Ertu orkulaus og drepleiðinleg?

Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur talar um mataræði og kulnun.
Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur talar um mataræði og kulnun. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Elísabet Reynisdóttir, Beta Reynis, talar um orkuleysi í nýjum pistli á Smartlandi. Hún segir að öll þessi kulnun sem fólk upplifir sé oft og tíðum vegna rangrar samsetningar fæðunnar eða vitlausra skammtastærða. 

Alltof margir sem til mín leita segjast upplifa sig algjörlega orkulausa og hreint út sagt drepleiðinlega.

Já, við endum nefnilega bæði orkulaus og drepleiðinleg ef við keyrum okkur endalaust áfram á orku sem hreinlega er ekki til staðar. Það að fylla á tankinn með falskri orku eins og nokkrum kaffibollum, súkkulaði eða miður hollum orkudrykkjum í von um að það nái að koma þeim klakklaust í gegnum daginn. Það hljómar ekki vel.

Það að upplifa orkuleysi er ekkert endilega háð kyni eða aldri. Eftir að hafa núna í fleiri ár fengið til mín í ráðgjöf einstaklinga á öllum aldri og af báðum kynjum, þá er nokkuð ljóst að alltof margir eru hreint út sagt bara algjörlega örmagna. Og ekki bara það, heldur er eins og alltof mörgum vanti bókstaflega alla gleði í lífið.

30 ára karl kveikti neista

Ég lagðist í heljarinnar rannsóknarvinnu fyrir stuttu síðan eftir að hafa fengið til mín 30 ára gamlan karlmann sem upplifði sig vera á góðri (lesist slæmri) leið í kulnun. Það þurfti sem sagt 30 ára karlmann sem ekki var búinn að vera á vinnumarkaði lengur en í 5 ár til að opna augu mín. Viðkomandi var í ábyrgðarstöðu og kominn með fjölskyldu. Fyrirtækið sem hann vinnur hjá er til fyrirmyndar en jú, það var sannarlega álag hjá honum í vinnu. Engin augljós ástæða skýrði þó af hverju hann upplifði sig vera á leið í kulnunarástand og ég var því mjög hugsi yfir þeirri stöðu sem hann var í. Einhver önnur ástæða en vinna og streita hlaut að liggja þarna að baki.

Eftir að hafa hjálpað tugum ef ekki hundruðum kvenna að bæta heilsu sína, taldi ég mig vera með þann skilning á stöðunni að það væru sérstaklega við konurnar frekar en karlarnir sem værum að örmagnast af álagi. Ég verð bara að segja alveg eins og er, elsku kynsystur, ég hef skipt um skoðun. Eftir nýliðna rannsóknarvinnu mína get ég ekki betur séð en að bugunarástand og kulnun sé hreint ekkert bundið við okkur kvenfólkið sérstaklega, eða að það sé eitthvað mikið meira á okkur konurnar lagt, umfram karlana.

Staðreyndin er held ég sú að það er mismikið á okkur öll lagt og þar hefur kynið ekkert að segja. Við erum misjöfn eins og við erum mörg og auðvitað skiptir sagan okkar og aðstæður mestu máli, þ.e. þau áföll sem við verðum fyrir í lífinu, fjölskylduaðstæður, félagsleg tengsl og hvort við búum við fjárhagslegt öryggi eða ekki. Allt eru þetta atriði sem geta haft mikil áhrif á heilsu okkar og líðan.

Ertu örugglega að fá næringu? 

Við getum verið sammála um eitt og það er það að við þurfum að lifa til að nærast og nærast til að lifa. Það sem skiptir máli er í hvaða röð við gerum þetta. Ef við högum lífi okkar þannig að við erum endalaust að bjóða okkur upp á álag og ekkert nema álag, þá einfaldlega brennum við út fyrr en síðar. Ef þín aðferð til að næra þig er að grípa það sem hendi er næst, án þess að hugsa mikið út í hollustuna, þá mun það síðar meir klárlega koma niður á heilsu þinni, bæði andlega og líkamlega. Þú verður að muna að þú ert lifandi vera sem ávallt þarf að hlúa vel að. Það gerir þú fyrst og fremst með því að næra hverja einustu frumu í líkamanum með réttri næringu. Næringu sem byggir þig upp og gefur þér orku sem endist út daginn. Öðruvísi hreinlega getur þú ekki lifað til fulls og notið þess að vera til, hvort sem er í leik eða starfi. Það er óábyrgt að reiða sig ávallt á það að aðrir muni sjá um að næra þig s.s. mötuneytið í vinnunni eða skyndibitinn þegar þú nennir ekki að elda.

Lifir þú á orkudrykkjum? 

Það er algjörlega óásættanleg staða að vera alltaf orkulaus og hafa ekki hugarþrek til að vera til og ná að gera allt það sem þig langar til og dreymir um. Þú hlýtur að vera sammála mér í því að þú átt svo miklu betra skilið en að þurfa að halda þér gangandi á kaffi, orkudrykk til að koma þér í gegnum daginn, og jafnvel áfengi til að þola kvöldin og helgarnar, tengir þú við þetta?

Það sem mig langar svo til að þú gerir núna er að staldra aðeins við og hugsa vel og vandlega um þá næringu sem þú lætur inn fyrir varir þínar. Hvernig er mataræði þitt? Er séns að það geti verið betra en það er? Ef svarið er já, gerðu þá eitthvað í því!

Hugsar þú betur um bílinn þinn en þig sjálfa? 

Taugaboðefni þín og hormónakerfið allt þurfa réttu næringuna til að virka almennilega. Góð næring er það sem umfram allt annað gefur þér drifkraft og lífsgleði. Ekki síst færni til að takast á við allar lífsins áskoranir, því þær hverfa ekki þó þú sért ekki í stuði til að takast á við þær. Næringin sem þú lætur inn fyrir varir þínar er eins og olían sem smyr bílinn þinn. Þú skvettir ekki bara af og til olíu á bílinn upp á von og óvon, er það nokkuð?

Nei, þú þarft að fara reglulega með bílinn í smurningu til að halda honum í ökufæru ástandi. Það sama á við um þig sjálfa/n. Þú þarft að smyrja kroppinn á þér reglulega til að halda honum gangandi og það gerir þú einmitt með góðu, fjölbreyttu og hollu mataræði. Orkuleysi, kulnun og það að vera drep leiðinleg/ur getur hreinlega átt sínar skýringar í næringarskorti, vegna rangrar samsetningar fæðunnar eða vitlausra skammtastærða.

Ertu örugglega að borða hollan mat? 

Nú hugsa efalaust einhverjir: nei, komm on Beta, hættu nú alveg! Ég sem borða alltaf svo hollan mat!

Ertu viss um að það sé alveg rétt?

Er maturinn sem þú borðar hrein fæða eða matur fullur af tilbúnum litar-, bragð- eða rotvarnarefnum sem bætt er út matinn svo hann endist sem lengst og bragðist sem best? eða röng kolvetni eða olíur. Ertu alveg örugglega að borða nógu fjölbreytta fæðu? Tekur þú inn D-vítamín daglega? D-vítamín er einmitt eitthvað sem við hér á hjara veraldar þurfum að taka sérstaklega inn á hverjum degi, allan ársins hring, líka yfir hásumarið. Gefur þú þér gott næði þegar þú ert að borða og melta matinn? Hvernig er meltingin? Hvernig líður þér eftir máltíðir? Ertu útþanin/n, allt stopp eða reglulega með pípandi niðurgang? Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem þú þyrftir að gefa þér tíma til að spyrja sjálfa/n þig og svara heiðarlega. Svörin gætu komið þér á óvart, vakið þig til umhugsunar og vonandi ýtt þannig við þér að þú farir núna loksins að hlúa betur að líðan þinni og heilsu. Áður en þú endar í kulnun.

Finndu endilega út hvað það er sem þú þarft að gera til að sjá jákvæðar breytingar á þínu lífi. Og líka hvaða næring það er sem hentar þínum líkama og lífsstíl sem best svo þú megir njóta alls hins besta og skemmtilegasta sem lífið bíður upp á, ævina á enda.

Ég ætla að skilja þig eftir hér með þessa pælingu, þú veist hvað þú þarft að gera!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda