Streita virkjar óttakerfið

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna.
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna.

Vin­kon­urn­ar Lydía Ósk og Gulla Bjarna eru um­sjón­ar­menn hlaðvarps­ins Í al­vöru talað! Gulla er förðun­ar­fræðing­ur, áhuga­leik­ari og tísku­áhuga­kona mik­il og starfar sem versl­un­ar­stjóri í Col­lecti­ons á Hafn­ar­torgi. Lydía er sál­fræðing­ur, jóga­kenn­ari og fyrirlesari. Í þessum þætti halda þær vinkonur áfram að tala um streitu og skoða hvernig taugakerfið tengist streitu. Í þættinum setur Lydía á sig sálfræðingshattinn og fræðir hlustendur ásamt Gullu um streitu. Gulla segist ekkert vita um taugakerfið en Lydía fæst við taugakerfi fólks í vinnunni alla daga.

Taugakerfið samanstendur af heilanum okkar, mænunni og öllum taugunum sem liggja eins og net út frá heilanum og mænunni út í líkamann. Heilinn og mænan kallast saman miðtaugakerfið, en restin kallast úttaugakerfið. Taugakerfið sér um að stýra starfsemi líkamans ásamt öðrum kerfum, svo sem innkirtlakerfinu. Taugakerfið skiptist svo í sjálfvirka og ósjálfvirka taugakerfið, en það sjálfvirka skiptist í óttakerfið og sefkerfið. Þessi tvö kerfi tengjast streitu mjög mikið.

Streita virkjar óttakerfið

Þegar við erum í streituástandi þá er óttakerfið virkt, en það kallast líka streitukerfi og á ensku „fight or flight“. Líkaminn okkar virkjar óttakerfið ef eitthvað ógnar öryggi okkar eða ef við þurfum að bregðast við miklu álagi. Við erum hönnuð til þess að vera yfirleitt og almennt í sefkerfinu sem kallast líka „rest and digest“. Þá erum við róleg, okkur líður vel, meltingin okkar er í fullri virkni og við eigum auðvelt með samskipti við fólk og getum tekið vel eftir því sem er að gerast í kringum okkur. Ef við erum oft og mikið í streitu þá erum við líka oft í óttakerfinu okkar. Við erum ekki hönnuð til þess að vera oft þar og þess vegna getur það haft slæm áhrif á heilsu okkar á líðan.

Líkaminn er hannaður þannig að ef við lendum í hættu þá virkjast óttakerfið til þess að gera okkur kleift að berjast við ógnina eða flýja undan henni. Líkamsstarfsemin breytist því í samræmi við það. Til dæmis fer hjartað að slá hraðar, öndunin verður hraðari, vöðvaspenna eykst, blóðflæði breytist og svitamyndum eykst. Einkennin sem við finnum ef við erum í óttakerfinu geta verið hraður hjartsláttur, hröð öndun, aukin svitamyndun, kuldi eða doði í útlimum, skjálfti í líkamanum, vöðvaspenna, óraunveruleikatilfinning og ójafnvægi í meltingu. Mikilvægt er að vera meðvituð um þessi einkenni til þess að bera kennsl á þegar við erum í óttakerfinu. Svo þarf að beita aðferðum til þess að róa taugakerfið, þ.e. færa okkur úr óttakerfinu yfir í sefkerfið.

Er eitthvað slæmt að gerast eða erum við að hugsa um það?

Heili okkar mannanna virkar aðeins öðruvísi en heili flestra annarra dýra. Við erum með stóran og þroskaðan rökheila sem kann að sjá fyrir sér hluti, ímynda sér og hugsa rökrétt. Á meðan önnur dýr virkja bara óttakerfið ef það er raunveruleg hætta á ferð getum við virkjað óttakerfið einungis með því að ímynda okkur að eitthvað hættulegt gæti gerst.

„Við höfum þann eiginleika að geta séð fyrir okkur að eitthvað slæmt gæti gerst. Við gætum setið hérna saman að taka upp podcast og hugsað að mögulega gæti einhver hlaupið hingað inn og ráðist á okkur. Þá virkjum við óttakerfið í okkur bara við að hugsa um að eitthvað slæmt geti gerst. Gamli heilinn sem stýrir tilfinningum okkar þekkir ekki muninn á því hvort eitthvað slæmt sé að gerast eða hvort rökheilinn er að hugsa um að eitthvað slæmt geti gerst. Þannig bregst líkaminn okkar við eins og það sé raunverulega einhver að ráðast á okkur, þó við séum bara að hugsa um það. Þess vegna getum við hugsað okkur inn í streituástand og við gerum það mjög mikið. Það er því mjög mikilvægt að við skoðum og vinnum í áhyggjum okkar og því sem er að gerast í hausnum okkar þegar við erum að vinna í að minnka streitu.“

Það er hægt að vinna með áhyggjur

En hvað getum við þá gert til þess að róa taugakerfið okkar og minnka þannig streitu, þ.e. komast úr óttakerfinu og inn í sefkerfið? Í þættinum eru ræddar margar aðferðir til þess. Til dæmis er hægt að vinna með áhyggjurnar. Svo er hægt að nota öndunaraðferðir til þess að róa taugakerfið, hugleiðslu og aðra virka slökum eins og jóga nídra. Að lokum er hægt að virkja vagus taugina, sem er partur af sefkerfinu, með mörgum leiðum sem ræddar eru í þættinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál