Hvað þarf til svo við náum markmiðum okkar?

Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur segir að fólk þurfi að setja sér …
Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur segir að fólk þurfi að setja sér skýr markmið. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Elísabet Reynisdóttir, eða Beta Reynis eins og hún er kölluð, næringarfræðingur segir að fólk þurfi að setja sér skýr markmið varðandi heilsuna. Hún segir að það þurfi að hugsa hlutina á ákveðinn hátt ef við eigum að ná markmiðum okkar.  

Haustið læðist að og veturinn er rétt handan við hornið. Regla og rútína tekur við af fríi og ferðalögum sumarsins. Það er gjarnan að hausti til sem við helst leitum inn á við og setjum okkur ný markmið til að stefna að, enda haustið frábær árstími til að skipuleggja eitthvað nýtt, ferskt og spennandi í eigin tilveru fyrir skammdegið framundan.

Á hvaða stað ert þú stödd/staddur haustið 2024? Ertu í góðum málum hvað varðar næringu og hreyfingu? Er mögulega svigrúm til að gera aðeins meira til að auka vellíðan og lífsgæði? Hvað um tímastjórnun? Hefur þú náð að njörva niður nákvæmlega hvað það er sem þú vilt stefna að, hvort sem það er næstu vikur, mánuði eða ár? Þrátt fyrir góðan ásetning vill þetta stundum allt fara í einn hrærigraut í hausnum á okkur, sérstaklega ef við erum ekki með neitt skothelt plan til að fara eftir.

Hvað þarf til svo við náum markmiðum okkar?

Sem næringarfræðingur og ráðgjafi hef ég oft velt því fyrir mér hvað það nákvæmlega er sem skilur á milli þeirra sem ná markmiðum sínum, og þeirra sem mistekst og fara alltaf aftur í sama farið. Þetta á við um allar hliðar lífsins, en kannski sérstaklega þegar kemur að mataræði, hreyfingu og lífsstíl almennt.

„Ég er búin að prófa allt en ekkert virkar til lengdar“, eða: „Það þýðir ekkert að reyna, mér mistekst hvort sem er alltaf“ eru dæmi um setningar sem ég er því miður farin að heyra alltof oft.

Undanfarnar vikur hef ég dvalið austur á Höfn í Hornafirði þar sem ég starfa sem næringarfræðingur og kokkur fyrir tökulið og leikara í kvikmynd sem nú er í tökum. Lífið á setti er líflegt og krefjandi; vinnan fjölbreytt, dagarnir langir og í mörg horn að líta.

Það er ótrúlega áhugavert og lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig kvikmynd verður til. Á hverjum degi læri ég eitthvað nýtt sem ég mun svo sannarlega nýta mér í mínu eigin lífi, sem og deila áfram til skjólstæðinga minna þegar ég sný aftur til baka að loknum tökum.

Hér kvikna nær daglega ótal ferskar hugmyndir sem síðar þróast áfram í góðri samvinnu leikstjóra, tökuliðs og leikara. Gott handrit er grunnurinn sem allt hverfist um og til að allt gangi upp þarf að vinna skipulega og markvisst svo árangur náist.

Ég fylgist áhugasöm með því hvernig leikstjórinn, tökulið og leikarar liggja yfir handritinu og búta það niður í smærri einingar svo það passi inn í hvern tökudag, miðað við staðsetningu, veðurfar og tækjabúnað hverju sinni. Hver tökudagur er skipulagður í þaula og það sem virðist nær vonlaust í byrjun verður á endanum fullkomlega framkvæmanlegt.

Þannig er það líka með markmið okkar. Þau þurfa að vera raunhæf og taka mið af aðstæðum okkar og getu hverju sinni og ekki síst, vera vel skilgreind. Ef markmiðin eru höfð of almenn getur verið erfiðara að átta sig á hvort þau hafi yfirhöfuð náðst. Markmið eins og: „Ég ætla að borða þrjá ávexti á dag“ er vel skilgreint og auðvelt fyrir þig að mæla. Markmiðið: „Ég ætla að auka neyslu ávaxta“ er öllu óljósara. Skilgreindu markmið þín og settu þér tímamörk. Skrifaðu niður hvaða breytingar þú vilt sjá, hvar, hvenær og hvernig þér mun líða þegar þú hefur náð þessu markmiði þínu.

Með jákvæðni að leiðarljósi

Það eru nær engar líkur á því að þú náir markmiðum þínum eða öðrum árangri í lífinu ef þú hugsar verkefnið framundan sem kvöð. Mun vænlegra til árangurs er að hafa jákvæðni með í farteskinu þegar þú leggur af stað í átt að markmiðum þínum. Til dæmis varðandi breytingar á mataræði. Það er mun líklegra að þú náir að skapa þér góðar matarvenjur og náir matartengdum markmiðum þínum ef fókusinn er settur á þær bragðgóðu, litríku og hollu fæðutegundir sem þú ert að fara að bæta inn í mataræði þitt, frekar en það sem þú ætlar héðan í frá að minnka eða jafnvel hætta alveg neyslu á.

Regluleg ástundun er málið

Flestir þeir sem náð hafa árangri í lífinu eiga það sameiginlegt að hafa verið duglegir að ástunda það sem til þurfti til að ná árangri, auk þess að hafa búið yfir ákveðni og úthaldi. Þegar þú setur þér markmið er gott að sjá fyrir sér hvernig þér muni líða þegar þú ert búin að ná því markmiði sem að er stefnt. Hvernig verður lífið betra og meira fullnægjandi? Hver er ávinningurinn og kostirnir við að ná markmiði þínu? Regluleg ástundun er lykillinn að velgengni og ég legg aldrei nógsamlega mikla áherslu á mikilvægi reglulegrar ástundunar við skjólstæðinga mína. Með reglulegri ástundun sköpum við nýjar og betri venjur.

Að efla þrautseigju

Alveg eins og teymisvinnan í kvikmyndagerðinni gerir góðan tökudag enn betri, þá er ekki síður mikilvægt að búa yfir nægjanlegum innri styrk til að geta tekist einn og óstuddur á við krefjandi aðstæður og verkefni.

Eitt af því sem ég hef verið minnt hressilega á undanfarið er mikilvægi þess að búa yfir nægjanlegum styrk og mætti til að takast á við áskoranir. Seigla verður ekki síst til þegar við tökumst ein og óstudd á við áskoranir lífsins. Foreldrar byggja þessa seiglu upp hjá börnum sínum með því að grípa ekki alltaf strax fram fyrir hendurnar á þeim þegar eitthvað bjátar á, heldur með því að leyfa afkvæminu að leysa svolítið sjálft úr þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir. Það er svo sannarlega dýrmætt og ómetanlegt að finna fyrir því að maður á góðan stuðning vísan ef á þarf að halda. En við náum aldrei að efla þrautseigju okkar og seiglu ef við reiðum okkur alltaf á það að aðrir komi okkur til hjálpar þótt það sé ómetanlegt að hafa góðan stuðning og hvatningu. Með þrautseigju að vopni tekst okkur að leysa úr erfiðum verkefnum og ekki síst, ná markmiðum okkar. Þrautseigja á því stóran þátt í því hversu vel okkur vegnar í lífinu og því mikilvægt að efla hana markvisst.

Að lokum. Mundu endilega eftir því að verðlauna þig, á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, þegar markmiðum þínum er náð, hvort sem það eru áfangasigrar eða þegar lokamarkmiðinu er náð.

Félagslega þurfum við á hvort öðru að halda, og það er líka mikilvægt að leita ráða hjá fagaðilum til að vinna rétt úr hlutunum svo er það síðast ekki síst að treysta á eigin getu og kraft til að láta verða af því að hlúa að heilsunni.

Fagnaðu öllum framförum. Það gerir þetta ferðalag svo miklu skemmtilegra. Mundu að þér eru allir vegir færir!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda