Ólafur Sveinsson er 78 ára og starfaði lengi sem framreiðslumaður í vaktavinnu en hefur síðustu ár fundið sig hvað helst í fjallamennsku. Árið 1991 varð mikil breyting á lífi hans þegar hann horfðist í augu við sjúkdóminn alkóhólisma. Að hans sögn fylltist hann frelsistilfinningu yfir að vera með sjúkdóm sem hann sjálfur bæri ábyrgð á og að til væri leið í átt að bata.
Þegar blaðamaður nær sambandi við hinn 78 ára Ólaf Sveinsson, eða Óla, stendur hann í miðjum flutningum úr Garðabæ til Stykkishólms. Léttur í bragði grínast hann með að ljósmyndari Morgunblaðsins sé velkominn heim til hans í draslið sem fylgir flutningunum.
Aðspurður segist Óli vera að elta dóttur sína og tengdason til Stykkishólms því að tengdasonurinn sé þaðan. Óli á fjögur börn, „í tveimur hollum“ eins og hann segir sjálfur. Fyrstu tvö börnin eignaðist hann í fyrra hjónabandi sínu, árin 1968 og 1971. Síðara hollið kom í seinna hjónabandinu, á sama tíma og hann eignaðist fyrstu barnabörnin, eða 1988 og 1991.
Óli er fráskilinn í dag og tiltölulega nýhættur að vinna. Barnabörnin eru alls 13 svo það er nokkuð ljóst að þrátt fyrir að hann sé á eftirlaunum eru verkefnin eflaust mörg.
„Afahlutverkið var ekkert mjög sterkt í byrjun, þegar fyrstu tvö barnabörnin fæddust, því að þá var ég svo upptekinn af að vera nýorðinn pabbi aftur. En eftir því sem á leið hefur það orðið betra og betra.“ ÓIi segir það hafa verið ansi skrýtna tilfinningu að verða pabbi á sama tíma og hann varð afi, en það gangi hins vegar betur núna þegar hann hefur góðan tíma. Hann sé virkur og reyni að hjálpa til eins og mögulegt er.
Óli starfaði sem þjónn hjá Bláa lóninu í 11 ár en eftir að hann hætti þar árið 2017 fór hann að starfa sem leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands. Þá stofnaði hann gönguklúbbinn Fyrsta skrefið, ásamt góðum vini sínum, Reyni Traustasyni. Óli starfaði sem leiðsögumaður til ársins 2022. Síðan þá hefur hann starfað sem þjónn í hlutastarfi hjá Hótel Glym og á Steikhúsinu, þar sem hann hætti nýlega.
Óli gengur á hverjum degi og hefur gert það í fjölda ára. Hann segist fara mikið á Helgafellið í Hafnarfirði, Esjuna, Úlfarsfell, Grímannsfell og fleiri fjöll sem eru nálægt höfuðborgarsvæðinu.
„Fyrst og fremst halda fjallgöngurnar mér við í hreyfingu og að auki finnst mér þetta mjög skemmtilegt.“ Hann fer út í öllum veðrum og lætur veðrið aldrei stoppa sig.
Hann er einnig með hund sem þarf á hreyfingunni að halda en segir hann í sjálfu sér ekki aðalástæðu göngutúranna. Heldur séu það sjúkdómarnir sem hann glímir við en hann er með þunglyndi og hjartasjúkdóm, og þess vegna skipti hreyfingin sköpum í lífi hans.
Óli er ekkert feiminn við að segja frá edrúmennsku sinni. Hann hefur verið edrú síðan í janúar 1991. „Ég var vel virkur alkóhólisti, drakk mikið en var alltaf í vinnu,“ segir hann og bætir við að hann hafi vissulega einnig drukkið í vinnunni.
„Ég skildi við fyrri konuna mína eftir mikinn hamagang í drykkju. Ég var mjög aggressífur þegar ég drakk, hrokafullur, dómharður og stjórnsamur. Þótt ég hafi alveg átt ágætis stundir inni á milli þá var ég mjög ásækinn í vínið.“
Óli lýsir því hve stjórnsöm honum hafi fundist seinni kona sín vera þegar hann tók saman við hana og útskýrir þannig hugsunarhátt hins týpíska alkóhólista. „Hún var alltaf að vesenast í því hvað ég drykki mikið svo ég fór frá henni og hélt áfram að drekka.“
Hann segist hafa verið afar upptekinn af sjálfum sér og sínu lífi og hafa nauðsynlega þurft að skemmta sér. Þegar hann er spurður hvað hafi orðið til þess að augu hans opnuðust svarar hann einfaldlega: „Ég fór frá konunni minni því ég ætlaði að kenna henni lexíu svo hún áttaði sig á hverju hún væri að missa af. Þegar hún svo fann sér annan mann, þá kárnaði gamanið,“ segir hann og brosir við, um kænsku konunnar sinnar fyrrverandi.
„Þá ákvað ég að tala við SÁÁ og sjá hvort það væri örugglega satt sem fólk væri að segja, að ég drykki of mikið.“ Óli segist hafa verið réttur kandídat til að fara í meðferð, byrjaði á Vogi og fór svo á Sogn, sem þá var meðferðarheimili.
„Síðan hefur orðið mikil lífsbreyting.“
Í dag er hann virkur í sjálfboðasamtökum og hefur verið það síðan hann varð edrú, fyrst og fremst til að breyta sjálfum sér og bæta fyrir það sem hann hefur gert. „Ég hef lært að koma með frið þar sem er ófriður,“ eins og hann orðar það sjálfur.
Til að hefja nýtt líf hafi hann þurft að gefast gjörsamlega upp, sem hann og gerði. „Ég fann svo mikið frelsi í því að ég væri með sjúkdóm sem ég bæri ábyrgð á og það væri til leið í átt að bata.“ Hann segir að frelsið sé einnig fólgið í að bæta fyrir brotin og eiga betra líf.
„Ég man að ég fékk hugljómun á Sogni um að þetta yrði allt í lagi.“ Hann segist vera gamall kommúnisti og hafa aldrei trúað á Guð. „Það vafðist mjög mikið fyrir mér í fyrstu.“ Hann hafi þó hugsað mér sér að ef trúin væri það sem þyrfti til að verða edrú þá myndi hann byrja að trúa.
„Svo hefur það þróast og breyst í gegnum tíðina. Minn æðri máttur í dag er kærleikurinn.“
Óli segir þetta snúast um að vera meðvitaður og að passa að sinna því sem þarf til að viðhalda batanum sem hann hefur náð. Hann þurfi að vera vakandi yfir hvernig honum líður og að þar spili þunglyndið stórt hlutverk.
Það hafi verið stórt skref þegar hann ákvað að þunglyndið væri ekki lengur hans eigin byrði. Það var ekki lengur leyndarmál. „Fólkið mitt veit að ef ekkert heyrist í mér, þá er eitthvað að.“
Eitt af einkennum þunglyndisins er að á erfiðum stundum lokar hann sig af, en þrátt fyrir erfiðu dagana fer hann samt alltaf út að ganga.
„Ég hef alltaf hreyft mig,“ segir Óli þegar hann er spurður hvernig fjallgöngubakterían hafi tekið sér bólfestu í líkama hans. Árið 2011 fékk hann hugmynd um að ganga á Hvannadalshnjúk. Hann æfði sig fyrir gönguna sem fór fram úr björtustu væntingum. Í ferðinni á hnjúkinn hitt Óli leiðsögumann sem hvatti hann til að taka þátt í verkefninu 52 fjöll á vegum Ferðafélags Íslands. Sá hópur gengur á 52 fjöll yfir árið, en ÓIi var ekki viss um að hann gæti tekið þátt í því þar sem hann var í vaktavinnu á þeim tíma.
Hann lét þó tilleiðast og var kominn í gönguhópinn árið 2012. Í fyrstu missti hann af ýmsum ferðum vegna vinnu, en metnaðurinn var mikill svo hann gekk á fjöllin á öðrum tímum.
„Þegar ég greindist fyrst með hjartasjúkdóminn hafði ég deginum áður gengið á Stóra-Meitil með fjallahópnum,“ og segir hann gönguna hafa verið afar erfiða. Morguninn eftir ætlaði Óli í aðra léttari göngu en fann þá fyrir miklum þyngslum og mæði. Hann hringdi í vin sinn sem ráðlagði honum að fara á bráðamóttökuna, sem hann og gerði, og var þá settur beint í þræðingu.
Eftir ævintýrið með 52 fjöllum, gekk Óli í Framhaldslíf sem var framhald af fyrri hópnum og þá tók ástríðan fyrir fjallgöngum yfirhöndina. „Við vorum að safna fjöllum.“
Ævintýramennskan hélt áfram og fór hann að æfa jöklaklifur árið 2018. Á fyrsta námskeiðinu segist hann hafa gert mistök sem urðu til þess að hann datt og braut í sér níu rifbein.
„Þarna var ég bara heppinn. Ég hefði getað drepið mig.“
Óli hefur gengið Jakobsveginn þrisvar sem hann segir hafa verið mikla upplifun. „Þar gekk ég einn með sjálfum mér í öll þrjú skiptin.“ Í fyrsta skiptið sem hann gekk veginn árið 2022 fór hann um 800 kílómetra leið sem liggur um Frakkland og segir hann gönguna hafa verið mjög átakanlega.
„Þótt ég hefði gert ákveðin reikningsskil á lífi mínu eftir að ég varð edrú hafði ég þarna svo mikinn tíma með sjálfum mér.“ Þá velti hann sér fram og til baka upp úr því hvernig líf hans hefði verið, sem reyndist honum oft og tíðum erfitt.
Fyrir göngurnar um Jakobsveginn reyndi Óli við nokkra tinda sem eru eflaust draumur margra fjallgöngugarpanna.
Hann segir þá vinina hafa verið grandalausa þegar þeir tóku ákvörðun um að ganga á Mont Blanc í Frakklandi í október árið 2013. Fjall sem er um 4.800 metrar á hæð. Þeir hafi æft sig í Esjunni sem endaði með því að Óli var sóttur á þyrlu eftir að hafa fallið í mikilli hálku, en sem betur fer ekki slasast mikið.
„Það var því spurning hvort ég kæmist á Mont Blanc.“ Þeir létu hins vegar verða af því. „Gangan var meiri háttar,“ en þegar 400 metrar voru eftir á toppinn fékk Óli háfjallaveiki og gat ekki klárað gönguna. Hann segir að þeir hefðu þurft meiri undirbúning en að hins vegar hafi það verið ákveðin upplifun að kynnast háfjallaveikinni.
Óli lenti í svipaðri reynslu á hæsta fjalli Afríku, Kiliamanjaro. Í fyrstu var vafamál hvort hann ætti að leggja í gönguna vegna hjartasjúkdómsins. Eftir að hafa talað við lækninn og fjölskylduna hafi það þó verið ákveðið að hann færi með því loforði að ef eitthvað kæmi upp á myndi hann snúa aftur niður.
Í janúar 2022 lagði hann af stað á Kiliamanjaro og segir ferðina á fjallið hafa gengið ágætlega. Síðasta daginn, þegar fara átti síðustu 400 metrana af rúmum 5.800 metrum, var eins og slegið væri í brjóstið á honum. Hann tók sprengitöflu og súrefnismettun var 88, sem telst gott í 5.400 metra hæð. Það flaug í gegnum huga hans að klára gönguna en þá mundi hann allt í einu eftir loforðinu sem hann hafði gefið fjölskyldunni og hætti við toppinn.
Óla hefur þó tekist að ganga upp að grunnbúðum Everest, í tæplega 5.400 metra hæð. „Sú ganga hafði mikil áhrif á mig. Mannlífið þar er svo ótrúlegt og allir svo jákvæðir. Ég er bara svo stoltur af að hafa getað tekist á við þetta.“
Þrátt fyrir stoltið yfir afrekunum á fjöllum er hann fyrst og fremst stoltur af að vera í góðu sambandi við barnabörnin og stelpurnar sínar. Að lokum segist hann guðslifandi feginn að hafa hætt öllu þessu eilífðarveseni sem fylgdi áfengisneyslunni og að í dag breyti hann frekar til góðs en ills.