Fundu eitraða þungmálma í túrtöppum

Nýleg rannsókn á túrtöppum hefur vakið mikla athygli.
Nýleg rannsókn á túrtöppum hefur vakið mikla athygli. Ljósmynd/Unsplash

Nýleg rannsókn sem gerð var af vísindamönnum við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hefur vakið mikla athygli á síðustu dögum, en niðurstöður hennar leiddu í ljós að eitraðir þungmálmar, þar á meðal blý og arsen, séu í túrtöppum. 

Yfir 100 milljónir kvenna um allan heim nota túrtappa í hverjum mánuði. Þrátt fyrir það hefur innihald þeirra lítið verið rannsakað.

Í byrjun júlí birtust niðurstöður rannsóknarinnar við Berkeley-háskóla í tímaritinu Environment International, en þær leiddu í ljós að túrtappar innihalda yfir 16 mismunandi málma. Þá þótti sérstaklega athyglisvert að jafnvel lífrænir bómullartúrtappar innihéldu hærri styrk af arseni miðað við hefðbundna túrtappa. Hins vegar innihéldu hefðbundnir túrtappar meira magn af blýi en þeir lífrænu. 

Fundu arsen, kadmíum, króm, sink og blý

Í rannsókninni voru 14 vinsæl vörumerki sem selja túrtappa í Bandaríkjunum, Bretlandi og Grikklandi rannsökuð. Í þeim fundust meðal annars arsen, kadmíum, sink og blý.

Jennifer A. Shearston, einn af rannsakendunum, segist hafa mestar áhyggjur af blýi þar sem það fannst í öllum túrtöppunum sem voru rannsakaðir. Hún lagði sérstaka áherslu á að ekki sé til nein örugg útsetning fyrir blýi. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að blý geti valdið æxlunarvandamálum hjá konum. 

Hins vegar er ekki enn vitað hvort þungmálmarnir geti skolast úr túrtöppunum inn í líkamann og því eru hugsanleg heilsufarsleg áhrif óþekkt. Yfirhöfundur rannsóknarinnar, Kathrine Schilling, segir næstu skrefin vera að gera rannsóknir sem skoða hvort málmarnir leki úr túrtöppunum og inn í líkamann. 

„Ég vil ekki að fólk verði hrætt heldur sé meðvitað um að þungmálmar hafi fundist í þessum tíðarvörum,“ sagði Schilling í samtali við CNN

Blýstyrkurinn 10 sinnum hærri en leyfilegt magn í drykkjarvatni

Rannsakendur fundu að meðaltali 100 nanógrömm á hvert gramm af blýi og tvö nanógrömm á hvert gramm af arseni í túrtöppunum. Schilling segir hins vegar að ekki hafi fundist greinanlegt magn af krómi eða kvikasilfri í töppunum, sem sé jákvætt. 

„Meðal blýstyrkur í túrtöppunum var um það bil 10 sinnum hærri en hámarksmagn sem nú er leyfilegt í drykkjarvatni,“ sagði Schilling og bætti við að magn arsens sem fannst í túrtöppunum hafi verið fimm sinnum lægra en hámarksmagn sem leyfilegt er í drykkjarvatni. 

„Það er mikilvægt að hafa í huga að arsen ætti alls ekki að vera til staðar í túrtöppum og við vitum ekki enn hvaða áhrif útsetning þess í leggöngunum er þar sem það hefur ekki verið rannsakað,“ bætti Schilling við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda