„Ég held að það hafi spilað stærstan þátt í þessu öllu hvað ég var í góðu formi og hvað ég sá vel um sjálfan mig. Hvað ég borðaði vel, hvað ég svaf vel og hvað ég hugsaði yfirhöfuð vel um sjálfan mig. Þeir hafa sagt það læknarnir að það sé það sem er að vinna með mér mest af öllu,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Davíð Goði Þorvarðarson sem greindist með lífshættulegan sjúkdóm á síðasta ári.
Nákvæm orsök sjúkdómsins er óþekkt en stafar af of háum eósínófílum af óþekktri ástæðu. Því var í fyrstu haldið að Davíð Goði væri haldinn hvítblæði.
„Ég fann lítið fyrir þessari hvítblæðameðferð. Ég fann reyndar fyrir ógleði en maður getur alltaf fengið lyf við því,“ lýsir hann.
„Svo var komið að þessari stóru meðferð.“
Síðastliðið haust gekkst Davíð Goði undir beinmergsskipti í Svíþjóð þar sem talið var að hreinsun á beinmergnum myndi draga úr of mikilli framleiðslu á eósínófílum. Eósínófílar eru ein tegund hvítra blóðkorna sem gegna veigamiklu hlutverki fyrir heilbrigt ónæmiskerfi.
„Það var núna í september 2024, bara núna í haust, og það þarfnast mikils undirbúnings fyrir þá meðferð. Það tók sex mánuði að undirbúa allt áður en ég kom. Það þurfti að búa til pláss fyrir mig í Svíþjóð, það þurfti að gera plan fyrir hvaða lyfjameðferð ég þurfti að fara í áður en beinmergsskiptin áttu sér stað og það voru gerðar rannsóknir á öllum líkamanum. Ég fór í jáeindaskanna, maður fer líka í segulómun, maður fer í hjartaómun, maður fer í lungnarýmispróf og það er bara prófað allt í líkamanum.“
Um gríðarlega vandasama og erfiða aðgerð er að ræða sem reynir á hverja frumu líkamans en hefur ekki síður mikil áhrif á andlegu hliðina. Að sögn Davíðs Goða var aðdragandi aðgerðarinnar langur og strangur enda ekki gengið að því að undirbúa langa spítaladvöl í öðru landi nema með góðu skipulagi.
„Til þess að fara í svona meðferð þá þarftu að hafa ákveðna hluti í lagi. Hjartað þarf að vera nógu sterk, lungun þurfa að vera nógu sterk og þú verður að vera sterkur einstaklingur, sérstaklega í hausnum.“
Davíð Goði viðurkennir að hafa átt um sárt að binda þegar ákveðið hafði verið að hann þyrfti að gangast undir beinmergsskiptin. Óvissuástandið leiddi hugann um víðan völl og hugmyndin um allt það sem var og hefði geta orðið, ef fótunum hefði ekki verið kippt undan, reyndist Davíð Goða erfið.
„Mér leið rosalega illa. Ég var stressaður, ég var sorgmæddur og ég syrgði svolítið gamla lífið mitt sem ég hafði átt áður en þetta gerðist. Ég hafði aldrei þurft að fást við veikindi eða svona óvissu á ævi minni áður. Við konan mín höfðum líka misst lífið okkar eins og við höfðum séð það fyrir okkur.“
Áður en til veikinda Davíðs Goða kom, eða í byrjun árs 2024 höfðu hann og kærasta hans gert áætlun sín á milli sem sneri að því hvernig þau hygðust þróast saman sem par. Voru barneignir ofarlega á þeim lista. Langaði þeim báðum til að færa samband sitt á annað stig með því að eignast börn saman. Framtíðina og foreldrahlutverkið sáu þau í hyllingum.
„Það einhvern veginn fór svolítið út um gluggann þarna. Við þurftum að fást við þær aðstæður sem þarna voru komnar til okkar,“ segir Davíð Goði sem ákvað í kjölfarið að hafa vaðið fyrir neðan sig og leita ráða hjá tæknifrjóvgunarfyrirtækinu Livio.
„Snemma í ferlinu þegar ég fékk að vita að þessi beinmergsskipti ættu að fara fram þá var líka sagt við mig að í 99% tilfella þá verður maður ófrjór eftir svona meðferð. Sem þýðir að maður getur ekki eignast börn á náttúrulegan máta sem okkur langaði mig til að gera. Ég var heppinn að fá að fara í Livio og frysta og gera ráðstafanir til þess að geta eignast börn seinna en það var ekki það sem ég hafði séð fyrir mér,“ lýsir hann en örlögin gripu inn í og voru parinu hliðholl í þetta sinn.
„En við fengum glugga. Við fengum einn mánuð þarna rétt á milli þar sem ég var ekki á lyfjum sem höfðu áhrif á líkamann minn og áður en ég fór í meðferðina, þar sem við kærastan mín gátum látið reyna í eitt skipti eða einn mánuð á að eignast barn náttúrulega,“ útskýrir Davíð Goði.
„Við létum á það reyna og það hafðist.“
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Davíð Goða í heild.