„Ég var með ógeðslegasta fjárhagskvíða“

Eva Mattadóttir er hér fyrir miðri mynd. Hún er gestur …
Eva Mattadóttir er hér fyrir miðri mynd. Hún er gestur hlaðvarpsins Í alvöru talað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eva Mattadóttir er gestur hlaðvarpsins Í alvöru talað sem er í umsjón Lydíu Óskar Ómarsdóttur og Gullu Bjarnadóttur. Eva er landsþekkt á Íslandi en hún heldur úti hlaðvarpsþættinum Normið ásamt Sylvíu Briem. Svo er hún markþjálfi og rithöfundur en hún gaf út barnabókina Ég get þetta ásamt dóttur sinni. Þessa dagana er hún í endurhæfingu hjá Virk eftir áfall sem hún varð fyrir þegar hún lenti í bílslysi. 

„Við höfum aldrei verið eins tengd og við erum í dag í gegnum símana okkar en samt höfum við aldrei verið jafnaftengd hvoru öðru. Mig langar hjálpa foreldrum og börnum þeirra að færast nær. Samfélagið má algjörlega taka eitthvað grettistak núna í þessum málum. Andleg velferð foreldra og hjálp og fræðsla til þeirra hefur mikil áhrif á velferð barna. Við þurfum því að huga að foreldrunum líka,“ segir Eva sem lenti í bílslysi í lok árs 2022. Síðan þá hefur hún upplifað verki í líkamanum og liðið illa. 

„Ég var svo heppin að vera með hlaðvarpið Normið þá þannig að ég var það mikill forréttindapési að geta mætt í stúdíó nokkrum sinnum í mánuði en fengið samt laun. Þannig að ég náði að lifa með verkjunum í soldinn tíma og tekið því rólega. Ég kunni samt alls ekki að hvíla mig og gefa mér rými til þess að jafna mig,“ segir hún.

Sylvía Briem og Eva Mattadóttir voru með hlaðvarpið Normið.
Sylvía Briem og Eva Mattadóttir voru með hlaðvarpið Normið.

Var korter í kulnun

Eva hefur ekki upplifað skömm yfir því að þurfa að vera í endurhæfingu en segir að það sé mögulega vegna þess að það hafi verið bílslys sem olli þessu en ekki streita.

„Ég ætla samt að segja það upphátt hér að ég var líka korter í að kulna. Ég áttaði mig samt alls ekki á því fyrr en eftir eitt ár að ég þyrfti virkilega að taka á þessu verkefni.“

Eva og Sylvía hættu með hlaðvarpið Normið og ætlaði sú fyrrnefnda bara að halda áfram með lífið eins og áður. En það gekk ekki alveg upp. 

„Það var ekki í boði að hætta. Ég ætlaði líka að gera þetta allt saman sjálf eins og svo margar konur. Ég fattaði líka alls ekki að ég mætti sækja um hjá Virk og gæti fengið endurhæfingarlífeyri. Ég var með ógeðslegasta fjárhagskvíða sem ég hef fundið á ævinni og að reyna að synda í gegnum lífið,“ segir Eva.

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarnadóttir halda úti hlaðvarpinu Í …
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarnadóttir halda úti hlaðvarpinu Í alvöru talað.

Fékk loksins hjálp

Eva upplifði mjög mikla verki frá hnakka og niður í neðra bak og leið hrikalega illa.

„Ég sá samt ekki að ég gæti lagt verkefnin frá mér og beðið um hjálp. Oj, hvað mér leið illa. Ég sat við eldhúsborðið, með kökkinn í hálsinum, kvíðann í bringunni, eirðaleysi í líkamanum og í andlegri vanlíðan. Algjör kvíðaklepri og full af hræðslu.“

Á þessum tíma hafði Eva verið að leita leiða til þess að líða betur á sama tíma og hún reyndi að halda áfram með líf sitt eins og ekkert hefði gerst. Hún hafði verið hjá læknum og sjúkraþjálfurum en engin hafði tekið almennilega utan um hana og fundið lausnir. Einu lausnirnar sem henni hafði verið rétt voru verkjalyf. Svo loksins var hún svo heppin að lenda á nýjum lækni á heilsugæslunni sem hún lýsir sem engli lífs síns.

„Hún er best og setur allt í gang. Sækir um hjá Virk og kemur mér að hjá sálfræðingi, osteopata og sjúkraþjálfara sem vinna saman sem teymi. Svo sækir hún um endurhæfingarlífeyri. Eftir þennan fyrsta tíma hjá henni fór ég út í bíl og öskurgráta,“ segir Eva.

Þarna fékk Eva loksins hjálp og lausnir. Hún komst þannig hægt og rólega upp úr kvíðanum og hjálparleysinu og fór að taka heilsuna betur í sínar hendur.

„Ég var bara búin að vera ofan í þessari holu, en þarna fékk ég aðstoð við að komast upp úr henni loksins.“

Ásamt því að setja hendur upp í loft og biðja um hjálp þá nýtti Eva bæn og hugleiðslu til þess að komast út úr þessu ástandi.

„Ég veit að þetta svar er ömurlega leiðinlegt að heyra fyrir suma. En það sem ég þurfti að gera var að stunda bæn og hugleiðslu róa taugakerfið með öndun. Það er galið hvað gerist í líkamanum mínum þegar ég hægi á öndun, bið almættið um hjálp og hugleiði.“

Taugakerfið fór í vitleysu

Það kom Evu á óvart hversu mikil áhersla er lögð á að róa taugakerfið í endurhæfingunni.

„Taugakerfið fór í fokk í bílslysinu. Öll varnarviðbrögð í hálsi og líkamanum fóru af stað, líkaminn læsti sér. Þess vegna er mikil áhersla lögð á það við mig að anda og róa taugakerfið. Ég lærði til dæmis að nota öndun sem verkjastillingu.“

Eva er mjög ánægð með þá þjónustu sem hún hefur fengið hjá Virk þar sem hún fær hjálp frá margs konar fagaðilum sér að kostnaðarlausu.

„Virk er geggjaðasta batterí sem ég hef kynnst á Íslandi. Þarna fær maður tækifæri og rými til þess að byggja sig upp.”

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda