Hleypur í minningu föður síns

Sigurður Árni ásamt föður sínum Gísla Ölver Sigurðssyni.
Sigurður Árni ásamt föður sínum Gísla Ölver Sigurðssyni. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Árni Gíslason ætlar að hlaupa í minningu föður síns, Gísla Ölvers Sigurðssonar, sem lést fyrr í sumar eftir tveggja ára baráttu við húðkrabbamein, og styrkja í leiðinni gott og þarft málefni. Sigurður er einn þeirra fjölmörgu hlaupara sem hlaupa fyrir stuðningsfélagið Kraft í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka næstkomandi laugardag.

„Margir þekktu pabba og litu upp til hans, þá sérstaklega ég og systur mínar. Í gegnum veikindin var pabbi ávallt jákvæðasti maðurinn í herberginu, enda svo viss um að hann myndi sigrast á sjúkdómnum og koma heim. Hann var góður maður, alla sína tíð, og átti aldrei í vandræðum við einn eða neinn. Hann var einstakur maður og besti faðir sem hægt er að hugsa sér,” segir Sigurður Árni.

Var ákveðin undankomuleið

Sigurður Árni byrjaði að hlaupa fljótlega eftir að faðir hans greindist með húðkrabbamein. 

„Hlaup var ákveðin undankomuleið frá því sem var í gangi heima. Í fyrstu þá reyndist það mér mjög erfitt þar sem ég átti í erfiðleikum með að einblína á hlaupin, hugurinn var stöðugt hjá pabba. 

Ég gafst samt ekki upp og því meira sem ég hljóp og hreyfði mig, því meira hvatti pabbi mig áfram og hægt og bítandi fóru hlaupin að snúast um að sýna pabba hvað ég gæti afrekað. Ég held að pabbi hafi notið sín í gegnum mig. Hann spurði mig á hverjum degi út í hreyfinguna, vinnuna og lífið,“ útskýrir Sigurður Árni.

Sigurður Árni hefur þjálfað af kappi fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka.
Sigurður Árni hefur þjálfað af kappi fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

„Armbandið minnir mig á pabba“

Sigurður Árni er efstur á lista í söfnuninni fyrir Kraft og sá fimmti í heildarsöfnuninni á vefsíðunni hlaupastyrkur.is

„Ég hleyp nú fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Pabbi var ekki ungur þegar hann greindist en á sama tíma var hann allt of ungur til þess að falla frá svona snemma.

Pabbi gekk um með armbandið sitt „Lífið er núna“ frá Krafti nánast frá fyrsta degi og bar það alveg fram á lokadag. Síðustu jól þá gaf mamma mín öllum í fjölskyldunni armband frá félaginu sem við göngum öll með. Armbandið minnir mig á pabba og er hlutur sem er mjög þýðingarmikill fyrir mig. Kraftur hefur gert góða hluti fyrir marga, þar á meðal fjölskylduna mína.“

Stórfjölskyldan!
Stórfjölskyldan! Ljósmynd/Aðsend

„Elskaði Borgarfjörð eystri“

„Við fjölskyldan förum á vina- og ættarmót á Bræðslunni á Borgarfirði eystri á hverju ári og höfum gert það síðustu 20 árin. Pabbi minn elskaði Borgarfjörð eystri og var þessi bræðsluvika heilög í okkar fjölskyldu. 

Fyrir nokkrum árum voru settir upp „Bræðsluleikarnir“ en á þeim er keppt í hinum ýmsu þrautum. Í ár var í fyrsta sinn rukkað þátttökugjald og rann það beint til söfnunarinnar minnar á hlaupastyrkur.is. Okkur tókst að safna hátt í 110.000 krónum og gengur söfnunin vel.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda