Á nýju ári eru margir í tiltektargírnum og vilja ekki síður taka til í eigin lífi rétt eins og á öðrum sviðum. Margir láta af neyslu áfengis eftir sukkið í desember. Sérfræðingar segja að auðveldast sé að hætta neyslu áfengis með því að einblína á kosti þess sem það hefur í för með sér.
Kostirnir eru fjölmargir sérstaklega þegar svefninn er annars vegar.
Þrátt fyrir að áfengi geti gert mann syfjaðan þá verða gæði svefns mun lakari. Það að sleppa áfengi getur haft áhrif á svefninn til bæði skamms og langs tíma. Sleppi maður drykkju í einn mánuð þá sér maður sífellt meiri áhrif á svefninn eftir því sem á líður mánuðinn.
„Ef þú drekkur reglulega þá er ekki óeðlilegt að finna fyrir nokkrum fráhvörfum fyrstu vikuna,“ segir Tim Mercer læknir hjá NHS í samtali vð Stylist Magazine.
„Þú gætir fundið fyrir vægum hausverkjum, pirringi og löngun í sykur. Svefninn gæti raskast því þú ert ekki lengur að nota áfengi til þess að sljóvga þig fyrir svefninn. Kannski verður erfiðara fyrir þig að sofna og halda þér sofandi fyrstu næturnar. Þetta ætti þó að lagast á fáeinum dögum.“
„Gott er að huga vel að matarræðinu og taka inn magnesíum.“
„Þú ferð að finna verulega fyrir ávinningi áfengisleysis í annarri viku. Orkan er orðin jafnari og meltingin verður betri. Þá fer svefnmynstrið að verða reglulegra og það verður auðveldara að sofna. Þá vaknar maður líka endurnærðari og úthvíldari. Ef þú notar heilsuúr þá muntu sjá að REM svefninn eykst til mikilla muna á þessu tímabili.“
„Á þriðju viku ættu allir að vera byrjaðir að finna mikinn mun á sér. Sykurlöngunin snarminnkar á þriðju viku og svefninn verður dýpri. Til þess að hámarka vellíðunina og svefninn þá er mikilvægt að halda í góða svefnrútínu og vakna alltaf á sama tíma. Gott er einnig að venja sig á útiveru fyrst á morgnana. Þá þarf matartíminn einnig að vera reglubundinn og forðast skal þungar máltíðir og líkamsrækt rétt fyrir svefninn.“
„Fjórða vikan markar oftast endalok átaksins hjá fólki. Þá er samt gott að fara yfir það með meðvituðum hætti hvernig manni leið, hvort þetta hafi skilað sér í bættum svefni og aukinni vellíðan. Kannski getur maður haldið í þessar góðu venjur með einum eða öðrum hætti til framtíðar.“