„Mér var ekkert sérstaklega illa við þessi aukakíló“

Nanna Rögnvaldardóttir er búin að losa sig við 30 kíló.
Nanna Rögnvaldardóttir er búin að losa sig við 30 kíló. mbl.is/Eyþór Árnason

Mat­ar­bóka­höf­und­ur­inn Nanna Rögn­vald­ar­dótt­ir gekkst und­ir efna­skiptaaðgerð, svo­kallaða Mini-hjá­v­eituaðgerð, fyrr á ár­inu og hef­ur misst yfir 30 kíló und­an­farna mánuði. Í lang­an tíma var Nanna í yfirþyngd og glímdi við ýmsa kvilla, þar á meðal kæfis­vefn og syk­ur­sýki af gerð II. Sök­um hnign­andi heilsu ákvað Nanna að leita sér hjálp­ar, sem hef­ur skilað sér ríku­lega.

Nanna er flest­um lands­mönn­um að góðu kunn en mat­reiðslu­bæk­ur henn­ar er að finna í flest­um eld­hús­um lands­ins. Á síðasta ári sendi hún frá sér fyrstu skáld­sög­una, Valsk­an, og er ný bók vænt­an­leg síðar á þessu ári.

Af hverju ákvaðstu að gangast undir efnaskiptaaðgerð?

„Ég hef alltaf verið of þung, eða alveg frá því að ég eignaðist mitt fyrsta barn aðeins 17 ára gömul. Tilgangurinn með aðgerðinni var ekki endilega að grennast, mér var ekkert sérstaklega illa við þessi aukakíló, heldur vildi ég losna við sykursýkina sem og aðra kvilla sem höfðu angrað líkama minn um árabil. Ég bara vissi að aðgerðin myndi hjálpa mér og sá hana sem mögulega lausn á öllum kvillum mínum.“

Sagðir þú vinum og vandamönnum frá ákvörðuninni?

„Ég var nú ekkert að segja neinum frá þessu fyrir fram nema afkomendum. Þau samglöddust mér og studdu mig í ákvörðun minni. Ég skrifaði langan pistil á facebook-síðuna mína daginn eftir aðgerðina og greindi frá ákvörðun minni og fékk mjög jákvæð viðbrögð frá fylgjendum mínum.“

Valskan kom út á síðasta ári en hún var fyrsta …
Valskan kom út á síðasta ári en hún var fyrsta skáldsaga Nönnu.

„Vissi innst inni að þetta myndi bara versna“

Nanna var greind með sykursýki árið 2012 og á seinni árum bættust nýir kvillar við.

„Ég var með kæfisvefn, háan blóðþrýsting, þvagleka og allt mögulegt fleira. Síðasta haust, þegar ég var sett á annað sykursýkislyf, þá varð mér litið á öll þessi lyfjabréf og pilluglös og vissi innst inni að þetta myndi bara versna ef ég héldi svona áfram. Í framhaldi tók ég ákvörðun um að leita mér hjálpar til að grenna mig varanlega.“

Hvaða einkennum fannstu fyrir?

„Ég var 55 ára gömul þegar ég var greind með sykursýki. Einkennin sem ég fann mest fyrir voru mikill og skyndilegur þorsti og hungur. Ég varð allt í einu sársvöng og drakk rosalega mikið, þess vegna var ég með þvagleka. Ég þurfti að ganga með bindi fyrri hluta dags. Þetta var farið að verða töluvert mikið vandamál en ég er laus við það í dag sem og flest annað.“

Nanna gekkst undir aðgerðina hjá Klíníkinni hinn 9. apríl síðastliðinn og hóf undirbúninginn nokkrum vikum áður.

Hvernig leið þér eftir aðgerðina?

„Bara mjög vel. Ég hef ekki fundið fyrir neinum aukaverkunum og tel mig mjög heppna. Ég vissi alveg að það gætu alls kyns hlutir komið upp, ég átti von á að finna fyrir verkjum, magatruflunum og ýmsu fleiru en það er bara eins og ég hafi verið „ídeal“ kandídat fyrir aðgerðina.

Ég fer líka eftir öllu sem mér hefur verið ráðlagt að fara eftir frá læknum. Það skiptir miklu máli að fá góða fræðslu, vita á hverju maður á von og að fylgjast vel með næringunni á eftir. Ekki vera að svindla, ekki laumast til að borða eitthvað sem er ekki hollt fyrir þig, mat sem inniheldur sykur og fitu þarf að forðast. Það er mikilvægt að hlusta á líkamann og átta sig á hvað hann er að segja. Til dæmis að hætta strax ef manni finnst allt í einu að maður sé búinn að borða nóg, þó svo það sé bara einn biti eftir á disknum.“

Þessi mynd var tekin af Nönnu fyrir nokkrum árum.
Þessi mynd var tekin af Nönnu fyrir nokkrum árum. mbl.is/Árni Sæberg

„Finnst ég vera tíu árum yngri“

Hvaða líkamlegu breytingum hefur þú fundið fyrir?

„Já, já, þær eru heilmargar. Blóðþrýstingurinn hefur aldrei verið lægri, ég er laus við kæfisvefn, var búin að vera með svefnöndunartæki í 16 ár og þarf ekki að nota það lengur. Þvaglekinn hvarf sama dag og ég gekkst undir aðgerðina og svo er ég rúmum 30 kílóum léttari og finnst ég vera tíu árum yngri, sem er ekki alslæmt.

Ég er líka mun léttari á mér. Ég var að ganga heim úr búðinni á laugardaginn, sem var töluverður spölur, og var með átta kíló í poka. Ég bölvaði því alla leiðina hvað þetta væri þungt en svo þegar ég komst á leiðarenda þá rann upp fyrir mér að þetta er ¼ af þeirri aukaþyngd sem ég dröslaðist með utan á mér í mörg ár.“

Hvaða andlegu breytingum hefur þú fundið fyrir?

„Mér hefur nú yfirleitt liðið mjög vel andlega. En ég veit ekki, mér finnst ég vera yngri. Það er bara léttir að hafa gert eitthvað í málinu. Þetta er ekki breyting sem verður tekin aftur, enda hef ég ekki séð eftir þessari ákvörðun eitt andartak.

Ég finn að ég hef jákvæðara lífsviðhorf, ég var farin að sjá fyrir mér að það væru ekki mörg ár þangað til ég yrði farlama gamalmenni, en í dag hef ég litlar eða engar áhyggjur af því.“

Ertu dugleg að stunda hreyfingu?

„Ég hef aldrei verið ræktarmanneskja, ég geng dálítið, en það er það eina.“

Nanna hefur gefið út fjöldamatreiðslubóka í gegnum tíðina en hún …
Nanna hefur gefið út fjöldamatreiðslubóka í gegnum tíðina en hún er hætt því og ætlar ekki að gefa út fleiri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er ég farin að hugsa um mat á allt annan hátt“

Matur og matargerð hefur spilað stóra rullu í lífi Nönnu í langan tíma, enda ein þekktasta matardrottning landsins.

Hvernig er mataræðið í dag?

„Ég hef alltaf verið áhugasöm um mat og matargerð og gat hér áður fyrr aldrei haft nógu góðan hemil á mér í kringum mat. Nú er ég farin að hugsa um mat á allt annan hátt en áður og geri nýjar tilraunir, sem mér finnst mjög gaman að gera.“

Hvernig hljóðar matseðillinn í dag?

„Ég reyni bara að einblína á fjölbreytta og litríka fæðu. Flesta morgna reyni ég að fá mér skál af skyri með ávöxtum og smá múslí, þar sem skyr er svo prótínríkt. Ég reyni að forðast unna matvöru og elda flestallt frá grunni. Ég forðast fituríka fæðu og sykur en fæ þó endrum og eins að smakka ís hjá barnabörnunum. Baldur sonarsonur minn er miður sín að amma skuli ekki borða ís og gefur mér því smakk endrum og sinnum.

Ekki fleiri matreiðslubækur

Á farsælum ferli sínum sem rithöfundur hefur Nanna skrifað yfir 20 matreiðslubækur sem hafa allar vakið mikla lukku hjá lesendum. Sjálfur er blaðamaður mikill aðdáandi uppskrifta Nönnu og hefur matreitt þó nokkrar í gegnum árin.

Eigum við von á nýrri matreiðslubók?

„Nei, þetta er komið gott. Ég er búin að skrifa um allt sem mig langaði að skrifa um. Ég hef nýlokið við að skrifa skáldsögu og hver veit nema ég byrji á nýrri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda