Vaknaði með verk fyrir brjóstinu

Pétur Steinar á sér einstaklega gott bakland.
Pétur Steinar á sér einstaklega gott bakland. Samsett mynd

„Um síðastliðin áramót greindist Pétur Steinar með eitilfrumukrabbamein á stigi 2a. Þegar hann greindist kom það mjög flatt upp á okkur öll, enda alltaf verið heilsuhraustur. Það var ekkert sem gaf það í skyn að hann væri með krabbamein,“ segir Guðlaug Íris Jóhannsdóttir, systir Péturs Steinars.

Guðlaug er einn af hlaupurum í hlaupahópnum „Hlaupum af krafti“ sem samanstendur af fjölskyldu og vinum Péturs Steinars ásamt honum sjálfum, en hópurinn hleypur fyrir stuðningsfélagið Kraft.

„Á Þorláksmessu fengum við símtal“

„Rétt fyrir jólin í fyrra vaknaði Pétur með verk fyrir brjóstinu og leitaði í framhaldi til læknis. Til þess að gera langa sögu stutt þá fór hann í myndatöku sem sýndi mikla fyrirferð í brjósti. Daginn eftir var hann sendur á blóð- og krabbameinsdeild Landspítalans og hófst þá greiningarferlið. 

Á Þorláksmessu fengum við símtal þess efnis að allar líkur væru að um krabbamein væri að ræða en endanleg greining kom um miðjan janúar og þá byrjaði hann í lyfjameðferð. Pétur svaraði lyfjameðferðinni ekki nægilega vel, en þá þurfti að skipta um gír og fara í harðari meðferð,“ útskýrir Guðlaug. 

Pétur Steinar greindist með Hodgkins Lymphoma í árslok í fyrra.
Pétur Steinar greindist með Hodgkins Lymphoma í árslok í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru mjög súrrealískar aðstæður“

„Í fyrsta viðtalinu á krabbameinsdeildinni var okkur bent á Kraft sem er stuðningsfélag sem styður við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Það sem hjálpaði okkur strax frá byrjun þegar greiningin hans Péturs Steinars var komin, var það að geta leitað í samfélagsmiðla Krafts og fundið þar einstaklinga, pör og fjölskyldur sem höfðu gengið í gegnum eitthvað svipað og við sjálf.

Þetta eru mjög súrrealískar aðstæður að lenda í og upp komu milljón spurningar sem maður átti erfitt með að fá svör við, því að enginn í kringum okkur hafði gengið í gegnum svipaða hluti,“ segir Guðlaug.

Pétur Steinar fékk þau gleðitíðindi í júlí að hann væri …
Pétur Steinar fékk þau gleðitíðindi í júlí að hann væri krabbameinslaus. Ljósmynd/Aðsend

„Á Instagram-reikningi Krafts er hægt að finna fjöldann allan af sögum frá fólki sem hefur greinst með krabbamein sem og aðstandendum þeirra, það hjálpaði mjög mikið. Eins og einhver sagði þá er Kraftur félag sem enginn vill vera í, en þegar maður lendir í þessari lífsreynslu að greinast með krabbamein þá er rosalega mikilvægt að það sé til stuðningsfélag eins og Kraftur.

Pétur og kærasta hans, Stefanía, leituðu á skrifstofu Krafts á meðan meðferðinni stóð og þeim var þar tekið opnum örmum og öll starfsemin kynnt fyrir þeim. Kraftur kom því fyrst upp í hugann þegar við fjölskyldan ákváðum hvaða samtök skyldi styrkja í hlaupinu.“

Barðist eins og hetja

„Í gegnum allt þetta ferli hefur Pétur Steinar barist eins og hetja og á erfiðustu stundunum leitt okkur hin áfram. Við vorum alltaf sannfærð um að hann myndi massa þetta erfiða og óvelkomna verkefni með sinni einstöku jákvæðni og glaðværð. Í júlí bárust okkur þau gleðitíðindi að Pétur Steinar væri krabbameinslaus og er ekki hægt að koma því í orð hversu mikill léttir það var.

Pétur Steinar barðist eins og hetja.
Pétur Steinar barðist eins og hetja. Ljósmynd/Aðsend

Pétur Steinar er mjög ósérhlífinn og fannst eitt það erfiðasta við þetta stóra verkefni, áhyggjurnar og óvissan sem lagðist á fjölskylduna og hafði gjarnan orð á því. Í gegnum þetta ferli höfum við fundið hversu dýrmætt það er að vera samheldin fjölskylda og einnig er styrkurinn sem við höfum fundið fyrir í bæjarfélaginu okkar ómetanlegur.

Okkar leið til þess að gefa til baka er því að hlaupa 10 km fyrir Kraft í Reykjavíkurmaraþoninu. Söfnunin hefur gengið vel og erum við afar þakklát fyrir alla sem hafa séð sér fært um að heita á okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda