„Ég get allt sem ég ætla mér“

Anna Jóna tók heilsuna föstum tökum fyrir örfáum árum.
Anna Jóna tók heilsuna föstum tökum fyrir örfáum árum. Ljósmynd/Aðsend

Anna Jóna Gísladóttir, starfsmaður á sambýli og þjálfari hjá fjarþjálfunarfyrirtæki sínu Peak Fitness, hefur ekki alltaf verið í góðu formi eða hugsað vel um heilsuna. Hún þróaði með sér lotugræðgi, átröskun sem einkennist af óhóflegu áti í endurteknum lotum, þegar hún var 18 ára gömul og upp frá því fór líf hennar að snúast um mat.

Anna Jóna tók heilsuna föstum tökum fyrir örfáum árum og stofnaði Peak Fitness ásamt sambýlismanni sínum, Sæmundi Frey Erlendssyni, í október á síðasta ári til að hjálpa fólki að ná góðum tökum á heilsunni, líkt og hún hefur gert.

Anna Jóna spilaði fótbolta með ÍA, Leikni og Fylki sem …
Anna Jóna spilaði fótbolta með ÍA, Leikni og Fylki sem barn. Ljósmynd/Aðsend

Anna Jóna er fædd og uppalin á Akranesi. Hún var aktífur krakki og æfði íþróttir af kappi, spilaði meðal annars fótbolta með knattspyrnufélagi ÍA og sýndi snilldartakta með boltann. Grunnskólagangan var henni þó oft og tíðum erfið vegna andlegrar vanlíðanar sem gerði það að verkum að hún fór að leita sér huggunar í mat og varð til þess að hún missti áhugann á íþróttum. 

Hvernig var samband þitt við mat á uppvaxtarárunum?

„Sko, ég pældi mjög lítið í mat þegar ég var yngri, borðaði bara það sem var til og hugsaði lítið um næringargildið. Ég hef, alveg frá því ég man eftir mér, verið algjört matargat og leitað í kolvetni og feitan mat. Ófáa daga kom ég heim úr skólanum, útbjó samlokur með osti, sauð núðlur og þefaði uppi hin ýmsu góðgæti. Ég var líka algjör nammigrís.“

Hvenær var það sem þú byrjaðir að bæta á þig, var einhver ástæða?

„Þetta gerðist seint á táningsaldri, en þá hætti ég að spila fótbolta og fór að eyða öllum tíma mínum fyrir framan tölvuskjáinn, með snakkpoka við hönd, og bara einangraði mig frá umheiminum.

Þegar ég var 18 ára gömul byrjaði ég að vinna á Dominos og borðaði pítsu á hverjum degi og nánast í öll mál, þá fór talan á vigtinni hratt hækkandi, sem leiddi til þess að ég þróaði með mér lotugræðgi.“

Anna Jóna hefur stundað ræktina af kappi síðustu ár.
Anna Jóna hefur stundað ræktina af kappi síðustu ár. Ljósmynd/Aðsend

Hvenær uppgötvaðir þú „vandamálið“?

„Þegar hápunktur dagsins var að koma heim úr vinnunni og háma í mig mat yfir sjónvarpsþáttum í þeirri von um að mér liði betur. Þetta var daglegt, ég hugsaði ekki um annað en mat, sælgæti og snakk.“

Hvað gerðir þú til að koma þér af stað?

„Ég byrjaði að mæta með vinkonu minni í ræktina, ég þorði ekki ein, vissi ekkert hvað ég var að gera né hvar ég ætti að byrja. Vendipunkturinn kom þegar ég skráði mig í þjálfun hjá Gunnari Stefáni í FA Fitness, það gjörbreytti lífi mínu. Hjá honum lærði ég að telja næringargildi, lyfta rétt og vel og náði geggjuðum árangri án þess að fara út í of miklar öfgar.“

Hvað hefur þetta verið langt ferli og hvað hefur það gefið þér?

„Ég steig fyrst inn í líkamsræktarstöð árið 2015, þá 20 ára gömul, og hef ekki litið til baka síðan þá. Það besta sem hreyfing hefur gefið mér er sjálfstraust. Ég hef alltaf verið feimin og læðst meðfram veggjum en hægt og bítandi hefur mér tekist að skríða út úr skelinni.“

Anna Jóna hefur náð miklum árangri.
Anna Jóna hefur náð miklum árangri. Ljósmynd/Aðsend

Voru hindranir á leiðinni?

„Já, sérstaklega þar sem ég glími við lotugræðgi. Það hefur tekið mig margar tilraunir að komast á þann stað sem ég er í dag. Fyrir tæpum tveimur árum veiktist ég illa og í gegnum greiningartímabilið, sem tók ansi langan tíma, þyngdist ég um rúm 20 kíló. Ég fór úr 76 kg í 99 kg á einhverjum mánuðum, en síðasta eina og hálfa árið hef ég misst 22 kg og er aftur komin niður í 76 kg en nú með mun meiri vöðvamassa á mér en áður.“

Hvað hefur verið erfiðast að yfirstíga?

„Lotugræðgi er mjög lúmsk og hefur leikið mig grátt. Með tímanum hef ég lært að tækla hana og ég veit að hún mun fylgja mér út ævina. Það hafa komið ár þar sem hún hefur legið í dvala en stundum, án fyrirvara, „poppar“ hún upp og veldur mér mikilli vanlíðan, ég hætti að mæta í ræktina og borða eins og ég fái borgað fyrir það.“

Anna Jóna þrefaldaði vöðvaaukningu þegar hún fór að hvíla meira.
Anna Jóna þrefaldaði vöðvaaukningu þegar hún fór að hvíla meira.

Hvað hefur verið auðveldast að yfirstíga? 

„Bara að mæta á æfingar. Það gefur mér svo ótrúlega mikið, orku, sjálfstraust, stolt og jákvæðara hugardag. Mæting er bæting!“

Hvað sérðu þegar þú horfir í spegil í dag?

„Sterka og flotta stelpu sem hefur loksins fundið tilgang sinn í lífinu.“

Anna Jóna og Sæmundur Freyr hafa verið í sambandi í …
Anna Jóna og Sæmundur Freyr hafa verið í sambandi í fjögur ár. Ljósmynd/Aðsend

Hver er þinn helsti styrkleiki?

„Ætli það sé ekki að setja mig í spor annarra, ég er skilningsrík og góð við fólkið í kringum mig.“

Hver er þinn helsti veikleiki?

„Sjálfsgagnrýni, það er aldrei neitt nógu gott sem ég geri.

Hvað uppgötvaðir þú síðast um sjálfa þig? 

„Ég get allt sem ég ætla mér.“

Ræktin er orðin annað heimili Önnu Jónu.
Ræktin er orðin annað heimili Önnu Jónu. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo, hvernig hefur þú brugðist við því? 

„Já, algjörlega. Það eru ekki mörg ár síðan ég mætti sex til sjö sinnum í viku í ræktina til að lyfta, sem er alltof mikið fyrir meðalmanneskju sem er að reyna að bæta á sig vöðvamassa, enda varla vottur af vöðva á mér á þeim tíma. Ég fór að mæta fjórum til fimm sinnum í viku sem hefur hjálpað mér, en vöðvaaukningin hjá mér hefur þrefaldast með því að hvíla meira.“

Hvað er þitt helsta markmið?

„Að aðstoða stelpur/konur að líða vel í eigin líkama, bæði andlega og líkamlega, og bæta hugarfar þeirra tengt mat þar sem það eru hrikalega margar villandi upplýsingar í boði á netinu í dag. Hin svokallaða „diet culture“ þrífst á því að selja fólki einhverja vitleysu þegar í grunninn vantar okkur betri matarvenjur og það er ekki hægt að flýta fyrir árangri. Ég vil vera þjálfarinn sem ég hefði viljað hafa þegar ég þurfti hjálp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda