Konur með erlent ríksifang mæta síður í skimun

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir á Samhæfingarstöð krabbameinsskimana, segir að árangur …
Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir á Samhæfingarstöð krabbameinsskimana, segir að árangur brjósta-og leghálsskimana hafi verið staðfestur í íslensku uppgjöri. Samsett mynd/Ágúst Ingi/Krabbameinsfélag Íslands

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana, segir í samtali við Smartland að sýnt hafi verið fram á að reglubundin skimun fyrir leghálskrabbameini fækkar nýjum tilfellum um allt að 90%. Þessi árangur hafi verið staðfestur í íslensku uppgjöri.

Þá geti krabbameinið greinst á snemmstigi í skimun og hægt sé að lækna konuna með litlu inngripi og hún lifað eðlilegu lífi eftir það. En skimunin gangi út á að greina forstig krabbameins.

„Reglubundin skimun fyrir brjóstakrabbameini hefur sýnt um 30-40% lækkun í dánartíðni af völdum sjúkdómsins,“ segir Ágúst. „Þessi skimun leitast við að greina krabbamein á snemmstigum, á meðan hægt er að lækna það og helst með sem minnstu inngripi.“ 

Hann bætir því við að brjóstakrabbamein sé eitt algengasta krabbameinið í konum þannig að ef skimun bjargar 3-4 konum sem ella myndu deyja þá sé til mikils að vinna.

Flóknara að fræða konur með erlent ríkisfang

Ágúst segir margar ástæður fyrir því að konur með erlent ríkisfang mæti síðar í skimun. „Sumar þessara kvenna eiga ekki að venjast krabbameinsskimunum og því er flóknara að fræða þær um mikilvægi þess,“ en hann bætir því við að sumar þeirra sem vanar eru krabbameinsskimunum sinni slíkum fovörnum í heimalandinu. 

„Við höfum vísbendingar um að allt að 50% pólskra kvenna mæti í leghálsskimun í Póllandi í stað þess að notfæra sér þjónustuna á Íslandi,“ segir Ágúst en að tungumálið geti einnig verið hindrun. 

„Ein þýðingarmikil ástæða sem mikilvægt er að gefa góðan gaum er sú að erlendar konur upplifa sig í veikri stöðu gagnvart vinnuveitendum og veigra sér við að nýta sér rétt sinn til þess að mæta í skimun á vinnutíma. Þær óttast að það geti bitnað á stöðu þeirra gagnvart vinnuveitanda.“

Yngstu konurnar með lægsta mætingarhlutfall í leghálsskimun

„Fyrir yngstu konurnar er tilhugsunin um að fá krabbamein fjarlæg. Þær gera ráð fyrir að þær hafi nægan tíma fyrir sér án þess að vera nein hætta búin og ýta því þess vegna á undan sér að hafa samband. Í þessum hópi er líka hærra hlutfall kvenna sem eru í námi erlendis og hafa því ekki tök á að sinna boði.“

Ágúst segir að á Íslandi greinast um 15-20 leghálskrabbamein árlega þannig að náð er til 60-70% þessara kvenna í tæka tíð.

„En við viljum auðvitað fá fleiri konur í skimun og fá enn færri en þessi 15-20 tilfelli árlega. Með æskilegri þátttöku í skimuninni væri hægt að fækka tilfellum leghálskrabbameina um líklega 5-10 á ári.“

Mætingarhlutfall í brjóstaskimun lækkaði 2021 og 2022 

„Okkur sem berum ábyrgð á framkvæmd skimunar fyrir brjóstakrabbameini er öllum ljóst að flutningur skimunarinnar frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til Landspítala var á sínum tíma ekki nægilega undirbúinn og ýmsir erfiðleikar voru uppi í byrjun sem áttu þátt í minni þátttöku,“  svarar Ágúst þegar hann er spurður af hverju mætingarhlutfallið lækkaði árin 2021 og 2022.

„Þá voru konur einfaldlega ósáttar við þá ákvörðun að færa skimunina frá Leitarstöðinni.“

Við breytinguna hafi aldursmörk skimunarinnar verið hækkuð úr 69 ára í 74 ára og þar með fjölgað í skimunarþýðinu. 

Helst sé það aukningin í fjölda erlendra kvenna sem er með slakasta þátttöku eða aðeins 17% sem hefur mikil áhrif á heildarþátttökuna.

„Þátttakan hefur verið á niðurleið undanfarna áratugi svo það er margt samverkandi sem gerir það að verkum að þátttakan tók skarpa dýfu 2021 og 2022,“ segir Ágúst en að þrátt fyrir óánægju í upphafi séu þær konur sem mætti hafi í skimun á Brjóstamiðstöð flestar mjög ánægðar með þjónustuna og aðstöðuna þar.

Gjaldfrjáls skimun

Árið 2019 bauð Krabbameinsfélag Íslands 23 ára konum ókeypis í fyrstu leghálssýnatöku og 40 ára konum ókeypis í fyrstu brjóstamyndatöku. Þetta var tilraunaverkefni sem jók þátttöku þessara hópa til muna og því var verkefninu haldið áfram árið 2020.

„Þetta var afmarkað verkefni sem kostað var af Krabbameinsfélaginu. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að gera krabbameinsskimanir gjaldfrjálsar.“

Kostnaður við leghálsskimun er um 500 kr. hjá heilsugæslunni.

„Kostnaður við skimun fyrir brjóstakrabbameini hefur aftur á móti verið of hár að mínu mati og hindrun fyrir tekjulága hópa. Þó má benda á að mörg stéttarfélög taka þátt í þessum kostnaði að hluta eða öllu leyti og mikilvægt að konur kynni sér það,“ segur Ágúst en bætir við að heilbrigðisráðherra hafi samþykkt verðlækkun á brjóstaskimun niður í 500 krónur frá og með 14. október næstkomandi.

Hvað má gera betur?

Ágúst segir að bæta þurfi fyrirkomulag tímabókana í brjóstaskimanir sem fæli m.a. í sér að konur fengju forbókaða tíma. 

Sú breyting er í undirbúningi og segir hann að hægt verði að koma henni í gagnið öðru hvoru megin við áramót.

„Samhliða þessu þurfum við að breyta tímabókunum þannig að konur geti bókað sér tíma rafrænt í stað þess að hringja eða senda tölvupóst eins og fyrirkomulagið er núna.“

Hann leggur áherslu á að fjarlægja þurfi allar hindranir, sérstaklega fyrir erlendar konur og nefnir þar dæmi um gjaldfrjálsa skimun og að efla fræðslu um tilgang og mikilvægi skimana. 

„En ég fagna því mjög að ráðherra hafi ákveðið að lækka kostnað kvenna við skimun fyrir brjóstakrabbameini og tel að það muni verða hvatning til allra kvenna um að mæta í skimun, ekki aðeins þeirra sem hafa lítið milli handanna.“

Eitt af því sem gert hefur verið til að vinna á tungumálahindrunum er að senda út boð á íslensku, ensku og pólsku. Þá segir hann að verið sé að undirbúa veggspjalda-herferð.

Varðandi aðgengi stendur nú til í fyrsta sinn að bjóða konum á Suðurnesjum í brjóstamyndatöku í sinni heimabyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda