Framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, Valgerður Rúnarsdóttir, segir tvo þætti spila hvað stærst inn í aukningu á áfengisneyslu hérlendis. Þeir eru aðgengi að áfengi og viðhorf til áfengisdrykkju. Að einhverju leyti hafi tekist að koma því inn í huga og hjörtu landsmanna að neysla áfengis sé sjálfsögð og að horft sé framhjá skaðsemi þess. Varðandi aðgengi bera stjórnvöld mikla ábyrgð.
Valgerður Rúnarsdóttir er framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, þar sem veitt er margs konar meðferð og þjónusta fyrir fólk með fíkn og fjölskyldur þess. Starfsstöðvar SÁÁ eru sjúkrahúsið Vogur, inniliggjandi meðferð á Vík og göngudeildir, sem er allt ein heild. Læknar SÁÁ sinna mest sjúklingum á sjúkrahúsinu en allt hangir þetta saman, eins og hún orðar það. Meðferðarstaðirnir Krýsuvík og Hlaðgerðarkot falla hvorugur undir starfsemi SÁÁ.
„Við erum heilbrigðisstofnun og veitum þjónustu með samningi við ríkið.“
Valgerður er hokin af reynslu í fíknilækningum og hefur starfað síðastliðin 25 ár í fullu starfi við fíknilækningar hjá SÁÁ og um tíma var hún starfandi forstjóri, eða í sjö ár. Hún lauk læknaprófi árið 1992 og kláraði sérnám í lyf- og fíknilækningum árið 2000.
Spurð um fíknisjúkdóma segir Valgerður stærsta áhættuþáttinn vera ættarsögu og að þar spili erfðir stærsta hlutverkið. Margir aðrir áhættuþættir eru þekktir, bæði líffræðilegir og umhverfisþættir, og nefnir Valgerður sérstaklega aðgengi að t.d. áfengi, sem komið verður betur inn á síðar í viðtalinu.
Meðferðarform SÁÁ er breytilegt. „Við erum t.d. búin að vera lengi hérna með meðferð fyrir karla 55 ára og eldri.“ Hún ítrekar að nálgun verkefna fari eftir aldurshópum og kyni, en sú skipting hefur verið lengið viðloðandi starfsemina.
„Við erum á sama stað og Skandinavía hvað varðar áfengisneyslu en höfum sennilega betra aðgengi að meðferð hér á Íslandi.“ Valgerður segir að hér séu við lýði svipuð lög varðandi áfengissölu og annars staðar á Norðurlöndum, fyrir utan Danmörku. Löndin eigi því margt sameiginlegt. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) og mörg Evrópulönd, segir Valgerður, líta til Norðurlanda sem góðs fordæmis er varðar aðgengi að áfengi.
„Við höfum verið fyrirmyndin.“
Nýjustu upplýsingar úr talnabrunni Landlæknis eru svakalegar og tala tölurnar sínu máli varðandi svokallaða áhættudrykkju. Valgerður áréttar að vandinn sé mikill og vaxandi hérlendis og að vísbendingarnar séu margar. „Eitt af merkjunum er það sem við sjáum hér [hjá SÁÁ], þ.e. hópurinn sem kemur í meðferð vegna áfengisfíknar.“ Neyslumynstur hafi breyst mikið, fólk drekki meira að staðaldri.
Partíið er ekki lengur aðeins um helgar eða í túrum. Fólk er í meiri mæli að fá sér alltaf smá, nokkrum sinnum í viku, segir Valgerður.
„Vandinn hefur aukist hjá þessum hópi. Það eru fleiri að koma til okkar úr þessum aldurshópi [sextíu ára og eldri] og einnig fleiri en áður að koma í fyrsta skipti í meðferð úr þessum aldurshópi.“
Fleira er markvert, t.a.m. mikil veikindi vegna áfengisneyslu hjá aldurshópnum yfir sextugu, og nefnir Valgerður dæmi um áhrif á heilann og vitræna skerðingu. „Fólk er orðið mjög veikt, eins og hefur verið skrifað í fjölmiðlum undanfarið,“ og finna þau fyrir svipuðum takti hjá SÁÁ.
Þá kemur að niðurdrepandi staðreynd, en Valgerður bendir á rannsókn sem gerð var hérlendis. „Frá aldamótum hefur orðið sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á Íslandi, þ. á m bólgum og skorpulifur.“
Hins vegar sé það síður í elsta hópnum sem fólk leiti sér aðstoðar, því þar séu meiri fordómar og skömm gagnvart áfengisvanda.
Hún vísar í niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í ágúst, frá Bretlandi (birt í Jama Network Open). Rannsóknin tók til 135.000 einstaklinga yfir sextugu, fylgt eftir í 12 ár, og sneri að heilsu, ótímabærum dauðsföllum og áfengisdrykkju. Þar var sýnt fram á 33% aukin ótímabær dauðsföll, 39% auknar líkur á dauða vegna krabbameins og 21% vegna hjarta- og æðasjúkdóma, ef áhættudrykkja var stunduð (t.d. um einn stór bjór á dag hjá konum, tveir hjá körlum). En áfengi er þekktur krabbameinsvaldur.
„Þannig að mikið er til af upplýsingum um heilsuskaðleg áhrif áfengisneyslu og hversu alvarleg þau eru.“ Hún bendir á að í því samhengi sé ekkert endilega verið að einblína á áfengisfíkn heldur áfengisneyslu almennt. „Ef fólki finnst í lagi að fá sér einn eða tvo bjóra á dag fylgir því áhætta, skaði, aukinn heilsufarsvandi og jafnvel dauðsföll.“
Valgerður bendir einnig á stóra Gallup-rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum varðandi viðhorf til áfengisneyslu. Þar kom í ljós að hjá yngsta hópnum, 18-34 ára, telja 65% að áfengisdrykkja hafi slæm áhrif á heilsu en aðeins 39% í hópnum 55 ára og eldri telja áfengisneyslu skaðlega.
„Það endurspeglar vonandi einhverja jákvæða breytingu að yngra fólkið sé meðvitaðra um skaðsemina,“ bætir hún við.
„Við höfum alveg grjótharðar staðreyndir um mikla breytingu og aukningu á áfengisneyslu.“ Ástæða þessarar aukningar segir Valgerður vera þá að hérlendis sé statt og stöðugt verið að auka aðgengi að áfengi og að áfengisdrykkja sé „normaliseruð“ í samfélaginu. Þröskuldurinn fyrir því að fá sér lækki verulega þegar t.d. auglýsingar, umræðan, boð með drykkjum, „happy hour“, skálað fyrir hinu og þessu, jafnvel íþróttum o.s.frv. sé veruleikinn sem blasi við.
„Þegar fólki þykir sjálfsagðara að drekka áfengi er meira drukkið og það hefur afleiðingar, ekki síst í elsta hópnum.“
Hefur þú, persónulega, áhyggjur af auknu aðgengi áfengis í verslunum?
„Ekki spurning.“
Valgerður segir það ekkert endilega snúa að einni tegund áfengissölu. „Það er hollt fyrir okkur að horfa á þetta í stóru samhengi. Aukið aðgengi getur verið ýmislegt; lækkað verð, að áfengi sé fáanlegt á fleiri stöðum, opnunartímar lengri og jákvæð umræða. Allt þetta heitir aukið aðgengi og aukið aðgengi er það sem hefur mest áhrif á neysluna.“
Þessu til stuðnings bendir Valgerður á vefsíðu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO), en þar eru nefnd fimm atriði um hvernig ríki heims geti tekist á við áfengistengdan vanda. Í upptalningunni sé fyrst og fremst talað um þetta aðgengi.
Blaðamaður spyr hvort aukning í áfengisneyslu geti hugsanlega tengst auknum utanlandsferðum, þar sem fólk dvelur jafnvel hluta úr árinu erlendis, eða jafnvel vanlíðan eða einsemd. Ekki stendur á svörum, en Valgerður segir það frekar einföldun að ætla að tengja þetta eingöngu neikvæðum tilfinningum fólks.
„Þetta er oftar en ekki hluti af stemningu og jákvæðri hvatningu,“ segir hún. „Fyrir einhverja getur þetta vissulega verið tengt vandamálum sem orsakast af spíral neikvæðrar þróunar vanlíðunar og einmanaleika.“ En það sem beri neysluna uppi sé viðhorf samfélagsins til áfengis og hvort það sé bara í góðu að lagi að drekka t.d. bjór alveg eins og sódavatn.
„Þetta snýst fyrst og fremst um viðhorf og aðgengi. Ef áfengi er eðlilegur hluti af daglegu lífi er það gríðarlega mikil breyting frá því sem var og er alvarlegt fyrir heilsu fólks og getur gert árin eftir sextug verri.“
Hver er ábyrgð stjórnvalda?
„Stýring á aðgengi er að mestu leyti í höndum stjórnvalda. Ef stjórnvöld telja áfengi jafn merkilegt og mjólk og að það megi bara selja það alls staðar, þá verði það endurspeglað í lögum og reglugerðum þeirra,“ segir Valgerður. „Það eru einstaklingar í stjórnmálum sem flagga hagsmunum þeirra sem þurfa og vilja selja áfengi.“
Viðhorf heilbrigðisráðherra hafi hins vegar verið skýrt og að hann hafi góða sýn á vandann og verkefnið. Hann hafi augljóslega hlustað á sjónarmið vísinda og lýðheilsu.
En svo séu stjórnmálamenn sem tali fyrir lagafrumvarpi sem auki aðgengi að áfengi. Hugsunin að baki sé klárlega ekki byggð á þeirri þekkingu og vísindum sem til eru í dag. „Þeir tala fyrir einhverju allt öðru.“
Í sambandi við umrætt frumvarp bendir Valgerður t.d. á yfirlýsingar frá stofnunum, félagasamtökum og heilbrigðisstarfsmönnum þar sem varað er við því.
„Það er til svo mikið af gallhörðum staðreyndum um hve hættulegt heilsu þetta er.“
Þegar Valgerður er spurð hvaða neysla hrjái mest aldurshópinn sextíu ára og eldri segir hún það aðallega vera áfengi og lyf. Telji einstaklingur sig eiga við áfengisvanda að stríða væri mjög gott fyrsta skref að fara til heimilislæknisins.
Einnig er hægt að panta sér viðtal á göngudeild SÁÁ. „Þótt það væri ekki annað en að spegla málið og fá álit á því hvort um vanda sé að ræða eða hvort viðkomandi geti gert eitthvað í því.“
Að lokum bendir hún á meðferð þegar um er að ræða áfengisfíkn. Hana megi fá bæði á göngudeildum SÁÁ og í inniliggjandi meðferð, en hún taki tíma og sé fjölþætt verkefni með mismunandi markmið.