Beta Reynis: Með galopið hjarta

Beta Reynis mælir með því að skoða líf sitt eins …
Beta Reynis mælir með því að skoða líf sitt eins og um skáldsögu væri að ræða. Hverju myndum við breyta ef við vissum hver endalokin væru? Samsett mynd

Elísabet Reynisdóttir, Beta Reynis, næringarfræðingur skrifar um lífið og veltir fyrir sér hvort fólk myndi lifa lífi sínu öðruvísi ef það gæti skrifað líf sitt eins og skáldsögu. Til dæmis skáldsögu eftir Isabel Allende. 

Fyrir sléttu ári síðan skrifaði ég hér á Smartlandinu um upplifun mína af bókinni Skuggi Vindsins eftir spænska rithöfundinn Carlos Ruiz Zafón. Sagan hafði gripið mig heljartökum, ekki síst þar sem ég las hana meira og minna meðan ég var stödd úti í Barcelona, á sjálfu sögusviði bókarinnar. Það, að geta gengið um götur og torg sem komu fyrir í bók sem ég var þá einmitt að lesa, magnaði upplifunina af lestrinum enn frekar. Ég hreifst fullkomlega af aðalpersónunni, honum Daníel bóksala, og fann fyrir ástinni og hitanum sem bókstaflega flæddi í stríðum straumum af blaðsíðunum. Að lesa góða bók og upplifa söguna svo sterkt er alveg hreint mögnuð upplifun! 

Það má segja að þessi bókagagnrýni mín hafi slegið í gegn. Staðreyndin svo ég sé alveg hreinskilin, er nefnilega sú, að ég næ yfirleitt aðeins að lesa eina góða bók á ári. En samt sem áður, hér skeiða ég aftur fram á ritvöllinn, um sléttu ári síðar, til að segja ykkur frá bók sem ég las nú nýlega og hafði álíka mikil áhrif á mig og Skuggi vindsins á sínum tíma.

Rétt eins og þá var hér komin bók sem hreif mig fullkomlega með sér í ferðalag tilfinninga og ástríðu. Þér að segja er bókin algjört aukaatriði í þessari grein, það ert þú sem skiptir öllu máli. Von mín er nefnilega sú, að þessi pistill minn kveiki hjá þér löngun til að laga það sem þú vilt og þarft að laga í eigin lífi, að lesturinn verði þér hvatning til að taka ábyrgð á heilsu þinni, þú náir í framhaldinu að hlúa betur að sjálfri/um þér og laða fram það besta sem lífið getur mögulega fært þér.

Til þess að svo megi verða þarftu að skottist með mér inn í heim ímyndunaraflsins. Blanda því saman við smá dass af raunveruleika en það kombó er ávísun að breyttri og betri framtíð, með meiri ábyrgð og bættri heilsu. Skotheld uppskrift að góðu lífi!

Þessi bók sem mig langar að segja þér frá er eftir uppáhaldsrithöfundinn minn, hana Isabel Allende og heitir Yfir höfin.

Beta mælir með bókinni Yfir höfin.
Beta mælir með bókinni Yfir höfin. Ljósmynd/Eyþór Arnar Ingvarsson

Rétt eins og Skuggi vindsins gerist skáldsagan Yfir höfin að hluta til í Barcelona, en þó að stærstum hluta í Chile. Sagan fylgir aðalsöguhetjunni heila mannsævi. Og það fékk mig einmitt til að hugsa: Hvað ef við ímyndum okkur að við séum sögupersónur í bók, og fengjum að fylgjast með, sem lesandi, lífi okkar frá fæðingu allt að dánardægri? Sjá fyrir okkur upphafið og endinn og allt þar á milli. Væri það ekki ágætis áminning um hvernig lífi við viljum lifa? Eru mögulega einhverjir þættir og venjur í lífi okkar sem nú er kominn tími til að taka föstum tökum og breyta, áður en það verður of seint?

Bókin bar nafn með rentu því hún bar huga minn svo sannarlega yfir höfin. Hófst í Barcelona, þaðan sem ég flakkaði með sögupersónunum yfir Atlandshafið, alla leið til Chile.

Ég fann fyrir útþrá og lífsþorsta, ástríðu og hita og löngun til að upplifa aðra menningu og sögu. Ég varð reið og sorgmædd yfir óréttlætinu sem sumir verða fyrir á lífsleiðinni, og hvernig pólitík hefur í gegnum aldirnar verið tortímingarafl mannskepnunnar.

Sagan byrjar þar sem Victor, aðalsögupersónan, er kornungur maður og endar þegar hann er kominn um áttrætt. Victor upplifir fasismann í Barcelona og umskiptin í Chile uppúr 1970, þegar Salvador Allende var steypt af stóli og Augusto Pinochet falið einræðisvald. Victor verður ástfanginn, eða réttara sagt hugsjúkur, eins og oft vill verða þegar við erum ung og með hormónakerfið á fullu gasi.

Í gegnum ævina þrælar Victor sér út sem læknir. Stundum er hann bara ósköp venjulegur maður sem framkvæmir að því er virðist hugsunarlaust það sem lífið ætlast til af honum, frekar en það sem hugur hans í raun og veru stendur til. Lífið líður áfram og Victor með.

Mér fannst athyglisvert að fylgja persónum bókarinnar eftir yfir heila mannsævi og sjá fyrir mér lífsstíl þeirra. Ég kynntist sögupersónum sem virtust hugsa vel um sig og gæta hófs í mat og drykk, og öðrum sem klárlega voru að deyfa óhamingju sína með ofáti eða annarri óæskilegri hegðun. Þær sögupersónur sem voru veikar fyrir og deyfðu sig með mat, áfengi eða annarri fíkn, stóðu óneitanlega valtari fæti en þær sem náðu að fara betur með sig. Góð áminning um það hversu erfitt það getur verið fyrir okkur breyskar manneskjurnar að viðhalda góðum lífsstíl út lífið.

Sum okkar ferðast í gegnum þetta líf sem áhorfandi að lífinu, frekar en virkir þátttakendur. Við meðtökum það sem gerist, án viðspyrnu, en höfum oft ekkert vald eða þrótt til að gera róttækar breytingar. Oft skortir okkur nægjanlega ábyrgð og þor til að taka af skarið og standa sem best með okkur sjálfum.

Væri það ekki aldeilis frábært ef við gætum tímaflakkað fram í tímann og tekið púlsinn á okkur þegar komið er að leiðarlokum lífsins? Ég gæti svo vel trúað því að það myndi ná að hrista hressilega upp í mörgum og fá þá til að breyta lífsstíl sínum í snarhasti! Framtíðin gæti mögulega orðið örlítið bjartari ef fengist tækifæri til að sjá og meta stöðuna á lokasprettinum í upprunalegri útgáfu lífsbókarinnar, og þannig fá færi á að breyta um kúrs á miðri leið svo sagan fái annan endi.

Oft ráðum við ekki alveg atburðarrásinni í eigin lífi en hvað ef við hefðum vald og tækifæri til að stjórna henni? Við erum og verðum aldrei alltaf sólarmegin í lífinu, þannig er það bara. Lífið býður ávallt upp á áskoranir, alls konar hindranir sem þarf að tækla. Mín skoðun er sú að til að takast gæfusamlega á við það óvænta í lífinu, t.d. heilsuáskoranir og áföll, skipti miklu máli að vera ávallt sem best undirbúinn. Gera alltaf ráð fyrir því besta sem lífið færir okkur, en einnig vera undirbúinn undir það versta. Og það gerum við einmitt með því að hugsa vel um okkur og endurskoða lífsstílinn reglulega.

Með galopið hjarta

„..hann stakk þremur fingrum hægri handar ofan í galopið sárið, lagði þá utan um hjartað og kreisti nokkrum sinnum taktfast, afar rólega og eðlilega, hann viss ekki hve lengi, kannski í þrjátíu sekúndur, kannski í heila eilífð. Skyndilega fann hann hjartað lifna við á milli fingra sér, fyrst skalf það nánast ógreinanlega en fljótlega fór það að slá reglulega og af krafti.“ (bls 11).

Sjálf er og hef ég aldrei verið með stríðsáverka eins og lýst er í bókinni, en stundum er hjartað mitt sannarlega sárt og stundum er hjartað mitt galopið. Oft finnst mér að það þurfi að kreista það til að fá það til að slá í takt þegar mér finnst lífið vera að keyra mig í kaf. En sem betur fer hefur ávallt verið auðvelt að koma því aftur í gang þegar þess hefur þurft. Og það á við um margt í lífinu s.s. þegar lífsstílinn er ekki eins góður og hann ætti að vera, og við gleymt að sinna sál og líkama.

Þegar við lesum góða bók þá getum við engu breytt; sagan er sögð, skrifuð og gefin út. En hvað ef við hefðum afl að breyta okkar eigin lífssögu? Hvað ef við hefðum þann mátt að getað snert hjartað eins og lýsingin í bókinni þar sem Viktor horfir á hjartað stöðvast og hann æðir með berum höndum í brjóstholið og tekur utan um það og hnoðar það aftur í gang. Til þess þurfti hann þor og áræðni. Þegar þar er komið í bókinni er hann læknanemi og alls óþjálfaður til að framkvæma slíkan gjörning. Hann einfaldlega fylgir eðlishvötinni og þeirri hugsun að hann hafi engu að tapa. Við höfum engu að tapa heldur, þurfum bara að þora og framkvæma það sem við viljum fá út úr lífinu. Skoðum endilega hvað það nákvæmlega er sem er að stoppa okkur. Horfumst óhrædd í augu við eigin hindranir og leitum leiða til að komast yfir þær.

Þegar ég lokaði bókinni að lestri loknum, hugsaði ég um sögupersónurnar sem borðuðu og drukku áfengi í óhófi til að deyfa tilfinningar sína og líðan, og hversu sorglegt það væri að þær hefðu aldrei náð þeim hæðum sem þær höfðu alla burði til að ná.

Við ráðum vissulega oft ekki alveg atburðarrásinni í lífi okkar, en allar áskoranir verða svo miklu léttari ef við mætum þeim vel nærð og þjálfuð. Ég hvet alla til að búa sig sem best undir lífssögu sína með því að vera líkamlega sterk, hreyfa sig reglulega, rækta andann og vera vel nærð. Það er enginn að tala um að vera í kjörþyngd eða eins og fyrirsætur og áhrifavaldar á Instagram. En það er svo sannarlega alltaf mikilvægt að líða sem best í eigin líkama og hafa orku til að takast á við amstur dagsins.

Með þessari bókagagnrýni minni er ég, lesandi góður, semsagt að reyna að fá þig til að hrista upp í þínu eigin lífi og lífssögu. Fá þig til að velta fyrir þér hvað það er sem þú vilt fá út úr lífinu og þarft að gera svo það megi takast. Leggjum af stað núna, ég er hér fyrir þig! Kannski ekki sem farastjóri, því ég er þekkt fyrir að vera með eindæmum áttavilt og rata aldrei nokkurn skapaðan hlut. En skilaboð mín til þín eru: lifðu og njóttu. Þú mátt svo sannarlega gera mistök, villast, tapa, vinna, syrgja, fagna. En mikilvægast af öllu er að þú náir að skrifa þína eigin ævisögu þannig að hún endi á þann hátt sem þú vilt sjá hana enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál