Þær Guðrún Rakel Eiríksdóttir og Berglind Stefánsdóttir, sálfræðingar og verkefnastjórar hjá Virk, eru gestir Ásthildar Hannesdóttur í Dagmálum. Síðastliðin fjögur ár hafa þær rannsakað kulnun í starfi en árið 2020 var sérstöku þróunarverkefni hrundið af stað á vegum Virk vegna aukinnar samfélagsumræðu á starfstengdri kulnun sem gefið hefur góða mynd af undirrótum kulnunar í íslensku samfélagi.
Orsök og afleiðingar kulnunar á vinnumarkaði geta verið jafn misjafnar og þær eru margar að sögn Guðrúnar og Berglindar en stafa helst af langvarandi streitu og álagi. Viðvarandi andleg og líkamleg streita getur leitt til ofþreytu og örmögnunar en slík þreytumerki eru algengustu einkenni kulnunar. Þá segja þær hugræn einkenni einnig hafa verið töluvert til skoðunar í rannsóknum undanfarið.
„Nýlegar rannsóknir akkúrat á því sviði þar sem fólk er að upplifa að fyrstu einkenni séu svona eins og þú sért að missa bolta, erfitt að halda utan um verkefni, finnur oft fyrir minnisvanda, einbeitingin ekki alveg eins góð og áður þannig að allt í einu fara þessir hlutir að verða meira krefjandi þannig það tekur þig lengri tíma að klára verkefni og þetta er mjög óþægilegt og hamlandi,“ segir Guðrún Rakel.
„Þetta er svona það sem við heyrum oft og fólk upplifir stundum eins og það sé að fá heilabilun sem það vissulega er ekki að fá en þetta er óþægileg tilfinning að upplifa. Allt í einu bara „heyrðu ég man ekki neitt og ég var á einhverjum fundi í gær og ég man ekkert hvað var rætt“ svo þetta er mjög óþægilegt vandamál.“
Samkvæmt nýlegri skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar, WHO, er kulnun ekki sjúkdómur heldur heilkenni sem verður til af langvarandi streitu í starfi sem erfiðlega getur reynst að ná tökum á.
Núverandi skilgreining Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar á einkennum kulnunar skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi er það mikil þreyta, orkuleysi og örmögnun. Í öðru lagi ef einstaklingar eru andlega fjarverandi í starfi sínu og hafa neikvæð viðhorf, efasemdir og tortryggni gagnvart vinnustað sínum. Í þriðja lagi er talað um minni afkastagetu.
Guðrún Rakel og Berglind segja einróma að mikilvægt sé að einstaklingar leiti sér faglegrar aðstoðar ef einkenni af þessu tagi gera vart við sig. Oft sé hægt að grípa inn í áður en allt stefnir í óefni.
„Ég hef ekki heyrt neitt annað en að flestir fái bara gott viðmót með það. Það þarf náttúrulega að kanna hvað getur verið að valda því og skoða það vel en auðvitað er það líka bara gott fyrir fólkið sjálft að vera vakandi fyrir því ef það fer að taka eftir einhverjum svona breytingum hjá sér,“ segir Berglind.
„Og ekki vera að upplifa einhverja skömm yfir því áður en þú ferð til læknis þá er ýmislegt sem þú getur reynt að gera,“ bætir Guðrún Rakel við og hvetur fólk til að grípa í taumana strax finni það fyrir einkennum kulnunar.
Smelltu á spilarann hér að neðan til að horfa eða hlusta á viðtalið í heild sinni.