„Já, ég leitaði til miðils og ekki í fyrsta sinn. Þrátt fyrir að hafa efasemdir um ágæti þeirrar starfsgreinar þá leita ég reglulega í slíka fundi,“ segir Kayleigh Dray pistlahöfundur á vefritinu The Stylist. Þar fjallar hún um hvernig konur eru í auknum mæli að leita til miðla til þess að setja hlutina í samhengi, samhliða hefðbundnum samtalsmeðferðum.
„Eitt sinn taldi miðill upp furðunákvæmar lýsingar á lífi mínu og gaf mér svo steinhörð sambandsráð í kjölfarið. Líf mitt lendir stundum á hindrun og skilaboð að handan veita mér staðfestingu á hvert skal haldið í framhaldinu,“ segir Dray.
„Ég er ekki sú eina. Samkvæmt könnunum hefur fjórðungur Breta leitað til miðla. Árið 2023 var New York Post með umfjöllun þar sem kom í ljós að sífellt fleiri kjósa frekar að fara til miðils en sálfræðings. Þá hefur Guardian einnig veitt þessari þróun eftirtekt og fjallað um þá tilhneigingu fólks að sameina miðlaheimsóknir við hefðbundna sálfræðimeðferð.“
„Oft taka miðlar það fram að þeir spá ekki fyrir framtíðina heldur segja manni aðeins það sem maður þarf að vita akkúrat núna. Stundum tekur það tíma fyrir mann að meðtaka skilaboðin en ég hef alltaf fundið eitthvað gagnlegt í því sem þeir segja. Hugurinn verður skýrari og ég sé að ég er að stefna rétt. Þá verð ég einnig minna kvíðin. Maður fær yfirsýn yfir lífið og skilur heiminn betur. Maður fær þarna tækifæri til þess að endurspegla sig í hlutunum og hvernig gjörðir manns hafa áhrif á leiðirnar sem farnar eru.“
Sagt er að margar ástæður séu fyrir því að fólk leiti frekar til miðla.
„Biðlistar eftir sálfræðimeðferð eða aðrar meðferðir geta verið langir. Þá eru hefðbundnar meðferðir einnig mjög dýrar og því er skiljanlegt að fólk leiti annarra leiða til þess að fá skarpari skilning á aðstæðum sínum.“
Læknar taka samt fram mikilvægi þess að sé einstaklingur að glíma við áföll og raskanir þá sé nauðsynlegt að taka á þeim undir handleiðslu fagaðila.
„Stundum getur þetta virkað vel saman. Miðlar og spádómar geta virkað hvetjandi á fólk til þess að setja heilbrigði sitt í forgang. Það að það sé til einhver æðri máttur getur hughreyst fólk og veitt þeim frið. Hefðbundnar meðferðir geta gefið fólki tól til þess að skilja og sættast við atburði fortíðarinnar. Miðilsfundir og spádómar geta hjálpað til þess að byggja ákveðinn ramma fyrir framtíðina og ýta undir persónulegan þroska.“