Hætti að hugsa um útlitið þegar hún fór í kulnun

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna.
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna.

Vin­kon­urn­ar Lydía Ósk og Gulla Bjarna eru um­sjón­ar­menn hlaðvarps­ins Í al­vöru talað! Gulla er förðun­ar­fræðing­ur, áhuga­leik­ari og tísku­áhuga­kona mik­il og starfar sem versl­un­ar­stjóri í Col­lecti­ons á Hafn­ar­torgi. Lydía er sál­fræðing­ur, jóga­kenn­ari og fyrirlesari. Í þessum þætti skoða þær stöllur hvort það skipti einhverju máli fyrir fólk að hugsa um útlitið sitt. 

Gulla og Lydía hafa í gegnum lífið nálgast þetta mál á ólíkan hátt. Lydía hefur fengið þau skilaboð í gegnum ævina að það sé grunnhyggið að hugsa mikið um útlitið eða merki um að manni finnist maður betri en aðrir. „Ef það að hugsa um útlitið þýðir að manni finnist maður betri en aðrir þá auðvitað sleppur maður því. Ég vil ekki að fólk haldi að ég sé þannig manneskja, að mér finnist ég betri en aðrir, ég vil frekar vera bara góð manneskja,“ segir Lydía. 

Nálgun Gullu á málið er öll önnur. „Fyrir mér er þetta hrikalega mikilvægur punktur í sjálfsást og því að hlúa að sjálfri mér. Að sýna sjálfri mér þá virðingu að líta vel út því þá líður mér miklu betur. Þegar ég er búin að smyrja á mig öllum kremunum og serumunum á morgnana þá er ég tilbúin í daginn,“ segir Gulla. 

En svo er þetta líka spurning um trúverðugleika.

„Fyrir mig í mínu starfi sem sálfræðingur þá skiptir það máli fyrir mig að líta vel út, eða hafa sett smá vinnu í útliðið mitt. Annars er trúverðugleikinn minni.“ Þannig virkar heimurinn, kannski því miður. Gulla bætir við að með því að hafa sig til og hlúa að útlitinu sýni maður fólkinu sem maður er að fara að hitta virðingu.

Hjarðhegðun Íslendinga

Svo er það líka þannig að fólk sem klæðir sig öðruvísi en aðrir, fólk sem sker sig úr, fær skrítin viðbrögð. Það stuðar oft aðra að fara út fyrir kassann. Þá upplifa aðrir mögulega að viðkomandi þykist betri en aðrir. Gulla hefur upplifað skrítin viðbrögð fólks þegar hún sker sig úr í klæðaburði.

„Ég á svona háglans pleðurbuxur sem ég para smekklega við grófar peysur til dæmis. Þegar ég hef verið í þeim hefur fólk sagt við mig hluti eins og: „Eru þetta ekki óþægilegar buxur?“ Ertu ekki að svitna í þessu? Færðu ekki sveppasýkingu þegar þú ert í þessu?“ Partur af þessu er mögulega hjarðhegðun Íslendinga. Tilhneigingin til þess að vera eins og hinir. Að eiga eins hús, eins bíla, eins innanhúshönnun og vera í eins fötum. „Svo þegar einhver fer úr fyrir rammann í fatavali þá reynir fólk að draga viðkomandi aftur inn í rammann.“

Langar að byrja að hugsa um útlitið aftur

Lydía talar um að þegar hún var í kulnun og ekki að vinna hætti hún að hugsa um útlitið sitt.

„Eftir að ég fór aftur að vinna þá sat ég svolítið eftir í þessu. Ég hélt áfram að hunsa þennan part af lífinu. Nú langar mig breyta. Ég finn að ég þarf á því að halda að hugsa betur um útlitið mitt og sýna mér þá ást og umhyggju.“

Gulla gefur Lydía ráðleggingar um hvernig er best að byrja á því að hugsa um húðina og hvetur fólk sem er í sama báti og vinkona sín að gera slíkt hið sama. „Farðu bara út í búð og keyptu þér augnkrem, eitt serum, krem og hreinsi. Svo þegar þú byrjar að dekra við húðina fer hún allt í einu að glóa. Þetta gerir svo mikið fyrir sálartetrið og þig fer að langa að gera meira. Svo er í öllum búðum fólk sem hjálpar þér að velja réttu vörurnar fyrir þig. Fáðu bara hjálp. Eftir að þú byrjar að nota þessar vörur finnur þú hægt og rólega hvað virkar fyrir þig,“ segir Gulla. 

Vinkonurnar hvetja fólk til þess að skoða hvernig það hugsar um útlitið sitt og viðhorfin sín til þess. Ef fólk vill huga betur að útlitinu er gott að byrja á einhverju einu, eins og húðinni eða hárinu. Svo er bara að vera hugrakkur og fara í snyrtivörubúð og biðja um aðstoð.

Hlaðvarpsþátturinn endar svo á þessari setningu sem er tilvísun í sögu sem Gulla sagði og tengist vandræðum við að vera í samfestingi. Til þess að að vita meira þarftu að hlusta á þáttinn: „Ég er með píku! Takk og bless!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál