Tíminn eftir Byrgismálið var hræðilegur

Mummi Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, hefur …
Mummi Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, hefur átt stórmerkilega og viðburðarríka ævi. Skjáskot/Youtube

Mummi Týr Þórarinsson, fyrrverandi forstjóri Götusmiðjunnar, segir að tíminn eftir Byrgismálið hafi verið hræðilegur af því að fólk hafi ruglað sér saman við Guðmund í Byrginu.

Mummi, sem er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar, segir málið hafa elt sig í mörg ár, sem hafi verið sérstaklega sárt af því að hann hafi átt stóran þátt í að koma málinu af stað. 

„Ég hef aldrei sagt þetta opinberlega áður, en ég var að frétta af krökkum inni í Byrginu og að það væru mjög óeðlilegir hlutir í gangi þar. Ég hef samband við barnaverndarnefnd og segi þeim að það séu unglingar í Byrginu sem eigi ekki að vera þar. Svo hnippi ég í Jóhannes Kr. Kristjánsson sem var með Kompás á þessum tíma. Þannig hefst í raun Byrgismálið. Ég hringdi í Jóhannes og hann fór í kjölfarið af stað í að rannsaka þetta. Ég sagði honum að það yrði að kíkja á þetta af því að þar væru ungar stelpur komnar í ástarsamband við starfsmenn. Ég var búinn að tilkynna þetta niður í Barnaverndarstofu en þeir sögðust aldrei hafa fengið tölvupóstana frá mér. Ég var meira að segja farinn að fá símtöl þar sem var drullað yfir mig, af því að það var verið að rugla mér saman við Guðmund í Byrginu. Það átti að fara að handrukka mig og þá vissi ég að ég yrði að gera eitthvað í þessu.”

„Við heitum báðir Guðmundur“

Mummi þekkir það vel að vera á milli tannanna á fólki og að fólk hafi á honum skoðanir eftir áraraðir í opinberri umræðu. En hann segir að þegar Byrgismálið hafi komið upp hafi farið í hönd mjög erfiður tími, þar sem ruglingurinn hafi verið mikill í langan tíma:

„Kvöldið sem þessi Kompásþáttur var sýndur var ég uppi á sviði með Ragga Bjarna og fleirum á tónleikum þar sem átti að styrkja Götusmiðjuna um eina milljón króna. Tónleikarnir gengu vel og það var mikið klappað, en þegar ég labbaði niður af sviðinu segir konan sem hélt utan um þetta við mig: „Þú komst ekkert sérstaklega vel út úr þessum Kompásþætti, en ég vil að þú vitir að þú færð að halda milljóninni“. Ég man bara að það fyrsta sem ég hugsaði var: „Fokk!”. Kompásþátturinn var sýndur á sunnudagskvöldi og var í sjónvarpinu á sama tíma og ég er þarna uppi á sviði. Ég hugsaði strax hvort allir þessir þúsund manns sem voru þarna inni væru að hugsa hvort að ég væri þessi maður sem verið væri að fjalla um. Símarnir voru þarna komnir nokkuð sterkt inn og upplýsingaflæðið orðið hratt. Við heitum báðir Guðmundur og vorum báðir með sítt grátt hár á þessum tíma að reka meðferðarúrræði. Ég þurfti eftir þetta að fara á fullt í að reyna að koma fólki í skilning um að þetta væri ekki ég sem verið var að fjalla um," segir Mummi, sem segir að tíminn eftir þetta hafi í raun verið bölvanlegur:

„Það var hringt í starfsfólkið mitt eftir þáttinn og spurt hvort ég hafi leitað á það og fleira í þeim dúr. Þetta hefur í raun fylgt mér í mörg ár. Ég hef lent í því margoft að fólk öskri á mig úti á götu og fleiri opinberum stöðum. Að ég sé kallaður perri og öllum illum nöfnum. Þetta gekk svo langt að ég þurfti að senda frá mér fréttatilkynningu þar sem ég sagði að ég væri ekki Guðmundur í Byrginu. Þetta var skelfilegur tími og það er ekki langt síðan ég lendi síðast í því að þurfa að leiðrétta þetta.”

„Hið opinbera vildi ekki vita af þessum vanda og afneitaði honum“

Mummi er þekktastur fyrir ötult starf með unglingum í fíknivanda og rak mörg ár meðferðarheimilið Götusmiðjuna sem gott orð fór af. Hann segist strax hafa fundið sig í þessum bransa:

„Við áttuðum okkur á því að margir af þessum krökkum áttu engan samastað, þannig að mér fannst ekkert annað í boði en að gera allt sem ég gæti til að skjóta skjólshúsi yfir þau. Eftir að hafa horft á þessa krakka fara inn og út úr meðferðum og sum hver deyja rann mér blóðið til skyldunnar. Hið opinbera vildi ekki vita af þessum vanda og afneitaði honum. Ég tók þess vegna bara af skarið og opnaði Götusmiðjuna, meðferðarúrræði með óskilgreindan tíma fyrir þá sem nýttu sér úrræðið. Eina skilyrðið var að börnin væru undir 18 ára og hafði Barnaverndarstofa svokallaða yfirumsjón með milligöngu þeirra ungmenna sem nýttu sér úrræðið. Á þeim 14 árum sem Götusmiðjan var starfrækt fóru um 2.000 ungmenni í gegnum úrræðið og árangurinn var mjög góður þó að ég segi sjálfur frá. Tveimur árum eftir meðferð voru 50% ungmennanna í góðum málum, sjálfbær félagslega og fjárhagslega, með vinnu og þak yfir höfuðið.“

„Ég valdi götuna frekar en heimilið“

Mummi var að eigin sögn villingur sem gekk mjög illa í ferköntuðu skólaumhverfinu. Hann segist hafa átt mjög erfiða æsku sem ekkert barn eigi að þurfa að upplifa:

„Ég valdi götuna frekar en heimilið, af því að aðstæður á heimilinu voru svo slæmar. Ég bjó við aðstæður þar sem var mikil drykkja og heimilisofbeldi og þess vegna var lítið annað að gera en að vera úti. Þannig að ég er í mínum huga klassískt götubarn. Minn heimur var úti á götu og ég fór helst bara heim til að borða og sofa. Á götunni var ég samþykktur og þar fannst mér ég eiga mína fjölskyldu. Ég var gæinn sem skipulagði fyrsta innbrotið mitt 10 ára gamall og gerði það með bravör. Þegar ég fer inn í unglingsárin er þetta í raun dæmt til að mistakast. Ég var lesblindur og skrifblindur, kom frá slæmu heimili og var kominn í glæpi og óreglu. Ég er 14 ára gamall kominn á síðutogara með gaurum eins og „Élja Grími“ og „Dadda-buff” sem voru blindfullir þegar við fórum um borð. Þeir litu út eins og útigangsmenn þegar þeir komu um borð og þetta voru ekki beint aðstæður fyrir barn. Þarna er ég kominn í heim fullorðinna sem seinþroska krakki. Á einum stað var ég skíthræddur við þessar aðstæður og þessa menn, en ég varð að reyna að halda uppi grímu og bera mig vel. Ég var alltaf klár í kjaftinum og gat tekið samræður við hvern sem var,” segir Mummi, sem fór fljótlega að misnota áfengi og endaði með því að fara í meðferð:

„Ég byrjaði að drekka 13 ára gamall og ég man að fyrsta skiptið sem ég varð fullur opnuðust himnarnir. Ég gat allt í einu verið með sjálfum mér og skömmin og biturleikinn hurfu. Morguninn eftir hugsaði ég strax að þetta ætlaði ég að gera aftur. En auðvitað endaði þetta ekki vel. Ég var bara krakki að deyfa sársauka. Ég endaði á því að fara í meðferð, en fékk ekki að vera þar lengi. Mér var sparkað úr meðferð af Vogi eftir sjö daga fyrir að vera ekki nógu góður alki eins og það var orðað við mig.”

Mummi er kominn í betra jafnvægi en nokkru sinni og er þakklátur og sáttur þegar hann horfir yfir farinn veg:

„Það sem gleður mig mest er þegar ég hitti krakka sem voru hjá mér í Götusmiðjunni og lifa núna fallegu og innihaldsríku lífi. Ég fæ hlýtt í hjartað þegar ég hugsa um það og það segir mér að ég hafi gert eitthvað rétt í gegnum tíðina. Þetta eru í heildina þrjú þúsund ungmenni sem komu í gegnum úrræðin hjá mér. Eðli málsins samkvæmt dóu sumir og aðrir fóru í fangelsi, en fjöldi þessarra krakka náðu að eignast farsælt og gott líf.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda