Ragnhildur Sveinsdóttir er flutt til Íslands eftir að hafa búið erlendis lengi, nú síðast í Svíþjóð. Hennar helsta markmið síðustu ár hefur verið að ala upp knattspyrnustjörnur en hún er móðir atvinnumannsins í knattspyrnu, Sveins Arons Guðjonsen, en auk hans á hún þrjú önnur börn með Eið Smára Guðjohnsen. Leiðir þeirra skildi.
Ragnhildur lauk kennaranámi frá Exhale Pilates London í pílates og hefur verið viðloðandi heilsu- og íþróttabransann í fjölda ára. Hún hefur kennt pilates bæði í London og Malmö. Sjálf hefur hún stundað pilates í um 12 ár og því enginn nýgræðingur í greininni.
„Ég er spennt fyrir að snúa aftur heim, taka þátt í því að breiða út boðskapinn um hversu öflugt æfingakerfi pilates er og hjálpa iðkendum að koma sér í og halda sér í topp pilates formi. Það er góð tilfinning að miðla því til annarra sem maður veit sjálfur að virkar og það er einmitt það sem ég ætla mér að gera,“ segir Ragnhildur í fréttatilkynningu frá Eldrún Pilates þar sem Ragnhildur mun hefja störf í desember.
„Það er ekki lítill fengur í því að fá Röggu til liðs við okkur enda fagmaður fram í fingurgóma og reynslumikil í faginu. Pilates æfingakerfið þrælvirkar til að bæta bæði líkamlega og andlega heilsu – þetta vita Íslendingar og þess vegna hefur það aldrei verið vinsælla að iðka pilates. Ragga kemur því inn á hárréttum tíma því það er óhætt að segja að þörf sé á kröftum hennar,“ segir Elín Ósk Jónsdóttir, annar eigandi Eldrún Pilates sem stofnað var 2016 og er til húsa í Skipholti 50b.
Ragnhildur sagði frá því í viðtali í Morgunblaðinu 2019 hvernig það hefði verið að flytja ung til Hollands þar sem fyrri maður hennar komst á samning.
„Ég var 21 árs að aldri og ófrísk að fyrsta barninu mínu þegar við fluttum til Hollands á sínum tíma. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fótbolta enda var ég sjálf í fótbolta á mínum yngri árum.“
Ragnhildur hefur undanfarin ár verið að fóta sig ein í útlöndum með börnin eftir að hún skildi. Hún segir það reyna á en hún viti að ekkert næri sig betur en að vera með börnum sínum að láta þeirra drauma rætast.
„Ég hef alltaf verið mikill nærandi í mér. Ég hef alltaf verið til staðar fyrir fjölskylduna mína og annað fólk. Það finnst mér rosalega gaman. Ætli það sé ekki í eðli mínu að vilja sjá öðrum ganga vel og ef ég get aðstoðað við það þá er ég glöð.“