Hefur verið dansandi í hartnær 70 ár

Helgi nýtur þess að dansa.
Helgi nýtur þess að dansa. Ljósmynd/Karítas

Helgi Magnússon er mikill tjúttari sem veit fátt skemmtilegra en að stíga nokkur spor á dansgólfinu við taktfasta tónlist. Hann hefur verið dansandi í hartnær 70 ár og kynntist þjóðlegri, íslenskri dansmenningu og dansmenningu annarra þjóða þegar hann var nemandi við Héraðsskólann í Skógum í byrjun sjöunda áratugarins. 

Helgi er menntaður íslensku- og sagnfræðingur og hefur verið eftirsóttur prófarkalesari og ritstjóri um árabil. Hann hefur engar áætlanir um það að setjast í helgan stein á næstunni og segist njóta gulláranna einna best með því að vera sívinnandi og að sjálfsögðu dansandi. 

„Dansinn hjálpaði mér til að opna mig“

„Ég var heldur feiminn þegar ég byrjaði að sækja böllin í gamla daga. Ég viðurkenni það alveg, en dansinn hjálpaði mér til að opna mig,“ segir Helgi er hann rifjar upp námsárin í Skógum. „Til okkar kom danskennari, kona úr Reykjavík, sem kenndi okkur grunnsporin í helstu dönsum þess tíma, sem voru tjútt og jive, báðir hraðir og fjörugir dansar. Þetta vakti mikla ánægju meðal nemenda skólans og kveikti áhuga minn.“

Í Héraðsskólanum í Skógum, eins og lengi tíðkaðist í heimavistarskólum hér á landi, var starfandi hljómsveit nemenda, eða tónvissra drengja, eins og Helgi orðar það. 

„Á hverju laugardagskvöldi voru haldnar dansæfingar. Kennslustofu var breytt í danssal og við dönsuðum eins og enginn væri morgundagurinn, þetta var hápunktur vikunnar. Stúlkurnar eyddu eftirmiðdeginum í að túpera á sér hárið og gera sig fínar. Þær voru alltaf feikilega flottar.“

Hvernig leið þér þegar þú bauðst stúlku upp í dans í fyrsta sinn?

„Það var erfitt í fyrstu en maður komst fljótt upp á lagið með það,“ segir hann og hlær. 

Helgi lauk landsprófi frá Héraðsskólanum í Skógum og hélt þá til Reykjavíkur í frekara nám. Í höfuðborginni gafst honum tækifæri til að rækta dansáhugann enn frekar. 

„Þá stundaði ég nám við Menntaskólann í Reykjavík, þar var dansinn í hávegum hafður. Laugardagskvöld voru danskvöld í skólanum og ég lét mig sjaldan vanta,“ segir Helgi sem tók einnig sporin á helstu skemmtistöðum bæjarins og meðal annars undir hljómspili Hljómsveitar Finns Eydals og ljúfum söng Helenu Eyjólfsdóttur. 

Enn í fullu fjöri

Í dag er Helgi 78 ára gamall og enn í fullu fjöri á dansgólfinu. 

Hvar dansarðu í dag?

„Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni stendur fyrir vikulegum dansleikjum í samkomuhúsi sínu uppi á Höfða. Ég er duglegur að mæta þangað. Stöku sinnum eru haldin danskvöld á Catalinu í Kópavogi, en það er eini opinberi staðurinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem er boðið upp á dans,“ segir Helgi sem mætir einnig reglulega á viðburði hjá Félagi harmonikuunnenda og samtökum áhugafólks um almenna dansþátttöku á Íslandi, Komið og dansið.”

Hvað dregur þig að dansinum?

„Mannskepnan hefur dansað frá tímum frummannsins, það er okkur eðlislægt. Ég gef mér alltaf tíma til að dansa. Dans er mjög mikils virði þegar kemur að því að halda sér í góðu formi.“

Hvaða dans er í uppáhaldi?

„Ég held upp á alla samkvæmisdansa en sérstaklega vínarvals. Honum fylgir glæsilegur þokki, en allir dansar hafa eitthvað við sig, suður-amerískir dansar eru skemmtilegir og ansi líflegir. Mér finnst mjög gaman að dansa sömbu og rúmbu en svo er alltaf gaman að taka jive, minnir mig á skólaárin.”

Hvað finnst þér um dansa yngri kynslóðanna?

„Mér finnst lítið varið í dansþróun dagsins, en hver kynslóð hefur sína takta,” segir Helgi kíminn í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda