að við séum ekki nóg eða ekki að standa okkur vel,“ segir Gulla. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál